Minn eftirlætis ferðadagur í Toskana

Í ár verður sjötta árið sem við göngum með Íslendinga um fáfarnar slóðir og aðrar meira sóttar í Toskana héraði.  Toskana er jú vagga Endurreisnarinnar og frægustu listamenn Ítala sköpuðu þar mörg meistaraverka sinna.

Á sumu þreytist maður ekki

Samt er það nú svo að alltaf verður einhver dagur í meira uppáhaldi hjá manni en annar og einhverjum kynni að þykja ótrúlegt að það sé ekki dagurinn í Flórens.

Minn eftirlætis ferðadagur er dagurinn í Vinci.  Fjölbreytileikinn er slíkur að maður þarf fulla athygli allan tímann.

Fæðingarheimili Leonardos da Vinci

Við höldum af stað frá hótelinu okkar í rútu og ökum ekki hraðbraut, heldur þræðum þéttbyggðar sveitir, fremur en sveitaþorp í nærri 45 mínútur.  Á þessari leið höfum við húsagarða íbúanna fyrir augum okkar, með öllum sínum blæbrigðum og breytileika frá því sem gefur að líta hér á landi, með ólívutrjám, skrautrunnum ásamt matjurta- og blómarækt.  

Loks erum við komin að því sem talið er fæðingarheimili Leonardos da Vinci.  Þar er safn í dag og við sjáum stutt myndband, óvenjulega fram sett, sem rekur lífshlaup “meistarans”, áður en við röltum niður brekkurnar í átt að bænum Vinci.

Saga og sveit

Á leið okkar er mikil ólívurækt og við fylgjum ekrunum niður hæðarranann, uns við stöndum frammi fyrir “Vitruvíusar manninum” hans Leonardos, sem á að sýna hin fullkomnu hlutföll líkama karlmannsins.  Þar er hann í þrívídd á torgi bæjarins, sem Leonardo fékk að nota sem ættarnafn sitt.

Hið gullna jafnvægi

Þaðan höldum við að safni með ýmsum merkilegustu verkfræðiafrekum hans.  Þar kemur margt á óvart, en Leonardo var jafnvel meiri stærðfræðingur og verkfræðingur en listamaður.  Að einskorða listiðkun hans eingöngu við málaralistina væri líka rangt.

Næring fyrir líkama og sál

Við tökum okkur stuttan stans á litlu kaffihúsi, til að svala þorstanum og margir þræða þröngan stigagang upp á topp bæjar turnsins.  Þaðan er ægifagurt útsýni yfir þessa fallegu sveit sem við þekkjum, án þess að vita það, af gömlu Biblíumyndunum sem kirkjan útdeildi á árum áður.

Það væri aðeins til að spilla upplifun þessa formiðdags að hafa lengri dagskrá og því höldum við svipaða leið til baka heim á hótel.  Það gefur okkur góðan tíma fyrir okkur sjálf það sem eftir lifir dags.

Áður en dagur er úti…

Kl. 19:00 er rúta komin að sækja okkur og við höldum í annað þorp til að snæða kvöldverð, á stað sem státað gæti af mörgum Michelin viðurkenningum, ef hann hefði óskað eftir því.

Á þeirri leið sem ekin er þangað förum við í gegnum lítið þorp sem fæstir gefa nokkurn gaum, en er þó vettvangur frægustu barbasögu Ítala og frægara en flest önnur smáþorp á Ítalíu.

Tímarit barnanna

07. júlí 1881 birtist í barnablaði (sbr. ÆSKAN) fyrsti hluti af teiknimyndasögu, fyrir börn sem átti eftir að verða eitt al-vinsælasta barnaefni sem við þekkjum.  Teiknimyndasagan varð seinna að bók, enn síðar að barnaleikriti og að lokum að Walt Disney kvikmynd.

Að morgni næsta dags tekur við heimsókn í ólífuolíu samlag, sem staðsett er í hæðunum ofan við bæinn okkar, önnur hálfs dags ferð, sem gæti orðið eftirminnileg.

Hjarta Soave, hvítvín og ólífuolía

Eftir tvo nokkuð rólega daga er komið að fyrstu heimsóknum í Vínuppskeruferðinni. Rúta bíður okkar við herragarðinn og við höldum í heimsókn til samlags um ólífuolíu gerð, akstur um það bil 20 mínútur. Við byrjum á að kynnast ferlinu við uppskeruna og vélbúnaði nútímans við olíu framleiðsluna.

Lesa áfram „Hjarta Soave, hvítvín og ólífuolía“

Vínuppskeruferð – Komið til Valpolicella

Valpolicella, hið hæðótta vínhérað Ítalíu er næst á dagskrá okkar í Vínuppskeruferðinni.

Þar sem ekkert liggur á njótum við miðborgar Innsbruck fram til hádegis. Svo að allir hafi tækifæri til að fá sér hressingu fyrir aksturinn til Valpolicella, þar sem herragarðurinn okkar er, þá leggjum við ekki af stað fyrr en kl. 14:00.

Vínuppskeran er tími mikillar hamingju

Það fer vart brosið af vínbændunum á meðan á tínslunni stendur.  Aðeins kaldur júní mánuður getur svift þá hamingjunni sem geislar af þeim þegar líður á september. 

Lesa áfram „Vínuppskeruferð – Komið til Valpolicella“

Vínuppskera og sælkerar

Vinsælustu ferðirnar okkar höfum við kosið að kalla Sælkeragöngur. Ferðadagskráin byggir á ferðamáta sem nefnist á ensku „slow travel“, sem við höfum stundum kallað velferðir. Nú eru 15 ár síðan við fórum í ferð með þessu heiti, en í raun liggur að baki samfelld reynsla okkar hjóna í ferðaþjónustu allt frá 1985.

Sérkenni ferðanna okkar hjá Fararsniði er að allir hafi næði til að njóta.

Lesa áfram „Vínuppskera og sælkerar“

Leiðin á La Rocca

Dagurinn framundan er enn í dag skemmtilegasti göngudagurinn í ferðunum okkar, að mínu mati.  Farþegar sem ferðast hafa í fleiri ferðir  með okkur telja líka að hann standi upp úr, þegar horft er til baka á þær ferðadagskrár sem boðið er upp á.  

Í byrjun ferðar er klipping ólívutrjánna útskýrð
Lesa áfram „Leiðin á La Rocca“

Frjáls tími í Garda

Eftir tvo nokkuð langa daga höfum við næsta dag óskipulagðan.  Við teljum nauðsynlegt að farþegarnir okkar fái líka frið til að vera á eigin vegum, hjónin saman eða ferðafélagarnir í hóp. 

Alltaf eru einhverjar hugmyndir í gangi hjá þeim sem komnir eru á erlenda grund, um það sem þá hefði langað til að gera þó það sé ekki á dagskránni hjá okkur.

Lesa áfram „Frjáls tími í Garda“

Gengið með Gardavatni

Ég hygg að ég sé ekki einn um að sleppa góðum göngutúr ef hann er ekki því brýnni.  Við Gústa vorum búin að fara með marga Íslendinga til Garda áður en við ákváðum að athuga hvort óslitinn göngustígur væri frá bænum Garda til nálægs bæjar sem Bardolino heitir.

Í dag er þessi göngutúr fastur liður í dagskránni fyrir Sælkeragöngur við Gardavatn.

Frá Poiano að bænum Garda

Við leggjum af stað fótgangandi frá hótelinu kl. 15:00 og höldum niður í miðbæ Garda.  Hann er svona póstkortabær með borgarhliði, þröngum og skuggsælum götum áður en vatnið birtist manni í fegurð sinni, svo að manni verður orða vant.

Lesa áfram „Gengið með Gardavatni“

Verona – lítil og falleg

Nú dettur mér í hug að fara nokkrum orðum um dagana, hvern fyrir sig, sem við munum eiga í Gardaferðinni okkar, sem hefst 30. Júlí.  Í mörg ár höfum við haft fast form á viku langri dagskrá okkar, en nú langar okkur til að hnika fáeinum atriðum til af ýmsum ástæðum.  

Miðað við að flugáætlun haldist í sumar eins og lagt hefur verið upp með, þá verðum við komin á hótel skömmu fyrir miðnætti á flugdegi.  Eins og allir vita geta þó stundum orðið tafir í flughöfnum og mikil umferð er jafnan á hraðbrautinni frá Malpensa flugvelli til hótelsins okkar í Garda. Fram að þessu höfum við þó aldrei lent í alvarlegri seinkun.

Rólegur morgun í höfuðstöðvunum

Morgunverðarsalur Hótel Poiano er einstaklega bjartur og rúmgóður og útsýnið þaðan yfir bæinn og niður að vatni er nánast truflandi, þegar að matnum er sest.  Feikilegt úrval er af ávöxtum, brauði, áleggi og drykkjarföngum.  Þess utan er beikon, eggjahræra, sveppir og smápylsur í heita borðinu.

Lesa áfram „Verona – lítil og falleg“

Framandi lönd og þjóðir Afríku

Síðasti pistill fjallaði um ótrúlega ferð okkar hjóna um Afríkulöndin Kenía og Tansaníu.  Við höfum bæði náð 70 ára aldri og fannst við hæfi að ferðast á einhverjar þær slóðir, sem ekki yrði endilega farið á aftur.  Það kúnstuga er þó að sumt af því sem við sáum og gerðum í ferðinni vildi maður gjarnan fá að upplifa aftur. Lesa áfram „Framandi lönd og þjóðir Afríku“