Þar sem enginn þekkir mann….

Yfirskriftin er einmitt þversögn við pistilinn sem hér fylgir á eftir og svo sem vísnafróðir vita, fjallar framhald stökunnar um tækifæri til ýmisskonar hrekkja, af hálfu þess sem þar talar.  Hitt er staðreynd, að þegar maður skráir sig í gönguferð, með fámennum hópi þá líða vart meir en einn til tveir dagar þar til allir þekkja mann.

Enginn þekkti annan í byrjun

Hópurinn sem fór með okkur í fyrra til Toskana,  var sem sagt úr öllum landshornum.  Af Skaganum, Snæfellsnesi, Eyjafirði, Fjarðarbyggð og jafnvel úr Hafnarfirði.  Þrennar mæðgur voru þarna og ekkert af þessu fólki þekktist fyrir.

Það var því sérlega skemmtilegt að finna hve fljótt hópurinn varð eins og ein stór heild, líkt og þau hefðu bara ákveðið að ferðast saman til Toskana þetta árið.  Ég hef áður bent á þá galdra sem virðast fylgja því að ganga í hóp. Áður en maður veit af er kominn nýr göngufélagi upp að hlið manns og spjall er hafið.

Á villigötum

Mér er eftirminnileg þessi Toskanaferð okkar, 2018 einnig fyrir aðrar sakir.  Ég tók þá ákvörðun í þetta sinn, að afþakka það að hafa innlendan leiðsögumann í dagsferðinni um Lucca og villtist með hópinn.  

Þó maður fari aftur og aftur til sama bæjar má alltaf reikna með nýjum og nýjum innlendum leiðsögumanni.  Sem betur fer leiðir það til þess að alltaf er verið að segja manni frá einhverju nýju, sem aðrir höfðu ekki sagt frá.  Þá er maður ekkert að leggja á sig áttir, götuhorn eða hægri/vinstri beygju hér eða þar.

Vinstri beygja á vitlausum stað leiddi til þess að ég missti af tveim spennandi stöðum, sem ætlunin var að sýna hópnum.  Tært rennandi vatn í opnum stokk fengu þau hinsvegar að sjá oftar en einu sinni. Hjálplegur ungur heimamaður leiðbeindi okkur á endanaum á aðal verslunargötuna og þá urðu allir glaðir.  

Íslendingar eru alls staðar

Eins og alkunnugt er þá hittir maður hvergi Íslending svo ekki sé komið í ljós eftir nokkrar setningar að maður á sameiginlegt frændfólk eða vini.  Fræg er sagan af Íslendingnum sem dvalið hafði árum saman í Alice Springs, í miðri áströlsku eyðimörkinni. Hann hafði fullyrt aftur og aftur við félaga sína að allir þekktu alla á Íslandi.

Svo var það einn daginn að einn vina hans kom til hans og sagði að það væri kominn Íslendingur í bæinn.  Nú skyldi hann sanna þessa fullyrðingu sína eða hundur heita ella. Svo var veðjað um hvað hann þyrfti margar setningar og Íslendingurinn sagði þrjár. Hann reyndist heppinn og þurfti bara tvær:

„Hvaðan ertu?“
– Frá Raufarhöfn.
„Þekkirðu Magga á heflinum?“
– Hann er föðurbróðir minn.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s