Uppskriftin að ferðum Fararsniðs

Við fáum oft að heyra hrós fyrir uppleggið að ferðum okkar.  Það hefur líka tekið mörg ár að þróa hugmyndina, auka eða minnka dagskrána, allt eftir því hvaða viðbrögð við fáum frá farþegunum.  Aldur og geta farþega okkar er auðvitað misjafn og því aðlögum við jafnvel ferðina á staðnum, beinlínis að þörfum hópsins.

Að kunna sér hóf…eða falla í freistni?

Þó það sé freistandi að útfæra allar hugmyndir sem okkar detta í hug, þá segir reynslan okkur, að betra sé að kunna sér hóf og njóta ferðarinnar til fullnustu. Er t.d. ráðlegt að snæða fjögurra rétta hádegisverð, vitandi að það bíður okkar verðlaunastaður sama kvöldið?  Sennilega er betra að skipta svona upplifun sinni á hvorn daginn.

Rauði þráðurinn er því almennt þessi:  Á hverjum degi bjóðum við upp á góða hreyfingu sem hæfir aldri og virðingu gráa hersins.  Þó er alltaf einn dagur meðvitað hafður án dagskrár – stundum er gott að upplifa tímaleysi, til að meðtaka það sem á dagana hefur drifið.

Að sama skapi forðumst við að láta dagskrána spanna frá sólarupprás til sólarlags.  Eru ekki allir komnir með nóg af svoleiðis ferðamáta? Oftast leggjum við upp að morgni og gerum  ráð fyrir að vera kominn aftur heim á hótel um miðjan dag. Síðdegið og kvöldið er svo frjálst.

Aðra daga er lagt upp eftir hádegið og þá er jafnan stór kvöldverður framundan, á sérvöldum stað, með víni og „tilbehör“.  Aldrei er þó slórað fram undir miðnætti, enda gjarnan dagskrá á næsta degi. Þegar svo hagar til, þá erum við jafnan flutt heim á hótel að máltíð lokinni.

Tre Camini
Í upphafi lokakvöldverðar

Göngur í sveit og borg

Skoðunarferðirnar okkar snúast fyrst og fremst um hreyfinguna sjálfa, fremur en að koma á einhvern heimsfrægan stað, þar sem ekki verður þverfótað fyrir öðrum ferðamönnum.  Auðvitað gerist það þó líka svo sem í miðborg Verona, Flórens eða Milanó.

Við komum t.d. að svölum Júlíu í Verona, við komum að Dómkirkjunni í Flórens og við förum og sjáum „Síðustu kvöldmáltíð“ Leonardo da Vincis, enda væri annað auðvitað bara stórslys.  

Við leggjum áherslu á að ganga úti í náttúrunni, hvenær sem þess er kostur.  Að verða hluti af skóginum eða finna nálægð vínekrunnar. Jafnvel bara að arka um úthverfi bæjar og spá í heimkynni almennings.  Um sögu og stríðsafrek þjóða má lesa í öllum ferðamanna handbókum, en þær fjalla minna um hversdaginn, hvað þá hversdagshetjurnar.

Eitt sinn þótti mjög eftirsóknarvert að sjá sem allra mest á sem skemmstum tíma, með rútuferðum frá morgni til kvölds.  Við hjónin erum fyrir löngu búin að fá nóg að svoleiðis ferðaháttum og það sama gildir um ferðafélaga okkar í Sælkeragöngunum.  Í staðinn leggjum við upp úr því að njóta þess sem finna má í nærumhverfinu. Akstur er sem sagt sjaldnast meir en 30 – 40 mínútur leggurinn.

20180824_162704
Gengið með Gardavatni

Torino hefur sérstöðu

Torino ferðin ein, er svolítið öðruvísi en hinar.  Þar gistum við t.d. á góðu hóteli í hjarta borgarinnar.  Í hinum ferðunum erum við í smábæ eða sveit. Gönguferðirnar í Torino ferðinni eru því gengnar í borgum.  Þyki fólki það léttvæg hreyfing má minna á að göngutúrar á gangstéttum reynir sko ekki minna á fótleggi og þrek en gönguferð úti í náttúrunni.

Sveitaferðin okkar um nærsveitir Torino er einnig nokkur undantekning frá reglunni.  Þar ökum við um fallegar sveitir, landslagsins vegna og tökum okkur svo stopp í þrem litlum þorpum, sem hvert er með sínu sniði.

Sjón er sögu ríkari

Það er einmitt í þessari ferð sem fólki líkar sérlega vel að eiga alltaf dagstund fyrir sjálft sig og vinina.  Ingólfur heitinn Guðbrandsson sagði mér að venjan væri að það tæki 2-3 ár að festa nýjan stað í vitund fólks. Torino er ekki mikið þekkt hér á landi, nema kannski fyrir Juventus knattspyrnuliðið og FIAT verksmiðjurnar, en nú eru þær meira að segja horfnar.

Það er einmitt núna sem gaman er að heimsækja Torino, þegar hún er fyrst og fremst ítölsk borg, ekki alþjóðlegur áfangastaður ferðamanna.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s