
Það var kátur hópur samstarfsfólks úr Glerárskóla sem steig á ítalska grund í byrjun júní 2012. Flogið var til Mílanó og þaðan keyrt í rútu að bænum Garda við Gardavatn.
Við gistum á Hótel Poiano, fjögurra stjörnu hóteli sem bauð upp á ýmsa afþreyingu. Herbergin okkar voru stór og þrifaleg og morgunverðurinn alveg til fyrirmyndar, þar fengu allir eitthvað við sitt hæfi. Stór 50 metra löng sundlaug, sundlaugarbar, lítil verslun, ráðstefnusalir, bar, hjólaleiga og skutlur í bæinn voru meðal þess sem í boði var auk fjölbreyttrar aðstöðu til líkamsræktar o.fl.. Við fengum frábæra þjónustu á hótelinu og hótelstjórinn afskaplega viðkunnanleg kona bauð okkur m.a. til hádegisverðar þar sem við hittum kollega okkar úr bænum. Þetta þótti okkur ánægjulegt og kom okkur á óvart.
Við dvöldum í bænum Garda sem stendur við Gardavatn. Yndislegur lítill bær þar sem gaman var að rölta um þröngar götur, kíkja í allar litlu búðirnar eða ganga meðfram vatninu, setjast niður við einhvern veitingastaðinn, horfa út á vatnið eða á mannlífið og njóta veitinga og umhverfisins.
Umhverfi bæjarins er stórfenglegt og býður upp á alls konar afþreyingu þar sem allir fundu eitthvað við sitt hæfi. Sumir leigðu hjól og hjóluðu um nágrennið. Aðrir skelltu sér á hraðbát og sigldu um vatnið. Nokkrir fóru í fjallgöngu á hæsta fjallið við Gardavatnið, Monte Baldo. Gönguferð til næsta bæjar var lítið mál. Tívolígarður, sundlaugargarður og kvikmyndagarður (í anda Universal garðanna í USA) voru líka í næsta nágrenni. Svo var sundlaugargarðurinn við hótelið óspart notaður.

Við fórum í nokkrar skoðunarferðir m.a. til Verona en þangað var rúmlega hálf tíma akstur. Í Verona, fengum við fyrst leiðsögn um borgina, með góðum leiðsögumönnum sem gengu með okkur og fræddu okkur um sögu þessarar fallegu borgar og þeirra ætta sem þar réðu. Göngunni lauk við svalirnar hennar Júlíu (hans Rómeós) sem okkur þótti gaman að sjá. Við röltum svo um borgina og kíktum í verslanir en lukum deginum yfir sameiginlegum kvöldverði í miðborginni.
Önnur skoðunarferð var til Sirmione. Þangað sigldum við með lítilli ferju yfir vatnið. Sirmione er ákaflega sjarmerandi bær staðsetur á höfða sem skagar út í Gardavatnið sunnanvert. Þröngar götur með söguna í hverju skoti og yst á höfðanum eru rústir baðhúsa frá keisartímanum eða um 2000 ára gamlar. Hópurinn okkar var heillaður af þessum bæ og hefði kosið að dvelja þar lengur.

Ferð til Feneyja heillaði marga. Þar fór leiðsögumaðurinn með hópinn út fyrir hefðbundnar ferðamannaslóðir og leiddi um götur sem ekki voru fullar af fólki. Markúsartorgið mikilfenglegt og sagan út um allt í máli og myndum.
Vínkynning og vínsmökkun var líka í boði. Við heimsóttum huggulegan vínkjallara þar sem við fengum að smakka á framleiðslu bóndans, pylsur, ostar og vín, og ólívuolían fékk að fljóta með. Skemmtilegur staður í göngufæri frá miðbæ Garda.
Markaðsdagur var í Gardabænum á föstudagsmorgni. Hópurinn arkaði að sjálfsögðu þangað. Þetta var lifandi markaður með margt sem heillaði landann og það var ýmislegt sem fyllti pokana hjá okkur eftir markaðsdaginn.
Síðasta kvöldinu okkar á Ítalíu eyddi hópurinn saman yfir kvöldverði. Farið var á veitingastað út í sveit. Þetta varð ótrúlega huggulegt kvöld, veðrið yndilegt, veitingastaðurinn hinn glæsilegasti og maturinn og þjónustan alveg frábær.

Jón Karl Einarsson var farastjóri okkar á Ítalíu. Hann valdi fyrir okkur hótelið sem við vorum afskaplega ánægð með, skipulagði fyrir okkur skoðunarferðir, sameiginlegar máltíðir utan hótels og sá um önnur viðvik sem þarf að sinna þegar stór hópur er á ferð. Jón Karl sá um að útvega okkur mjög færa og skemmtilega leiðsögumenn í skoðunar og gönguferðirnar okkar. Hann og kona hans voru tilbúin að leysa úr og verða við öllum þeim óskum sem komu frá hópnum eftir að komið var til Garda. Við þökkum þeim hjónum kærlega fyrir okkur enda verða þessir dagar sem við dvöldum í litla bænum Garda okkur öllum ógleymanlegir.
Helga Halldórsdóttir