Fréttir af Fararsniði og Ítalíu

Kæru ferðafélagar að fornu og nýju.

    • Fararsnið stefnir að 4 Ítalíuferðum á árinu 2021
    • Uppselt er í tvær ferðanna – laust er í ferðirnar hér fyrir neðan
    • Áskrifendur á póstlista fá fyrstu fréttir – skráning hér

Engar ferðir voru farnar á vegum Fararsniðs á árinu 2020.  Ekki þarf að fara mörgum orðum um hversvegna.  Um leið og fella þurfti ferðirnar niður, var jafnframt ákveðið af freista þess að fara þær á þessu ári, 2021.  Þetta var ekki síst gert að ósk farþeganna sjálfra, sem frekar kusu að eiga staðfestingargreiðslur sínar inni, heldur en að fá þær endurgreiddar.

Nú þegar vel virðist ganga með að hemja faraldurinn skæða og ekki síður þegar hyllir undir bólusetningu landsmanna, þá finnum við fyrir því að fólk langar að heyra hver afstaða okkar er gagnvart ferðum sumarsins.

Vilji okkar er enn sá að standa við þær ferðir sem seldar höfðu verið, þ.e. að fara með tvo hópa á Gardasvæðið, einn til Toskana og einn í Vínuppskeruferð að hausti.  Þetta er byggt á þeirri bjartsýnu trú, að allir farþegar okkar hafi, er þar að kemur, verið bólusettir og í tæka tíð. 

Þetta er ekki endilega óraunhæft, þar eð farþegar okkar eru almennt í þeim aldurshópi að vera framarlega í röðinni.  

Við trúum því að tíminn vinni með okkur og að upp renni nýtt ferðasumar til Ítalíu, þó með einhverjum breytingum verði, rétt eins og hér heima.  Vonandi erum við öll meðvituð um að það er varkárni í samskiptum og aukið hreinlæti, sem hefur verið lykillinn að góðum árangri hér á landi. 

Við höfum núorðið tamið okkur grímunotkun dagsdaglega, erum meðvitum um snertismit og þekkjum öryggið í aukinni fjarlægð milli manna.  Við munum halda áfram að fylgja sóttvarnarreglum sem eru í gildi, hvort sem við erum á Íslandi eða erlendri grund. 

Við hjónin viljum að endingu þakka öllum þeim sem bókað hafa í ferðirnar okkar, bæði þeim sem hættu svo alveg við og þó enn frekar hinum sem héldu staðfestu sinni og ákváðu að setja stefnuna á Sælkeraferð nú í sumar.

Toskana  Sælkeraganga 21. – 30. júní 2021  (8 sæti laus)

Sælkeraganga er fyrir þá sem vilja hreyfa sig nokkuð í fríinu sínu, en gera líka vel við sig í mat og drykk.

Sælkeragöngur sem þessar eru frábær hugmynd fyrir matarklúbba, saumaklúbba, félagasamtök og aðra vinahópa sem vilja komast í nálægð við fegurð viðkomandi svæðis og njóta um leið þess besta sem matar- og vínmenning heimamanna hefur upp á að bjóða.

Sælkeraganga við Gardavatn 30. júní – 07. júlí 2021 (10 sæti laus)

Flogið er til Mílanó í beinu flugi og gist á Hótel Poiano, í litla póstkortabænum Garda, sem vatnið dregur nafn sitt af. 

Skipulagðar gönguferðir eru út frá hótelinu. Um styttri dagsferðir er að ræða þar sem gengið er um næsta nágrenni, bæði lægri fjöll og grösuga dali. Á matmálstímum er snætt hjá bændum eða nærliggjnadi veitingahúsum. Sumar gönguleiðirnar liggja fram hjá vínkjöllurum heimamanna og eru þeir þá heimsóttir og þar er hægt að smakka framleiðslu þeirra.