Fyrir nokkrum árum gerðum við hjónin okkur ferð í Arenuna í Verona, þetta risastóra hringleikahús sem Rómverjar byggðu á fyrstu öld e.kr. og stendur þarna enn. Þegar Arenan var byggð stóð hún utan borgarmarkanna þar sem hún hlýtur að hafa blasað við úr öllum áttum og dregið til sín skemmtanaglaða íbúa úr nærliggjandi byggðum. Svo skínandi fögur, gerð úr rauðleitum kalksteini frá Valpolicella sem greinilega er endingargott byggingarefni.Það var mikil upplifun að ganga inn í þetta forna mannvirki. Óhjákvæmilega verður manni hugsað til þess fjölda sem þangað hefur sótt skemmtanir eða spennu síðustu tuttugu aldirnar.
Sem betur fer hafa viðhorf manna til skemmtana þó breyst með tímanum. Rómvejar skemmtu sér við að horfa á skilmingarþræla og villt dýr berjast fyrir lífi sínu og fengu jafnvel að hafa áhrif á það hvort lífum þeirra skyldi þyrmt eða ekki. Ljón, tígrisdýr, krókódílar, nashyrningr og margar aðrar dýrategundir voru sóttar til Afríku og Asíu og birnir til Skotlands til þess að eins að enda líf sitt í Arenunni mönnum til skemmtunar. Skilmingaþrælar börðust ýmist hver við annan eða við dýr og dýrum var att saman. Andrúmsloftið hlýtur að hafa verið hlaðið spennu og blóðlyktin legið í loftinu.
Tónlistin tekin við

Á síðari öldum sóttu menn þangað kappleiki og mót af geðfelldara tagi en í seinni tíð hefur tónlistin verið allsráðandi. Margir frægir tónlistamenn hafa haldið tónleika í Arenunni eða komið þar fram í óperum m.a. nokkrir landar t.d. Kristján Jóhannsson, Kristinn Sigmundsson og Björk. Um 1913 varð Arenan vettvangur fyrstu raunverulegu utanhúss-óperunnar í heimi og enn er hún talin ein sú mikilvægasta.
Að skynja söguna
En nú vorum við hjónin þarna komin til að njóta tónlistar á heimsmælikvarða. Sætin okkar voru í miðjum hringnum (arenunni) þar sem bardagarnir fóru fram forðum. Það átti að flytja óperuna Carmen eftir Georges Bizet með úrvals tónlistarfóki og glæsilegri sviðsetningu.
Fjöldi fólks var þarna bæði innlent og erlent, sumir á stuttbuxum og strigaskóm og aðrir í sínu fínasta pússi. Spenna var í loftinu og hátíðarstemning, allir komnir til að upplifa eitthvað alveg sérstakt, njóta óperusýningari í þessu einstaka forna mannvirki og það í hlýju kvöldloftinu undir stjörnubjörtum himni, myrkur skollið á og sviðið eitt upplýst. Ég get því sannarlega mælt með því fyrir alla, óháð tónlistaráhuga að upplifla viðburð í Arenunni.
Höfundur: Ólöf Oddgeirsdóttir