Ertu búin(n) að fá nóg af löngum rútuferðum þar sem varla gefst tími til að nærast, hvað þá njóta þess sem fyrir augu ber?
Langar þig að upplifa draumaferðina með hæfilegri blöndu af athöfnum og athafnaleysi?
Algeng ummæli þeirra sem komið hafa í ferðirnar okkar eru: “Ég hefði aldrei trúað því að ég gæti farið í svona ferð!”
Við hjá Fararsniði höfum tekið fagnandi hugmyndinni um velferðir (e. Slow Travel) þar eð við teljum að fólk vilji eindregið fá næði til að njóta augnabliksins á fallegum og framandi stað. Við leggjum upp úr rólegri dagskrá á hverjum degi og þó um hreyfingu sé að ræða, þá er þess gætt að hún sé við flestra hæfi.
Sælkeragöngur
Fararsnið ehf. hefur um nokkurt skeið sérhæft sig í ferðum sem við köllum “Sælkeragöngur”. Þar er lagt uppúr því að stunda holla hreyfingu, kynnast þeim svæðum sem um er að ræða með því að ganga um sveitir og þorp eða leigja sér hjól.
Hugmyndin er að hreyfa sig nokkuð á daginn og njóta lystisemda lífsins í mat og drykk á kvöldin.
Við höfum valið okkar eftirlætis veitingastaði í borgum og sveitum og virta vínkjallara, sem taka gesti í skoðunarferðir um húsakynni sín og bjóða uppá smökkun og hvaða vín hæfi hvaða mat.
Við heimsækjum ólífubændur og fáum jafnvel að smakka mismunandi framleiðslu þeirra. Við höfum farið með fólk á matreiðslunámskeið og endað með konunglegri máltíð, sem allir hafa tekið þátt í að elda.
Tónleikaferðir
Eftir sem áður eru það þó tónlistarhópar, kórar og hljómsveitir á leið á tónlistarhátíðir, eða í sérsniðnar tónleikaferðir, sem eru stærsti hluti farþega okkar. Samstarfsaðilar Fararsniðs ytra í þessum ferðum eru allt ferðaskrifstofur, sem sérhæfa sig í móttöku slíkra hópa og í mörgum tilfellum standa fyrir alþjóðlegum hátíðum sjálfir.
Kennaraferðir
Þá fjölgar stöðugt þeim hópum kennara, sem ferðast með Fararsniði, en okkur hefur tekist að auðvelda kennurum og öðrum skólastarfsmönnum að komast á ráðstefnur, sýningar og í skólaheimsóknir erlendis, sem lið í endurmenntun sinni.
Um okkur

Ég heiti Ásta Björk Sveinsdóttir og er nýr eigandi ferðaskrifstofunnar Fararsniðs. Hjónin Ágústa Helgadóttir og Jón Karl Einarsson hafa rekið Fararsnið frá árinu 2004 og má með sanni segja að fagmennska og metnaður hafi ráðið för í rekstri þeirra hjóna. Ég er afar spennt að taka við rekstrinum og er staðráðin í að viðhalda þeim gæðum rekstursins sem hjónin hafa haft að leiðarljósi.
Ég hef starfað á sviði mannauðsmála í hátt í 30 ár. Í starfi mínu hef ég skipulagt viðburði og afar fjölbreyttar ferðir starfsmanna út fyrir landsteinanna. Auk þess hef ég skipulagt ýmsar ævintýraferðir fyrir hópa og má sem dæmi nefna afar velheppnaða sælkera – rafmagnshjólaferð til Króatíu sem við fórum nýlega, þar sem við blönduðum saman siglingum milli króatískra eyja og hjólaferðum.
Einnig má geta þess að ég hef bæði skipulagt og séð um fararstjórn í skíðaferðum til Ítalíu og Austurríkis, árshátíðarferðum víða um Evrópu, fótboltaferðum og mótsferðum fyrir unglingalandslið HSÍ. Eins og sjá má hef ég allnokkra reynslu á þessu sviði og ljóst er að sú reynsla mun koma sér vel í nýjum og spennandi verkefnum.

Það er mér einnig mikil ánægja að segja frá því að Guðbjörg Magnúsdóttir hefur gengið til liðs við Fararsnið.
Guðbjörg hefur margra ára reynslu af skipulagningu ferða hvort sem er hér innanlands sem utanlands og má eiginlega segja að hún hafi verið með annan fótinn á Ítalíu frá árinu 1994 og þekkir því landið og menningu þess afar vel.
Það verður krefjandi en einnig mjög skemmtilegt verkefni að taka við af Ágústu og Jóni Karli, sem eins og áður segir hafa skilað sínu verki af mikilli fagmennsku, natni og alúð. Við Guðbjörg munum leggja okkur allar fram við að viðhalda sömu gæðum, þar sem kjörorðin „að njóta en ekki þjóta“ verða í hávegum höfð.
Fráfarandi eigendur

Við hjónin, Ágústa Helgadóttir og Jón Karl Einarsson, byrjuðum í fararstjórn hjá Ingólfi Guðbrandssyni árið 1985 og búum því að rúmlega 30 ára reynslu í ferðamennsku. Það hefur verið áhugavert að byggja upp svona rekstur og kynnast á nýjan hátt, atvinnuvegi sem við þó höfðum allnokkra reynslu af.
Það er skemmtilegt að sameina þannig ánægjuna af eigin ferðalöngum og ánægjuna af að kveðja þakkláta ferðafélaga í ferðalok.