Orðsending vegna Covid-19

Kæru ferðafélagar,

Engar ferðir verða þetta árið á vegum Fararsniðs.  Það er okkur þungbær staðreynd. Við hjónin höfum alla tíð lagt okkur fram um að standa við allar skuldbindingar okkar, oft með miklu umstangi.  

Þó að forsendur breytist, svo sem þegar flugfélög fella niður ferðir sínar, allsherjarverkföll eða aðrar utanaðkomandi aðstæður, að ekki sé talað um þegar faraldur geisar á svæðinu, þá reynum við ávalt að gera allt til að uppfylla óskir ferðamannsins.  En þrátt fyrir góðan vilja, þá verður ekki alltaf við ráðið, sbr. “kóngur vill sigla, en byr hlýtur að ráða”.

Það hefur löngum tíðkast í ferðaþjónustu að óska eftir staðfestingu á að viðkomandi sé ákveðinn í að fara ferðina, með ákveðnu gjaldi við bókun ferðar.  Fullnaðargreiðsla er svo greidd nokkrum vikum fyrir brottför. Með þessu er farþeginn að tryggja sér sæti og gagnvart ferðaskrifstofunni liggur snemma fyrir hvort nægur áhugi sé á ferðinni til þess að leggja upp í alla undirbúningsvinnuna. 

Það vill stundum gleymast að skuldbindingin nær til beggja aðila, ferðamannsins að standa við staðfestingu sína og greiða fyrir ferðina, en  ferðaskrifstofunnar að uppfylla ferðadagskrána, jafnvel þó ýmsar forsendur geti breyst á löngum undirbúningstíma.

Um áramótin voru allar þær ferðir sem Fararsnið hafði sett upp fyrir sumarið 2020 að fullu staðfestar. 

Fljótlega varð þó ljóst að þrátt fyrir mikinn áhuga á ferðunum okkar vofði yfir okkur mikil óvissa um hvenær yrði ferðafært til Ítalíu. Að endingu lá fyrir að landið yrði lokað í júní og ekkert flug þangað.  

Betur horfði með ferðir í ágúst og september. Við höfðum fylgst náið með fækkun á nýsmitum á Norður-Ítalíu og þar hefur verið um jákvæða þróun að ræða.  Vert er líka að geta þess að sveitirnar og þorpin, sem eru á ferðadagskrám okkar hafa sloppið einstaklega vel við faraldurinn, sum sloppið algerlega.

Þess vegna lögðum við í mikla vinnu með okkar samstarfsaðilum ytra, til að ferðirnar gætu raungerst.  Tryggt var að farþegar okkar hefðu aðgreint svæði á hótelum og veitingahúsum.  Bókaðar voru stærstu rútur fyrir 25-30 manns með miklu umframrými og fleira og fleira.  

Það kom þó á daginn að viðhorf farþeganna hafði breyst og eftir alla óvissu síðustu mánaða, hlökkuðu sumir einfaldlega ekki lengur til ferðarinnar.  Þar með vorum við milli steins og sleggju.  Gætum við staðið við skuldbindingu okkar gagnvart öðrum farþegum og haldið úti ferðinni, eða væri ráðlegra að fella ferðirnar niður strax?  Það var því til lítils barist í þetta sinnið og niðurstaðan varð að fella niður þær ferðir sem eftir stóðu

Enginn veit í dag hvað sumarið 2021 ber með sér.  Við erum þó ákveðin í að stefna á þær ferðir næsta sumar, þar sem flestir eiga hjá okkur inneign í þeirri góðu trú þá verði öðruvísi umhorfs á Ítalíu en hefur verið í sumar.  

Góður meirihluti þeirra sem greitt höfðu staðfestingu vildu nefnilega eiga þá greiðslu hjá okkur, sem staðfestingu fyrir samsvarandi ferð næsta sumar og er það okkur mikil hugarhægð. 

Við trúum því að tíminn vinni með okkur og að upp renni nýtt ferðasumar til Ítalíu, þó með einhverjum breytingum verði, rétt eins og hér heima.  Vonandi erum við öll meðvituð um að það er varkárni í samskiptum og aukið hreinlæti, sem hefur verið lykillinn að góðum árangri hér á landi.  Öllu þessu verðum við halda áfram hvort sem við erum á Íslandi eða erlendri grund. 

Við hjónin viljum að endingu þakka öllum þeim sem bókað höfðu í ferðirnar okkar, bæði þeim sem hættu alveg við og þó enn frekar hinum sem héldu staðfestu sinni og ákváðu að setja stefnuna á Sælkeraferð næsta sumar.