Eftir tvo nokkuð langa daga höfum við næsta dag óskipulagðan. Við teljum nauðsynlegt að farþegarnir okkar fái líka frið til að vera á eigin vegum, hjónin saman eða ferðafélagarnir í hóp.
Alltaf eru einhverjar hugmyndir í gangi hjá þeim sem komnir eru á erlenda grund, um það sem þá hefði langað til að gera þó það sé ekki á dagskránni hjá okkur.
Gæða hótelsins notið
Bæði sundlaugin og sundlaugargarðurinn á Hótel Poiano eru mjög stór, ólympísk laug og garðurinn breiðir úr sér í stöllum upp frá lauginni.

Sundlaugarbarinn er við enda laugarinnar, þar sem maður kaupir bæði ís eða snakk, skyndibita og drykki. Þar fær maður líka handklæði fyrir alla dvölina ef maður svo kýs og alltaf er nóg af bekkjum. Margir vilja fullnýta fallegan dag við laugina.
Tölt í bæinn eða…
Á þessum degi eru allir búnir að læra að rata í bæinn og niður að vatni, tvær hótel skutlur eru líka í gangi frá kl. 10:00 til hádegis og aftur eftir kl. 15:00 fram að kvöldmat. Einhverja langar kannski aftur til Verona og leigubíll er hentugri ferðamáti þangað en rútan, sem er lengi á leiðinni.

Stundum leigir vinahópurinn sér bíl í einn dag og aðrir taka leigubíl þangað sem ætlunin er að fara, þeir eru ódýrir og sjálfsagt að semja bara um verð, ef um dagsferð er að ræða.
Í útjaðri Garda er golfvöllur, mjög fallegur, en nokkuð erfiður fyrir þá sem ekki eru beinir, sumar brautirnar fremur þröngar og hallandi til hliðar, en þéttur skógur allt í kring.
Því sjómenn íslenskir erum við…
Við viljum gefa öllum kost á að sigla á Garda-vatninu og það kemur að stuttri bátsferð til Sirmione síðar í dagskránni okkar. Þó eru sumir sem langar til að fara lengra norður með vatninu, eða vestur yfir það.
Auðvelt er að leigja bát, hvort sem er með stýrimanni, eða bara án hans og maður brunar sjálfur þangað sem hugurinn kýs, hendir sér í vatnið til kælingar eða bara sólar sig.

Hvar ættum við að borða í kvöld?
Það eru góðir veitingastaðir í námunda við hótelið okkar og ekki dýrir, maturinn er ríflegur og allur “úr héraði”, þjónustan stundu skemmtilega heimilisleg og viðmót gestgjafa er án nokkurrar tilgerðar. Sumir láta það fara í taugarnar á sér, aðrir ekki.
Víðsvegar í sveitinni eru feikna góðir veitingastaðir, sem hægt er að finna á öllum leitarsíðum. Þangað fer maður í leigubíl, sem sækir mann svo aftur á umsömdum tíma og verði.

Daginn eftir er eina gangan þar sem nokkuð er á fótinn og þar sem fólk ætti að taka með sér göngustafi, séu þeir með í för. Einnig er gott að vera vel skóaður þennan dag.
Við viljum því vera vel fyrirkölluð að morgni, þegar gengið er af stað upp frá hótelinu.
Viltu sjá alla ferðadagskrána? Hér er dagskráin í heild fyrir Sælkeragöngur við Garda-vatn.