Minn eftirlætis ferðadagur í Toskana

Í ár verður sjötta árið sem við göngum með Íslendinga um fáfarnar slóðir og aðrar meira sóttar í Toskana héraði.  Toskana er jú vagga Endurreisnarinnar og frægustu listamenn Ítala sköpuðu þar mörg meistaraverka sinna.

Á sumu þreytist maður ekki

Samt er það nú svo að alltaf verður einhver dagur í meira uppáhaldi hjá manni en annar og einhverjum kynni að þykja ótrúlegt að það sé ekki dagurinn í Flórens.

Minn eftirlætis ferðadagur er dagurinn í Vinci.  Fjölbreytileikinn er slíkur að maður þarf fulla athygli allan tímann.

Fæðingarheimili Leonardos da Vinci

Við höldum af stað frá hótelinu okkar í rútu og ökum ekki hraðbraut, heldur þræðum þéttbyggðar sveitir, fremur en sveitaþorp í nærri 45 mínútur.  Á þessari leið höfum við húsagarða íbúanna fyrir augum okkar, með öllum sínum blæbrigðum og breytileika frá því sem gefur að líta hér á landi, með ólívutrjám, skrautrunnum ásamt matjurta- og blómarækt.  

Loks erum við komin að því sem talið er fæðingarheimili Leonardos da Vinci.  Þar er safn í dag og við sjáum stutt myndband, óvenjulega fram sett, sem rekur lífshlaup “meistarans”, áður en við röltum niður brekkurnar í átt að bænum Vinci.

Saga og sveit

Á leið okkar er mikil ólívurækt og við fylgjum ekrunum niður hæðarranann, uns við stöndum frammi fyrir “Vitruvíusar manninum” hans Leonardos, sem á að sýna hin fullkomnu hlutföll líkama karlmannsins.  Þar er hann í þrívídd á torgi bæjarins, sem Leonardo fékk að nota sem ættarnafn sitt.

Hið gullna jafnvægi

Þaðan höldum við að safni með ýmsum merkilegustu verkfræðiafrekum hans.  Þar kemur margt á óvart, en Leonardo var jafnvel meiri stærðfræðingur og verkfræðingur en listamaður.  Að einskorða listiðkun hans eingöngu við málaralistina væri líka rangt.

Næring fyrir líkama og sál

Við tökum okkur stuttan stans á litlu kaffihúsi, til að svala þorstanum og margir þræða þröngan stigagang upp á topp bæjar turnsins.  Þaðan er ægifagurt útsýni yfir þessa fallegu sveit sem við þekkjum, án þess að vita það, af gömlu Biblíumyndunum sem kirkjan útdeildi á árum áður.

Það væri aðeins til að spilla upplifun þessa formiðdags að hafa lengri dagskrá og því höldum við svipaða leið til baka heim á hótel.  Það gefur okkur góðan tíma fyrir okkur sjálf það sem eftir lifir dags.

Áður en dagur er úti…

Kl. 19:00 er rúta komin að sækja okkur og við höldum í annað þorp til að snæða kvöldverð, á stað sem státað gæti af mörgum Michelin viðurkenningum, ef hann hefði óskað eftir því.

Á þeirri leið sem ekin er þangað förum við í gegnum lítið þorp sem fæstir gefa nokkurn gaum, en er þó vettvangur frægustu barbasögu Ítala og frægara en flest önnur smáþorp á Ítalíu.

Tímarit barnanna

07. júlí 1881 birtist í barnablaði (sbr. ÆSKAN) fyrsti hluti af teiknimyndasögu, fyrir börn sem átti eftir að verða eitt al-vinsælasta barnaefni sem við þekkjum.  Teiknimyndasagan varð seinna að bók, enn síðar að barnaleikriti og að lokum að Walt Disney kvikmynd.

Að morgni næsta dags tekur við heimsókn í ólífuolíu samlag, sem staðsett er í hæðunum ofan við bæinn okkar, önnur hálfs dags ferð, sem gæti orðið eftirminnileg.

Leave a Reply

%d bloggers like this: