Vordagar í Valencia – Ferðasaga

Það var notalegt að koma aftur til Valenciaborgar, 3. maí síðastliðinn.  Ferðin okkar var hugsuð frá fös. – fös.  Norwegian flugfélagið tók upp á því að breyta flugtímum á föstudagsfluginu sínu, en ekki aðra daga, ferðin hófst því á næturflugi til Alicante.

Kl. 08:15 að morgni laugardags vorum við komin á fimm stjörnu hótelið okkar og fórum beint í ríkulegan morgunverð og þaðan upp á herbergin til að leggja okkur.  Hótelið sá um töskurnar okkar.

Gönguferð um gamla bæinn

Kl. 12:00 voru allir mættir í hótelafgreiðslu og okkar beið hún Elena Domingo, innlendur leiðsögumaður, sem ætlaði að leiða okkur um frægustu stræti og torg.  Veðrið var frábært á þessum fyrsta degi, ekki of heitt en stillt og bjart.  Gönguferðinni lauk svo á hinum skemmtilega stað Mercado Colon.

Strax á fyrsta kvöldi allir dottnir í spjall

Um kvöldið var svo aftur tölt af stað í gamla bæinn og nú heimsóttum við þrjá tapas staði, sem allir buðu upp á ólíka rétti.  Sá fyrsti er rómaður fyrir frábærar hráskinkur sínar og ekki síður úrval hágæða osta.  Ekki var verra að þeir völdu þokkafull vín úr Duerodalnum.

“Mothers Day”

Næsti dagur var sunnudagur “mæðradagur”  og Spánverjar gera mikið úr þeim degi.  Við breyttum því dagskránni og ákváðum að vera í Márabænum Xátiva þann dag, klukkutíma akstursleið frá Valencia.  Við gengum flest á hnjúkinn, þar sem Máravirkið gnæfir yfir gamla bænum, eins og hann hefur gert síðan á áttundu öld.

Hádegismat snæddum við í örlitlu þorpi þar nærri, sem þekktast er fyrir að vera heimkynni spönsku riddarareglunnar að fornu.  Líkt og á Englandi gengust riddararnir fyrir ýmsu hjálpræði fyrir sjúka og fátæka, en pílagrímar lögðu einnig leið sína í Riddarakirkjuna og þurfalingar áttu þar skjól á æfikvöldi sínu.

Sunnudagsveisla í sveitinni

Pantaður hafði verið þriggja rétta hádegisverður, en teygðist í fimm eða sex rétti, því veitingamaðurinn vildi ólmur kynna Íslendingunum allt það besta í “sinni sveit”.  Veitingastaðurinn er í gamla hesthúsi riddaranna og á efri hæð, var gistipláss pílagríma og er enn rekið sem gistihús.

Þar sem nafn veitingahússins byrjar á “Ram” kusum við að kalla það Hrútakofann í stað Hesthússins.  Við sátum á langborði á stórri verönd fyrir utan og þar voru fjölmörg önnur borð, öll setin.  Þjónustan dróst því nokkuð á langinn, en engum leiddist þó, slíkt var mannlífið við Hrútakofann.  Hálfs dags ferðinni lauk svo ekki fyrr en upp úr kl. 18:00 á hótelinu.

Frásagnir úr verbúðum við vatnið

Á næsta degi, mánudegi var svo bátsverð á Albufera lóninu, á einum af gömlu fiskibátunum.  Bátsmaðurinn var karl á okkar aldri, sem aldrei hefur gert annað en að veiða í lóninu og/eða sinna ferðamönnum þar á, eftir að veiðar lögðust af.  Þetta var friðsæl ferð í fallegu veðri og karlinn fræðandi um sögu lónsins.

Paella er hádegismatur og bara á sunnudögum

Eftir bátsferðina var haldið út á appelsínuekrurnar nærri fjöllunum og þar lærðum við að elda “Paella”.  Aftur fengum við sögustund, nú sögu paellunnar og stærðfræðingurinn, leiðbeinandi okkar, gekk svo langt að segja að paellan væri bókstaflega upprunnin undir pallinum sem við stóðum á, svo nærri værum við vöggu paellunnar.

Gleðigjafarnir í eldhúsinu

Það komu allir glaðir og reifir (sumir hreifir) heim á hótel um þrjúleytið og eftirmiðdagurinn frjáls.  Þannig finnst okkur gott að byggja upp ferðirnar okkar, dagskrá hluta úr degi og farþegarnir frjálsir hinn hlutann.  Næsti dagur skyldi óskipulagður og því höfðu allir í hendi sér hvernig honum skyldi varið í borginni sem þau voru nú farin að kynnast nokkuð.

Almenningsgarður í árfarvegi

Miðvikudagurinn hófst á gönguferð um Turíagarðinn, sem lagður er í gamla árfarveg Turíaárinnar, eftir að neðsti hluti hennar var færður suður fyrir borgina á sjöunda áratug síðustu aldar.  Þetta var gert eftir hamfaraflóð, sem varð í henni 12. – 14. oktober 1957.

Örlítið sýnishorn

Um kvöldið var svo farið á, kannski besta veitingastað borgarinnar, þar sem snæða átti  sjö rétta máltíð, með sérvöldum vínum fyrir hvern rétt, en flestir töldu þó að þeir hefðu verið orðnir 10 eða 11 áður en yfir lauk.  Auðvitað voru réttirnir smáir, en enginn fór svangur heim eftir rúmlega þriggja tíma borðhald.

Aftur í sveitarómantíkina

Fimmtudagurinn var aftur sveitadagur, eins og sunnudagurinn, en nú var haldið til norðvesturs, upp í hálendið, sem eitt sinn var næstum hulið mórberjatrjám.  Valencia hérað var á öldum áður stærsta silkiræktarhérað Evrópu.  Nú eru mórberjatrén aðeins fallegur minnisvarði um forna frægð, líkt og Snorrabúð í Almannagjá.

Við héltum strax til vínbónda, sem leiddi okkur um vínekrur sínar, sem þó voru af og til aðgreindar með fjölda ólívutrjáa.  Víngerðarmaðurinn skýrði fyrir okkur þau fjölmörgu handtök sem liggja að baki hverju vínberi eða ólívu, áður en við sjáum ávöxt verka þeirra í verslunum.

Þaðan fór hann með okkur í kjallarann, sem er bæði nýr, en einnig æfaforn.  Miklar rústir fundust, gleymdar og grafnar, í orðanna fyllstu merkingu, þegar farið var að grafa fyrir nýbyggingum um aldamótin síðustu.  Við sáum því í sama túrnum dæmi um víngerð þessarar aldar og einnig hina þúsund ára gömlu.

Falleg gata í Fönikískum bæ

Eftir smakk á fjórum vínum og kynningu á jómfrúarolíu var haldið í fjallaþorp sem vitað er að stofnað var af Fönikíumönnum 1.000 – 1.200 árum fyrir Krist.  Undir flestum götum og torgum má jafnvel segja að sé önnur borg og í seinna stríði notuðu bæjarbúar þann huldubæ sem neðanjarðarbyrgi ef hætta var talin yfirvofandi.

Í þessum bæ var síðasta stórmáltíðin í ferðinni, á flottum stað og aftur sendi eldhúsið okkur aukarétti, í einskæru stolti af matarhefð hérðasins.  Síðdegið var frjálst þegar komið var til baka í borgina og framundan var svo heimflugsdagur á föstudegi, en nú á þægilegum tíma dags.

Góðri ferð var lokið og margs að minnast.

Leave a Reply

%d bloggers like this: