Hallveigarbræður – vorferð til Ítalíu

Hallveigarbræður ásamt mökum fóru í vorferð til Ítalíu, dagana 19. til 26. maí 2012. Fararstjóri í ferðinni var br. Jón Karl Einarsson, sem einnig átti frumkvæði að henni. Þátttakendur í ferðinni voru 20 Hallveigarbræður ásamt 19 mökum eða alls 39 manna hópur.

Eftirmynd ísmannsins
Eftirmynd ísmannsins

Að morgni laugardagsins 19. maí var flogið til Frankfurt am Main í Þýskalandi, en þar beið rúta sem Íslendingurinn Grétar Hansson á og rekur, en hann sá um að flytja hópinn alla daga í samræmi við ferðaskipulagið. Aðfararnótt sunnudagsins var gist á hóteli í Ulm í Baden-Wuttemberg, en borgin er í um 480 m. hæð yfir sjó. Þess má geta að í Ulm er hæsti kirkjuturn heims sem er 161 meter á hæð. Á sunnudginum var ekið til Innsbruck sem er höfuðborg Týrol og liggur enn hærra en Ulm eða í 575 m. y. sjó. Á leiðinni var til Innsbruck var stoppað nokkrum sinnum til að njóta hinnar stórkostlegu náttúrufegurðar og festa hana á filmu eftir því sem hverjum og einum hentaði. Eftir að hafa notið veitinga í hinum heillandi miðaldarmiðbæ í Innsbruck var haldið á Brennerskarðið, sem er ógleymanlegt öllum sem þá leið fara vegna hrikanleika og fegurðar, en þar er hæst farið í 1.374 m.y.s. Ekið var sem leið liggur til Bolzano sem er höfuðborg fylkisins Suður-Týrol á norður Ítalíu.

Þar hittum við Jónu Fanney Svavarsdóttur sem þar dvelst við nám ásamt sambýlismanni sínum. Með þeim fórum við á ÖTZI safnið, en þar eru varðveittar mynjar um ísmanninn sem fannst 1991 í Ölpunum milli Ausurríkis og Ítalíu, en var uppi um 3.300 fyrir krist eða fyrir um 5.300 árum.

Beinagrind, fatnaður og vopn Ísmannsins hafa varðveitst með undarverðum hætti og eru varðveitt á þessu skemmtilega safni. Eftir að hafa borðað sameiginlegan kvöldverð á veitingahúsi var haldið til Garda við Gardavatn en þangað var ferðinni heitið á hótel sem heitir Poiano sem er í eigu greifahjóna og er hátt uppí hlíðinni í Garda.

Hópmynd af ferðafélögunum
Hópmynd af ferðafélögunum

Mánudagurinn var tekin rólega en um eftirmiðdaginn var farið í vínsmökkun þar sem eftir fróðlega kynningu var boðið var uppá gæða hvít- og rauðvín ásamt brauði og ostum. Um kvöldið var borðað á gömlum, virðulegum stað í gamla bæjarhluta Garda.

Á þriðjudagsmorgni var ekið til Verona þar sem innlendur leiðsögumaður tók á móti okkur. Verona er ein elsta og fegursta borg Italiu og er hún á minjaskrá UNESCO. Fyrst var ekið upp á Borgo hæðina þar sem útsýni er mikið og fallegt yfir borgina. Ferðalangarnir gengu síðan niður hæðina með viðkomu hjá Teatro Romano leikhús rústunum sem er eitt af þeim fyrstu sem byggt var úr steini en það er talið hafa verið byggt um 25 árum fyrir krist. Frá Teatro Romano gengum við yfir ána Fiume Adige sem er önnur lengsta á Ítalíu og skiptir Verona í tvennt.

Elskendur allra tíma Rómeó og Júlía sem Shakespeare gerði ódauðleg í verki sínu bjuggu í þessari borg. Gengum m.a. fram hjá húsi Júlíu og svalirnar frægu eru enn á sinum stað. Að öðru leyti eyddi fólk síðan deginum eins og hverjum og einum hentaði. Áður en heim var haldið var ferðinni til Verona lokið með góðum kvöldverði við eitt elsta torg borgarinnar þar sem við lukum kvöldinu með því að syngja hástöfum á Sprengisandi sem þakklætisvott fyrir þjónustuna.

Á miðvikudaginum var á dagskránni að ganga upp á höfðann ofan við Garda, en í þá gögnu fórum um helmingur af ferðalöngunum, annar hluti hópsins tók bíla á leigu og fóru til Feneyja og nokkur voru í rólegheitum við sundlaugabarminn.  Allir hópar voru ánægðir að degi loknum. Seinni part dagsins var síðan farið í heimsókn til greifahjónanna sem eiga hóteið sem við dvöldumst á. Við það tækifæri afhenti yfirmeistari stúkunnar br. Jón Karl Einarsson greifynjunni veglega ljósmyndabók með myndum frá Íslandi sem gjöf frá bræðrunum, en hann hafði myndað vináttutengsl við greifafjölskylduna.

Br. ym. Jón Karl Einarsson afhenti greifynjunni bókagjöf frá bræðrunum
Br. ym. Jón Karl Einarsson afhenti greifynjunni bókagjöf frá bræðrunum

Eftir morgunverð á fimmtudeginum var stefnt á hæsta fjall Veneto – Monte Baldo en þaðan er stórfenglegt útsýni til vesturs í átt til Dolomítanna og einnig til fjallanna austan þess. Síðasta spölinn upp á fjallið var farið í tveimur mismunandi lyftutegendum. Flestir höfðu gaman af þessum lyftuferðalögum og nutu útsýnisins. Eftir þessar lyftuferðir voru gengnir um 12 kílómetrar í um það bil 30° C hita sem var þannan dag, að göngu lokinni var áð á veitingastað upp í fjallinu og síðan fóru ferðalangarnir mettir og sælir heim á hótel. Um kvöldið var síðan snæddur kvöldverður á góðum fjölskyldustað í bænum.

Á föstudögum eru markaðsdagagar í Garda og byrjuðum við daginn þar á markaðinum, en þar kenndi ýmissa grasa eins og gjaran er á slíkum mörkuðum. Kl. 11 tókum við bát yfir til Sirmione, sem er langur tangi sem gengur út í Gardavatnið gengt Garda.  Þarna bar að líta marga veitinga- og íssölustaði sem staðurinn er frægur fyrir og fengu flestir sér skammt af hinum góða ís sem þarna var á boðstólum, enda heitur dagur. Á Sirmione tanganum eru sögð vera yfir 100 hótel. Á leiðinni heim á hótel komum hópurinn við á „Ólífusafninu“ en þar er hægt að kaupa sitt af hverju fyrir sælkera. Síðasta kvöldmáltíðin var síðan um kvöldið á glæsilegum veitinastað þar sem snæddur var afbragðs góður matur. Þar sem ferðin var komin að lokum þökkuðu bræður fararstjóranum bróður Jóni Karli fyrir skemmtilega og vel skipulagða ferð.

Laugardaginn 26. maí var síðan haldið heim til Íslands eftir vel heppnaða skemmtiferð, en flogið var frá Mílanó. Einn ferðafélaginn bróðir Birkir Þór Gunnarsson lést 9. júní, en hann lék á alls oddi í ferðinni og einnig tók hann ásamt stúkubræðrum og mökum þátt í golfmóti stúkunnar þann 5. júní. Blessuð sé minning bróður Birkis.

Björn Gústafsson