Ég hygg að ég sé ekki einn um að sleppa góðum göngutúr ef hann er ekki því brýnni. Við Gústa vorum búin að fara með marga Íslendinga til Garda áður en við ákváðum að athuga hvort óslitinn göngustígur væri frá bænum Garda til nálægs bæjar sem Bardolino heitir.
Í dag er þessi göngutúr fastur liður í dagskránni fyrir Sælkeragöngur við Gardavatn.
Frá Poiano að bænum Garda
Við leggjum af stað fótgangandi frá hótelinu kl. 15:00 og höldum niður í miðbæ Garda. Hann er svona póstkortabær með borgarhliði, þröngum og skuggsælum götum áður en vatnið birtist manni í fegurð sinni, svo að manni verður orða vant.

Neðan við þjóðveginn út úr Garda bænum liggur breiður og malbikaður göngustígur á vatnsbakkanum. Þar er í raun margt að sjá. Útsýnið út á vatnið í þessari nálægð er jafn notalegt eins og það er spennandi, líkt og annars staðar þar sem gengið er í fjöruborði eða með fallegri á.
Þarna sér maður hvernig fólk hefur komið sér fyrir, á klettum eða litlum grastorfum, með handklæðið sitt og nesti fyrir daginn. Sums staðar hefur verið sett fíngerð möl í vatnsborðið svo hægt sé að vaða út í á góðviðrisdögum.
Þarna má sjá hve vatnið er mikið notað af skútu- og bátaeigendum, hægt að hífa báta af og á kerruna og dytta að ef með þarf.

Við höfum líka á vinstri hönd stærstu samfelldu hjólhýsa svæði við vatnið og þar hafa margir Íslendingar komið sér fyrir af og til í viku eða tvær með hýsi eða vagna og ferðast út frá vatninu í allar áttir.
Garda-bær til Bardolino
Það segir sig sjálft að eftir svo sem 45 mínútna gang er vökvatapið orðið svo plagandi að það verður að taka bjórstopp. Nóg er af slíkum stöðum og notalegt að tylla sér niður undir sólhlíf og kæla sig aðeins niður.

Sjálf gangan milli Garda og Bardolino tekur um klukkustund. Bardolino er snöggtum stærri bær en Garda og miðbærinn kringum kirkjutorgið er sérlega vinalegur. Þar tökum við okkur góða hvíld frá göngunni, kíkjum í búðir eða tyllum okkar á næsta veitingastað.
Verðskuldaðar veitingar að degi loknum
Við eigum enn eftir 20 mínútna göngu á veitingastaðinn okkar og eftir hæfilegt stopp í Bardolino höldum áfram með vatninu á þennan frábæra stað. Þar er okkur tekið eins og fjölskylduvinum og veitingarnar eru stóbrotnar og ekkert til sparað við Íslendingana.

Íslendingarnir fá alltaf borð á besta stað á veröndinni, þar sem útsýni yfir vatnið er fegurst. Fyrsti diskurinn er alltaf sýnishorn af dæmigerðum forréttum úr héraði, næst á eftir birtist eitthvað sem kemur á óvart.
Aðalréttir eru svo ýmsir kjötréttir af grillinu og að endingu kemur desert og kaffi í lokin. Þjónustufólkið sér svo til þess að aldrei sé tóm vínflaska að vandræðast á borðinu, hún einfaldlega hverfur og í staðinn kemur önnur óátekin
Að máltíð lokinni bíður okkar rúta, sem flytur okkur heim á hótel um kl. 22:00
Nánar má sjá um ferðadagskrána fyrir Sælkeragöngur við Gardavatn.