17 ára til Ameríku – gamlárskvöld, botninum náð

Þegar ég sat við á haustdögum 2014 og rifjaði upp ferðina mína til Bandaríkjanna haustið 1967, í fjórum áföngum var ég orðinn mettur af ritþörf, eftir að hafa lokið jólapistlinum.  Ég birti hann í janúar 2015 og var eiginlega ekki í stuði til að rifja upp Gamlárskvöld svo dæmi sé tekið.

Tveim árum seinna og eftir áskoranir frá fjölmörgum einstaklingum um land allt, svo maður noti afsakanir „pólitíkusa“ fyrir framboði, þá langar mig til að vita hvort sú stemmning kemur til mín aftur, eins og ég man hana.

Gamlárskvöld

Ég man greinilega að ég var fullur bjartsýni á, að þó aðfangadagur og jóladagur væru mér hálfmisheppnaðir, þá hlyti Gamlárskvöld allavega að vera eins, hvar sem væri í hinum vestræna heimi og þá yrði stuð.

Strákarnir voru meira að segja búnir að vera að monta sig af því, 17 ára gamlir eins og ég, að hugsanlega mætti útvega bjór fyrir kvöldið.  Við höfðum ekki aldur til áfengiskaupa og því varð tilhugsunin jafnvel enn meira spennandi.

Sveitaball

Svo barst frétt um „barn dance“ eða hlöðuball, sem halda átti í næsta „county“.  Fyrir lá hverjir væru búnir að fá lánaðan heimilisbílinn og tilbúnir að keyra, þó aðrir ætluðu að fá sér bjór.

hloduball-1970
Sumar stelpurnar höfðu klætt sig upp

Þá kom upp spursmálið um fylgdardömu.  Það væri tóm vitleysa að mæta þarna einn, þarna væru allar stelpurnar á föstu og þeirra væri gætt af mikilli varkárni, hlöðuball væri vettvangur slagsmála ef eitthvað bæri út af.

Manni varð bara hugsað til Húnavers og Miðgarðs og þó engir Skagstrendingar yrðu á svæðinu gat greinilega allt gerst.

Ég hafði fyrir hvorugu hugsað, „date eða drukk“.  Skítt með bjórinn, hvaða unglingur á Íslandi hafði svo sem reynslu af bjór 1967.  Hann varð ekki hversdagsdrykkur hér á landi fyrr en rúmum 20 árum seinna og ég hafði almennt ekki verið í þeirri aðstöðu að eignast eða drekka bjór.  Öðru máli gegndi með Baccardi og kók.

Peli eða ekki peli

Mér var sagt að ég skyldi ekki reyna að hafa með mér.  Það yrði leitað á öllum og ég spurður um „nafnskýrteini“ hvert sinn sem ég færi á barinn.  Þar lauk nú samanburðinum við Húnaver og Miðgarð.

Eftir nokkra eftirgrennslan kom í ljós að allar jafnöldrur mínar úr Loudonvill High School  voru annaðhvort þegar komnar með fylgdarmann, var bannað að fara á hlöðuball eða áttu bara einfaldlega að vera heima hjá sér á gamlárskvöld.

hloduball-ii
Myndirnar eru ekki frá þessu kvöldi

Ég ætlaði með Curt, sem ég hafði þvælst víða með og Melody systur hans, sem var ári yngri en við.  Hana blóðlangaði á hlöðuballið og fékk starx leyfi foreldra þeirra, enda yrðum við báðir á staðnum.  Ég skynjaði svo bráðlega að það var eiginlega verið að tala um að hún yrði „my date“.

„Saman“….

Þó hún væri bæði bráðhugguleg og skemmtileg, þá var hún hreint ekki fyrsti valkostur hjá mér sem fylgdarmær.  Ég var jú búinn að átta mig á því að jafnaldrar mínir af báðum kynjum tóku það afar hátíðlega að „vera saman“.

Fram í hjá Curt sat kærasta hans en við Melody aftur í og nú hjúfraði hún sig upp að mér þó nóg væri plássið í Cryslernum.  Þarna fór strax að dimma yfir þessu gamlárskvöldi mínu 1967.

Öll komumst við inn og nú kom stóra sjokkið.  Það var ekki verið að spila Bítlalög eða Stones.  Úti í einu horninu var fimm eða sex manna „country band“.  Tveir belgmiklir gítarar, rafmagnsbassi, fiðlur og banjó og svo auðvitað „slide-gítarinn“.  Söngkonur voru tvær, önnur í kúrekagalla, hin með svuntu og skein á hvíta síðbrók þar fyrir neðan.

blue-grass-band
Blue Grass hljómsveit frá 1970

Miðaldra fólk var að dansa línudans og minn aldurshópur góndi á í forundran.  Hvert var ég nú kominn?  Þvalur lófi Melody minnti mig á það, því að „par“ á að haldast í hendur á svona kvöldi.

Það gefur auga leið að engri ragettu var skotið á loft þarna í skógivaxinni sveitinni, því síður að borinn væri eldur að spítnadrasli og slitnum dekkjum.  Í nokkra klukkutíma rápaði maður þarna um jarðhæð, efri hæð og út á pall, allt eftir einhverju tilfallandi munstri eða munsturleysi.

Ég held þetta hafi verið eina kvöldið eða viðburðurinn sem ég óskaði þess að ég hefði heldur verið heima í Félagsheimilinu á Blönduósi.

Kannski mun lokapistillinn um þetta ár mitt í Ohio fjalla um kvöldið sem ég varð „að manni“ eða þannig hef ég oft litið á það og undrast eigin viðbrögð.

2 athugasemdir við “17 ára til Ameríku – gamlárskvöld, botninum náð”

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s