Nú er gaman að setjast við pistlaskrif, því þessi pistill verður að mestu helgaður sögu Valenciaborgar og héraðsins í kring. Ekki leiðist mér að fjalla um það svæði og þylja upp dásemdir þess og sögu, að því leiti sem ég kann að segja þar frá.
Til hvers Krossferðir, nær væri að hrekja heiðingjana burt úr Evrópu
Þegar endurheimt Iberíuskagans, úr höndum Máranna hófst féllu norðurhéruðin fyrst í hendur kristinna. Þetta er eðlilegt, þar eð sú þróun hófst þar sem nálægðin við Frakkland var mest og Frakkland hafði ekki fallið í hendur Máranna. Landamæri voru þá öll önnur en nú er.

Borgin Barcelona hefði þá verið innan landamæra Frakklands. Galicia á norð-vestur horninu, Asturias við hliðina, þriðjungur af Portúgal og smáríkið (sem seinna varð) León hétu þá einu nafni, León. Castilia og Aragon voru miklu minni en síðar varð. Valencia náði hinsvegar frá Almería (sem Íslendingar hafa nýverið kynnst) allt norður til Tarragona. Aðeins Zaragossa skildi Valencia frá Frakklandi. Þetta var árið 1037.
Hin fjölmörgu konungsdæmi Íberíuskagans
Árið 1210 er konungsríkið Galicia orðið til. Portúgal einnig orðið til frá Minho ánni, þar sem landamærin eru enn í dag, en nær bara suður að Tejo ánni, sem fellur um Lissabon. León er samskonar ræma og Portúgal og nær einnig að Tejo ánni, þar sem hún fellur Spánar megin.

Castilía hefur hirt mikil landsvæði af León og er nú orðin stærsta ríkið. Allt þar fyrir sunnan og strandhéruðin frá Tarragona heita einu nafni Almohades, er Márískt hérað og islamstrúar. Suðurhluti Portúgals, frá Lissabon tilheyrir einnig þessu ríki, sem nær suður yfir Miðjarðarhaf, þar sem nú eru Marokko og Alsír.
Sínum augum sér hver gullið
Merkileg er sú mismunandi afstaða sem birtist í tali Portúgala og Valencíubúa um þetta tímabil. Portúgalir sjá þetta sem harmrænar aldir, Valencíubúar dásama allt hið mikla verksvit og menningu sem Márarnir skildu eftir.
Portúgalarnir hatast við þá hugmynd að Márarnir hafi brotið niður kirkjur og reist moskur í staðinn. Þeir líta gjarnan framhjá umbótunum sem þeir gerðu t.d. í landbúnaði. Valencíubúar vegsama öll mannvirkin, áveitusvæðin og þróun landbúnaðar, sem þeir komu á í héraðinu. Þeir segja þjóðsögur í jákvæðum tóni um samskipti Mára og Iberanna.

Að manni læðist sá grunur að hér eigi kaþólska kirkjan hlut að máli. Ef hægt er að gera greinarmun á kirkjurækni og kirkjuótta, þá á hann við um Portúgali. Gildir þá einu þó að hvergi hafi Rannsókrarrétturinn verið sagður miskunnarlausari en einmitt á Spáni.
.. og svo reistu Rómverjar borg
Rómverjar stofnuðu borgina Valencia, borgarstæðið talið frá árinu 138 fyrir Krist og er eignað Decimus Junius Brutus, stríðamanni og pólitíkusi. Sá var gjarnan í andstöðu við „plepejana“ í Róm og sat um tíma í dýflissu.
Jóhann I. af Aragon er hinsvegar sá sem Valencíubúar kalla föður borgarinnar. Eftir sex mánaða umsátur, árið 1238, um hina márísku borg voru múslimarnir sveltir út. Engum sögum fer af svínslegum slátrunum í tengslum við yfirtöku borgar og sveitar, en Jóhann I. tók allar lendur innbyggjara og afhenti öflugustu stuðningsmönnum sínum til eignar.
Í næsta pistli ætla ég að halda áfam með söguna og reyna að enda á deginum í dag. Vonandi hafið þið áhuga fyrir að lesa.