Kór Neskirkju á Suður-Ítalíu

Upphitun við Gerace
Upphitun við Gerace

Kór Neskirkju fór í tónleikaferð til Suður-Ítalíu 7-14 júní 2010.  Fjörutíu manns tóku þátt í ferðinni, 33 kórfélagar, Hallveig Rúnarsdóttir sópran og fáeinir makar. Fararstjórar voru Steingrímur Þórhallsson, stjórnandi kórsins, menntaður á Ítalíu og hin ítalska Pamela De Sensi, flautuleikari og eiginkona Steingríms.  Haldnir voru þrennir tónleikar, sungið við tvær messur og ferðast vítt og breitt um Kalabríu og allt suður til Sikileyjar.  Kórnum var alls staðar vel  tekið og hlýja og gestrisni einkenndi viðmót heimamanna.

Tónleikar í Gerace
Tónleikar í Gerace

Innihald ferðarinnar var skipulagt af farstjórum og ferðanefnd.  Við nutum dyggrar aðstoðar og ráðlegginga Jóns Karls Einarssonar, einkum þegar kom að því að koma hópnum til Ítalíu og alla leið suður til Lamezia Terme.  Flogið var til Bologna, áð þar um stund og síðan haldið áfram með flugi suður á bóginn.  Með eljusemi tókst Jóni Karli að koma okkur í mjög hagstætt og gott flug sem átti stóran þátt í að halda niðri kostnaði og stuðlaði að því að hægt var að nýta ferðadaga til hins ýtrasta.  Það var ekki tilviljun að við leituðum til Jóns Karls því hann skipulagði fyrir okkur tónleikaferð til Helsinki og Tallinn árið 2008 og höfðum við því af honum mjög góða reynslu.