Sögur frá Afríkureisu

Við hjónin brugðum okkur í gott ferðalag til Keníu og Tanzaníu, um miðjan febrúar og komum til baka 01. mars.  Ferðaskipuleggjandinn var hinn ástsæli Ferenc Utassy, ungverskur maður, sem bjó hér á landi í sex ár og talar enn lýtalausa Íslensku eftir rúm 20 ár fjarri landi okkar.

Fall er fararheill

Fallinu, sem stundum er fullyrt að sé fararheill, var afstýrt þegar Icelandair bauð okkur, eins og öðrum farþegum sínum að fljúga degi fyrr til Amsterdam, án aukakostnaðar.  Enn hafði nefnilega verið spáð föstudagslægð inn á Reykjanesið, með tilheyrandi hrellingum fyrir ferðamenn og flugfélög.

Okkur og ferðafélögum okkar bættist því heill dagur í Amsterdam, borg sem við höfðum aðeins heimsótt, sem einhverskonar biðleik, á ferðum okkar eitthvað annað.  Sú borg reyndist allrar athygli verð þegar til kom og maður gaf sér tíma til að kynnast henni.  Eins og oft hefur verið sagt í þessum pistlum, þarna var kominn “staður sem gaman væri að heimsækja aftur”.

Bláklæddar sölukonur
Allir eru að selja öllum

Svo var lagt í´ann

Á hádegi á laugardag var flogið í beinu flugi frá Schiphol til Nairobi í Keníu og vegna tveggja klukkustunda tímamunar var dagur að kveldi kominn í Nairobi þegar við lentum þar.  Gist var á Hilton hóteli eina nótt áður en lagt var upp í hina eiginlegu  “safaríferð” sem hafði dregið okkur þangað suður eftir.

Það er einkenni á svona ferðum að alltaf er gist inni í þjóðgörðum og því eru gististaðirnir ekki hótel, eins og við þekkjum þau, heldur gjarnan skemmtileg útfærsla á húsum/kofum innbyggjanna.  Ferðamaðurinn er auðvitað dekraður í öllu atlæti, mat og drykk.  Heimaræktað kaffið þeirra, af Arabica kyni með sojamjólk, fannst mér þó ekki nógu feitt, fyrir minn smekk.

Masaikonur

Lion King

Það vakti fljótlega athygli okkar að setningar og nöfn úr kvikmyndinni og söngleiknum Lion King eru fengin úr sameiginlegu tungumáli þeirra rúmlega hundrað þjóðflokka, sem byggja þessi lönd.  Sín á milli tala þeir “swahili” en innan þjóðflokksins er töluð þeirra eigin tunga.  Heimamenn eru svo líka allvel talandi á ensku, inn til lands og út til stranda.

Fyrsti bílstjórinn okkar og þá um leið leiðsögumaður, lauk öllum setningum sínum á orðunum “hakuna matata”.  Hún var líka óspillt löngun hans til að sýna okkur hvort sem væri ljónynjur eða karl-ljón, “simba”, sem hann taldi óumdeildan konung dýranna, hakuna matata.

Hann sagði okkur að framundan væru forsetakosningar í Kenía og að hans þjóðflokkur ynni þær alltaf, því þeir væru fjölmennastir – hakuna matata.

Ljón í skugga II
Þessir vita sig ekki þurfa að óttast neitt

Hakuna matata…

“Hakuna matata” getur þýtt nánast hvað sem er.  “Þetta reddast” “allt í lagi” “ekkert að þakka” “við sjáum til” “Drottinn minn dýri”, “það verður að hafa það”, “ekki orð um það meir” “allavega finnst mér það”.

Eftir heilan dag með honum var þetta orðið til:

Við átum krásir í alla mata – og kaffi með soja, hakuna matata
Og fegurð landsins hún lagði´okkur flata – með Kilimajaro, hakuna matata
Hér veljum við ekki komma né krata – heldur kynstofninn okkar, hakuna matata.
Í þykkum skógum má glórunni glata – í krísu enda, hakuna matata.
Gott er að vera hér röskur að rata – og kunna á ljónin, hakuna matata.
Af Malaríu við munum fá bata – en kannski ekki, hakuna matata.

EFTIRMÁLI
Þó skíðafólk hér liggi kæst eins og skata – var Covid þar ekki, hakuna matata.

Lake Manyara
Lake Manyara í baksýn

Kenía kvödd

Eftir tveggja nátta dvöl í Amboseli þjóðgarðinum í Kenía lá leiðin yfir til Tanzaníu.  Sú ferð minnti mann á að eitt sinn var Langidalurinn, suðurleiðin og í raun allt þjóðvegakerfi Íslands malarvegir, harðir og holóttir.  Bílarnir okkar hossuðust um í samfelldum moldarmekki þessa tvo tíma sem það tók að komast í landamærabæinn yfir til Tanzaníu.

Fyrstu áhrif af Tanzaníu voru þau, að þar byggi fólk betur en í Keníu.  Þar sáust fyrstu landbúnaðartækin, stærri hjarðir búsmala og reisulegri hús.  Kannski var þess að vænta þegar maður hverfur úr þjóðgarði, þar sem fyrst og fremst Masaifólk býr og yfir í skipulögð sveitahéruð og smábæi.

Eitt vakti athygli manns í hvoru landinu sem var.  Það var gangandi fólk í vegakanti, fjarri næsta byggðu bóli.  Mikið af því voru börn á leið úr einu þorpi í annað, t.d. á leið í eða úr skóla.  Unglingar og konur, berandi 30-40 lítra vatnsbrúsa og svo eldra fólk að sinna einhverju erindi, sem ekki varð gert nema að fara gangandi þó það þyrfti að taka daginn í það.

Það verður kannski eitthvert framhald af þessari ferðarlýsingu í næsta pistli, fyrst maður er kominn á skrið með að rifja atburði og augnablik upp.  Eitthvað fleira varð til af kveðskap einnig, sem kann að fljóta með.

Leave a Reply

%d bloggers like this: