Enn hefur hún hikstað gamla ritvélin við pistlaskrifin. Verður þó fremur að kenna um önnum í útlöndum með hópa, en ekki síður veislustjórn á 5 ára afmæli Kótilettukvöldanna á Blönduósi, með tilheyrandi yrkingum og æfingum. Allt er það nú frá og ekkert sem þarf að trufla pistlaskrif frekar á þessu ári.
Kærkomið þakkarbréf
Mig langar að birta hér, strax í byrjun, fallegt bréf sem okkur barst frá Rótarýklúbbnum Straumi í Hafnarfirði, að aflokinni vikuferð til Tórínó.

„Við vorum 30 félagar frá Rótarýklúbbnum Straumi, Hafnarfirði sem fórum núna í ágúst s.l. til Torino í Piemontehéraði á Ítalíu. Við fengum Fararsnið/Jón Karl og Ágústu til að sjá um og skipuleggja ferðina og sjá um leiðsögn fyrir okkur. Það er skemmst frá því að segja að allt stóðst 100% hjá þeim Jóni Karli og Ágústu.
Ferðin var skemmtilega uppbyggð, gott sambland af skoðunarferðum með rútum, þægilegum gönguferðum, sælkeramáltíðum og fróðleik og svo nægur frjáls tími til að uppgötva og skoða á eigin spýtur.
Torinoborg er falleg borg sem hefur upp á mikið að bjóða og tel ég að borgin og Piemonte héraðið sé eitt af betur geymdu leyndarmálum Ítalíu m.a. laus við fjöldatúrisma og svo sannarlega ástæða til að uppgötva áður en hann skellur á.
Takk fyrir okkur Jón Karl og Ágústa.
Steinunn M. Benediktsdóttir.“
Fræðsla og frí á víxl
Það er einmitt þetta, sem þarna kemur fram sem hefur verið keppikefli okkar hjá Fararsniði, að reyna að blanda saman skoðunarferðum, menningu og sælkeralífi í ferðirnar okkar. Þó ekki meir en svo að allir eigi að geta átt sínar stundir með sjálfum sér eða vinunum. Við fengum að heyra hrós fyrir þetta atriði frá fleirum í hópnum.
Tórínó er ekki stór borg og öll flatlend. Það er því hreinn unaður að rölta frá hótelinu sínu og vera kominn á 10 mínútum í einhver glæsilegustu torg, kaffihús og verslanir sem suður Evrópa bíður upp á. Veðrið er notalegt þarna norðurfrá á þeim tíma sem við höfum valið til ferðarinnar.

Tórínó var áður heimkynni Fíatframleiðslunnar á Ítalíu. Fíat hvarf þaðan og nú er þar eitt allra merkilegasta bílasafn Evrópu. Þó þar sé margt sem beint er tekið frá Fíatframleiðslunni nær þetta safn langt út fyrir þau mörk og tekur nánast til allrar bílaframleiðslu álfunnar.