Síðasti pistill fjallaði um ótrúlega ferð okkar hjóna um Afríkulöndin Kenía og Tansaníu. Við höfum bæði náð 70 ára aldri og fannst við hæfi að ferðast á einhverjar þær slóðir, sem ekki yrði endilega farið á aftur. Það kúnstuga er þó að sumt af því sem við sáum og gerðum í ferðinni vildi maður gjarnan fá að upplifa aftur.

Kilimanjaro og Lake Manjara
Fyrri pistli lauk þar sem við höfðum kvatt Keníu og vorum komin til Tansaníu. Kilimanjaro er tilkomumikið fjall, samanber titilmynd pistilsins, 5895 metra hátt. Kollurinn og hlíðarnar þar fyrir neðan er alhvítur þrátt fyrir að fjallið sé rétt sunnan miðbaugs. Þessi konungur afrískra fjalla er í Tansaníu, rétt við landamæri Keníu, en við sáum hann aðeins úr Amboseli þjóðgarðinum í Kenía.
Fyrsti þjóðgarðurinn sem við heimsóttum í Tansaníu, Lake Manjara var ekki svipur hjá sjón að sögn heimamanna. Rigningatímanum á að vera lokið í nóvember, en nú bar svo við að rignt hafði með litlum hléum frá því í október. Slóðir sem venjan var að fara um, voru því sumar undir vatni. Gróður var á hinn bóginn ægifagur, hvort sem var lauftré eða lággróður.
Gnýir og gresjur

Við vorum meðvituð um að það sem framundan var, yrði það sem eftirminnilegast myndi reyndast í allri ferðinni. Þetta voru Serengeti þjóðgarðurinn og gígurinn mikli Ngorongoro. Þarna eru endalausar gresjur, þar sem milljónir gnýjakúa voru komnar til að bera kálfum sínum.
Gnýkýrin er eina kvendýr jarðarinnar sem getur frestað burði um að allt að hálfan mánuð, til að vera komin á réttan stað þegar hún ber. Þessi tími er því mjög gjöfull rándýrunum, sem sitja fyrir kálfunum nýbornum. Sem svar við því þá hópast tarfar og geldkvígur utan um kýrina sem komin er með kálfsóttina, til að verja hana á meðan á burði stendur.
Gnýrinn og sebrahestar halda mikið saman og telja menn að hvort hafi hag af hinu. Gnýrinn hefur næmt þefskyn, sagður vita úrkomuna fyrir, en sebrahesturinn hvassari sjón og heyrn en gnýrinn. Hýenurnar, sem gjarnan eru afætur ljóna og hlébarða, eru mjög nærgöngular við nýbærurnar, en fá illa útreið hjá gnýnum ef þær gerast of kræfar við kálfana.
Undrið Serengeti

Serengeti þjóðgarðurinn er nálega 30.000 ferkílómetrar að stærð, eða nærri þriðjungur stærðar Íslands. Búferlaflutningar (migration) eða kannski frekar beitarflutningar grasbítanna er í stærðum sem erfitt er að ímynda sér. Á nokkrum dögum birtast hjarðir sem telja miljónir á miljónir ofan, af gnýjum, sebrahestum, buffalóum og öllum gasellutegundum sem Austur-Afríka hefur að geyma, inn á gresjurnar.
Af því leiðir að Serengeti er stærsta heimaslóð ljóna í Afríku, þar er jú nægt æti. Akasíutréð verður enn meira áberandi, þar sem það stendur eitt og sér á miðri gresjunni. Það er stundum kallað regnhlífartré, en nær væri þó að kenna það við sólhlíf, því það er vinsælasti hvíldarstaður ljónanna efti vel heppnaða máltíð.

