17 ára til Ameríku, ég missti ekki kjarkinn

Þetta er loka pistillinn um árið mitt á Ameríku, þegar ég fór út sem „semi-töffari“ frá Blönduósi og kom til baka með reynslu sem ég var í mörg ár að sækja mér eldivið úr, hafði aukið mér víðsýni og sjálfstæði, sem ég hefði aldrei getað öðlast á dráttarvélargröfu norður í Húnavatnssýslu og hefst nú lesturinn.

Oft þegar ég rifja upp árið mitt í Ameríku verður mér hugsað til kvöldsins sem ég þurfti að standa fyrir mínu, aleinn í annarri heimsálfu, pabbi og mamma, eins og oft var vitnað til, 3.000 km. í burtu.  Eftir á að hyggja finnst mér margt í textum og orðum Bítlanna hvetja unglinga til að trúa á sjálfa sig.

Það kom fram í einhverjum fyrri pistla minna að ég hefði skipt um fjölskyldu á miðjum vetri.  Forvitnir vildu fá að vita hversvegna, en ég hafði aldrei gert það að umtalsefni og var því óviss um hvort ég ætti eitthvað að vera að því nú.

Hún Claudia……..

Hún Claudia hafði oft gefið sig á tal við mig.  Tjáði mér að foreldrar hennar og Dalton fjölskyldan, sem ég bjó hjá, væru kunningjafólk.  Claudia var ári yngri en ég og ein fárra stelpna sem þorðu að vera „pæjur“.  Hún var svona „lilja“ sem allir vildu kveðið hafa.

Ég mannaði mig upp í að bjóða henni í bíó einhverja helgina.  Allt slíkt þurfti að gerast eftir formlegum leiðum.  Hún þurfti heimild foreldranna og formsins vegna gat þetta ekki orðið bara næstu helgi.  Kórrétt var að ég þyrfti að bíða a.m.k. rúma viku eftir „deitinu“.

Ekki man ég hvort ég sagði Dave, heimilisföðurnum, frá þessu sjálfur, eða hvort móðir Claudiu hafði hringt og tilkynnt fyrirhugaðan viðburð.  Allavega sagði Dave mér á varfærinn hátt að ég skyldi gæta allrar varkárni í samskiptum við þetta vinafólk þeirra.  Húsmóðirin væri nefnilega oftast ófær um að gera greinarmun á sannleika og lygi.

Drive-in movie

Nú kom að bíóferðinni og fór vel á með öllum, við Claudia afturí og John Banks með vinkonu sína framí á Mústangnum sínu hvíta.  Ekkert man ég hvaða mynd við sáum, en þetta var í fyrsta og eina skipti sem ég fór í „drive-in“ bíó.

drive-in-movie
Þetta var sérstök stemmning

Ég hafði mætt á tröppurnar hjá Claudiu þegar við sóttum hana í bíóferðina og verið kvaddur inn í holið til að taka í hönd beggja foreldra, svara hefðbundnum spurningum um kuldann á Íslandi og hvort „Ísland væri hluti af Evrópu?“, hvort væri nær USA, Ísland eða Grænland.  Bara þessi spurning segir mikið um hvar Ameríkumenn telja að miðja alheimsins sé.

Köld eru kvennaráð

Er komið var til baka var látið duga að við kveddumst á tröppunum, með kossi.  Að skóla loknum næsta dag kallaði húsbóndinn mig niður á neðri hæð hússins, en þar var vinnuherbergið hans.  Þar var einnig stórt hol þar sem krakkarnir léku sér gjarnan og ég með þeim, því þeim var kennt að ég væri stóribróðir þeirra og varð því oft að vera með í leiknum.

Þarna í holinu tilkynnti Dave Dalton mér að móðir Claudíu hefði hringt þennan dag og tjáð frú Dalton að ég hefði gerst ærið „djarfur“ við dótturina í bíóferðinni.  Ekki var farið fram á viðurlög af hendi móðurinnar eða ætlast til að kunningskap okkar væri hér með lokið.

Í huga Dave var hinsvegar ljóst að slíka framkomu mætti ég ekki sýna af mér á meðan ég væri í þeirra húsum.  Honum var mikið niðri fyrir, átti greinilega mjög erfitt með að flytja mér tíðindin, titraði heilmikið og var stirt um mál.

Pabbi og mamma hvergi

Aldrei fyrr á æfinni hafði ég verið sakaður um ljóta framkomu og vissi í huga mér að hér var um tilbúning að ræða.  Einhversstaðar í málflutningi húsbóndans, man ég að ég hugsaði „nú hef ég engan nema sjalfan mig til að reiða mig á“.  Svo sannfærður var ég um sakleysi mitt að ég man að ég fékk sáralítinn aukinn hjartslátt.

Sem krakki og unglingur hafði ég alltaf verið bölvaður hugleysingi, hræddur við skammir og ófær um að bera hönd yfir höfuð mér.  Nú efldi það mér hug að sjá hné og höku viðmælandans leika á reiðiskjálfi og seinna á æfinni hefur mér reyndar oft tekist að nýta þessa reynslu.

Að halda bara „kúlinu“…

Sem sumarafleysingamaður í lögreglunni, bæði í Reykjavík og á Akranesi var gott að geta haldið skýrri hugsun þegar viðmælandinn var æstur.  Einkum á þetta við þegar ölvun er annarsvegar og ekki síður við umferðaróhöpp, að maður tali ekki um handtökur.

svarta-maria
Þetta voru nýjustu bílarnir þegar ég var lögga

Sagan finnst mér hinsvegar óskaplega gott dæmi um tvískinnung fólks, ekki síst Ameríkana.  Sami maður sem sagði mér að lítið mark væri takandi á „móðurinni“ trúði nú hverju hennar orði og bar á mig rangar sakir.

Næsta áfall

Hann lauk svo samtalinu með því að hækka á mig fæði og uppihald, en slíkt hafði ég greitt allan tímann, þar sem ég var bara þarna í boði skólans, en ekki hluti af skiptinemakerfi.  Við fréttina af kostnaðarhækkuninni var það svo ég sem gat hugsað skýrt en ekki hann og rakið fyrir honum mögulegt framhald á dvöl minni.

Það var ég sem lagði niður fyrir honum að ég ætti þrjá kosti:

  1.    Að fara strax heim, áður en ég kláraði alla peningana mína.
  2.    Að vera áfram hjá þeim þar til ég yrði blankur og fara þá heim.
  3.    Að finna mér aðra fjölskyldu , sem ekki færi fram á hærri dvalarkostnað.

Hann seldi mér sjálfdæmi í því hvern kostinn ég veldi og ég skipti um fjölskyldu.  Sem gamall kúasmali hjá afa og ömmu í sveitinni, vann ég þeirri fjölskyldu til, með því að ganga í mjaltir, kornmölun og um vorið plægingu akra og sáningu.  Ég greiddi svo ekkert til þess heimilis eftir að skóla lauk og vorverkin urðu tímafrekari.

Aldrei hef ég borið kala til neins af þessu fólki, Dalton hjónanna, móðurinnar eða Claudíu. Við vorum bara börn, ég 17 og hún 16 ára, það voru hinir fullorðnu sem ekki stóðust sitt hlutverk.  Miklu fremur hef ég verið reynslunni feginn þegar frá leið, að ná ungur að kynnast sjálfum mér við flóknar aðstæður.

Verður framhald?

Nú hefur verið skorað á mig að setja niður einhverjar minningar frá æsku- og unglingsárunum á Blönduósi.  Ekki veit ég hver nennir að lesa slíkt, jafnvel þótt mér þætti gaman að skrásetja þær.  Æsku mína lifði ég í sveitinni hjá afa og ömmu, unglingsárin hinsvegar á Blönduósi og þar var margt brallað.

Ég vil hér með þakka þeim sem hafa rennt yfir þessa pistla mína og kannski séð eitthvað í þeim sem rifjar upp atvik og staðreyndir frá þeirra eigin unglingsárum og jafnvel notið þess.

Svo skrítið sem það er, þá eru það oft slíkar frásagnir sem höfða beint til manns við lestur, jafnvel þó maður hafi ekki þekkt viðkomandi sögumann að neinu leyti.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s