Ljónið eyðir ca. 4 klst. í veiðar, þann dag sem það veiðir, en hvílist í hina 20 og veiðir alls ekki alla daga vikunnar. Það getur verið matarlaust í 6-10 daga, en eftir það fer að draga of mikið úr þreki til að fella alvöru bráð. Læðurnar veiða oftast nokkrar saman og þannig geta þær fellt grasbíta mun stærri og þyngri en þær sjálfar.
Í Serengeti finnast þau öll „hin fimm stóru“. Fíllinn, buffalóinn, nashirningur, ljón og hlébarði. Hlébarða sáum við ekki fyrr en síðasta daginn, tvö fress að leita í forsæluna undir Akasíutré. Aðeins hafa verið nefndar nokkrar tegundir þeirra dýra sem finnast í Serengeti og þá eru ónefndar allar þær frílega 250 fuglategundir sem þar má finna.
Eftir tvær nætur í Serengeti var snúið til baka í átt að Arusha, en þaðan skildi flogið frá Tansaníu til Amsterdam. Við áttum þó einn gististað eftir á leiðinni og þar var um að ræða tjaldgistingu í þéttum skógi á barmi Ngorongoro gígsins. Gígurinn er í raun hluti Serengeti þjóðgarðsins. Þó um tjöld væri að ræða vantaði ekkert upp á þægilegheitin, en kaldari voru næturnar í 2400 metra hæð.

Ngorongoro
Á leið okkar frá Serengeti var staldrað við í Olduvai gljúfrinu. Þar eru elstu mannsvistarleifar sem fundist hafa á jörðinni. Afsteypa af fótsporum fullorðins með barn sér við hönd. Hauskúpur genus Homo, sem taldir eru forfeður Homo sapiens. Merki eru þar um kunnáttu á meðferð elds fyrir um 1.9 milljónum ára.
Ekki ætla ég að reyna að lýsa hughrifunum sem yfir mann hellast við að horfa af gígbarminum á Ngorongoro. Umbrotin eru talin hafa átt sér stað fyrir 3-4 milljónum ára. Ójóst er hve gosið var stórt eða langvarandi, en kvikuhlap varð til þess að meginhluti fjallsins seig og myndaði 650 metra djúpan gíginn. Hann er sagður tæpir 8300 ferkílómetrar að flatarmáli, ívið stærri en Þingvallavatn.
Allur er hann gróinn grasi og þéttum skógarlundum. Við suðurjaðarinn er stórt stöðuvatn og þar til austurs er lágur hnjúkur, sem talinn er vera gamli toppur eldfjallsins, áður en landsigið varð. Í gígnum má finna nánast allar þær dýrategundir sem mynda fánu Tansaníu og Kenía.

Ofmat herraþjóðar á eigið ágæti
Þarna sáum við loks hvíta nashirninginn. Skemmtileg saga er af því hversvegna hann er kallaður hvítur og þá um leið afhverju sá er sunnar þrífst í álfunni, er nefndur svartur. Það voru þýskir vísindamenn sem gáfu honum nafnið „wide rinoshorus“, hinn breiði.
Englendingar, ófærir um að hugsa öðruvísi en út frá eigin nafla, töldu að Þjóðverjar kynnu ekki að stafsetja orðið „white“, hvítur og kynntu hann þessvegna sem hvíta nashirninginn. Hann er reyndar mun ljósari heldur en frændi hans í suðri, en nafngift þess síðarnefnda er yngri og sett fram sem aðgreining frá hinum.
Það var með nokkrum söknuði sem maður kvaddi Ngorongoro og ekki síst fyrir fallega kveðjustund sem þjónustufólkið okkar skóp áður en bílarnir lögðu af stað. Sá sem þjónað hafði hópnum í matartjaldinu hóf nú upp raust sína, söng og tók dansspor, til að óska okkur góðrar ferðar, hinir allir tóku undir í viðlagi, líkt og hjá Ólafi Liljurós.
Freddie Mercury
Upp úr miðjum degi komum við á kaffibúgarð nærri flugvellinum í Arusha og snæddum ríkulegan hádegisverð. Við Gústa ætluðum ekki að fljúga heim, eins og hinir Íslendingarnir, heldur að færa okkur yfir til Zanzibar. Þar fæddist Freddie Mercury, af írönskum og indverskum foreldrum og fluttist 10 ára gamall til London.
Við enduðum svo þessa skemmtilegu ferð á notalegu hóteli við strendur Indlandshafs. Góðan kílometer frá landi var eitt af þessum stórkostlegu kóralrifjum, sem braut hafölduna á lágstreyminu. Þá hefði verið hægt að ganga út að rifinu.
Á meðan við dvöldum þar komu upp fyrstu tilfellin af coronaveirunni á Íslandi. Í Tansaníudvöl okkar tókum við malaríutöflur reglulega. Kannski hefur það orðið til þess að við hjónin höfum sloppið við nokkur einkenni af því fári sem nú gengur yfir heimsbyggðina.