17 ára til Ameríku, ekki heima á jólunum

Fyrstu jólin að heiman

17 ára gamall var ég nógu mikið barn til að hafa ekkert hugsað út í það, hvernig það væri að vera ekki heima á jólunum.  Þorláksmessa fór til dæmis algerlega fyrir ofan garð og neðan hjá Ameríkönunum, bæði í skólanum og hjá fjölskyldunni.  Á Blönduósi höfðum við pabbi farið saman í fjárhúsin á Þorláksmessu og gefið bæði blæsmum og hrútum þá jólagjöf að svala kynlífsfýsn sinni, það voru hátíðlegar stundir.

Pakkar að heiman

Það hafði eitthvað komið til tals á ameríska heimilinu, að á Íslandi væri siður að opna pakkana á Aðfangadag.  Ég var því spurður hvort ég vildi halda mínum sið, eða opna pakkana um leið og þau, á Jóladag.  Ég kaus að halda mínum og kl. sex settist ég með pakkana mína á borðstofuborðinu og krakkana í kringum mig, sem auðvitað biðu jafn spennt og ég, að sjá hvað upp úr þeim kæmi, svo sem væru þetta þeirra eigin pakkar.

Ég hafði “klætt mig upp” eins og ég væri heima á Blönduósi.  Á hinn bóginn, til að flýta fyrir því að koma krökkunum í rúmið, var búið að setja þau öll í náttfötin eins og öll önnur kvöld.  Hjónin voru á stjákli í kringum mig líka, í hversdagsgallanum, en öll varð stemmningin einhvernvegin líflaus og svo fáránleg að ég man ekki eftir neinni gjöf frá þessum þó eftirminnilegu jólum.  Aðfangadagskvöld í Ameríku var því algerlega mislukkað og hálfgerð tímasóun.

Ég lét mig samt hlakka til morgundagsins, þegar krakkarnir opnuðu sína pakka, en þá var það sama sagan.  Enginn klæddur í sjaldhafnarfötin, börnin enn í náttfötunum og frúin komin með Carmenrúllur á hausinn. Seinna um daginn var svo haldið til messu og þá voru allir klæddir upp í sitt besta.

Blönduóskirkja
Gamla kirkjan á Blönduósi, altaristafla eftir Jóhannes Kjarval

Talandi um messu.  Svo skrítið sem það er, þá hygg ég að allt frá fermingu Gulla heitins vorið 1965 hafi ég aldrei aftur farið í kirkju, enginn jarðarför, engin skírn eða brúðkaup, sem kallaði á kirkjuför hjá okkur bræðrum og alls ekki að okkur dytti í hug kirkjuferð til messu einnar.

Samt fór það svo að þegar ég fór með fjölskyldunni fyrst í messu í annarri kirkju en þeirri Lútersku, þá fannst mér ég vera að svíkja eitthvað.  Þau voru í kirkju sem kallaðist “prespertarian” og byggir auðvitað á kristnum gildum, en þar sem í bænum var Lútersk kirkja og nokkrir skólafélagar mínir fastagestir þar, þá fór ég eftirleiðis þar í messu.

Söngur og sviðslistir

Skólaleikritið í Loudonville High School
Skólaleikritið í Loudonville High School 1967

Fljótlega spurðist að ég hefði spilað í hljómsveit og gæti líka sungið og því var ég kallaður til að æfa upp söngdagskrá fyrir Jólasöngva kirkjunnar að kvöldi Jóladags.  Þarna söng ég tenór ásamt m.a. aðstoðarprestinum, sem hafði gullrödd og söng einsöng í nokkrum lögum.

Sungið í messu

Ég kom of snemma inn eftir eina þögnina, aleinn og fékk mikið hrós frá “kantornum” á eftir fyrir að hafa þó verið á réttum tóni þó ég hefði sleppt tveim þögnum.  Ég söng svo áfram með kórnum fram yfir Páska, en hætti þá, þegar vor var komið í loftið og sálina og ég kominn á nýtt heimili, þar sem vorannir, með plæginu og sáningu þóttu brýnni en messusöngur.

LHS skólakórinn
Skólakórinn í dag og strákarnir með skegg og „alles“

Og talandi um kórsöng, þá hélt nemendafélagið úti skólakór, sem þó starfaði fyrst og fremst fyrir jólin og svo aftur í tengslum við skólaslitin.  Ég var munstraður í skólakórinn, sem einn af skólabræðrum mínum leiddi af því hann spilaði heilmikið á píanó.

Vesalings Sveinbjörn Egilsson

Einhverntíma hafði komið fram sú hugmynd að láta mig syngja eitt erindið í  Heims um ból, á íslensku á meðan hin hummuðu undir.  Ég held að mér hafi tekist að nota glefsur úr öllum erindum Sveinbjörns Egilssonar í þessu eina versi, man að ég byrjaði á Heims um ból – endaði svo á “konungur lífs vor og ljóss”.  Í lok lags heyrðist eitt heyrnardaufa gamalmennið í salnum segja við nærstadda “Was that German?”

Sending að heiman

Ein er sú minning sem ber hærra en allar aðrar í sambandi við þessi jól.  Pabbi hafði lengi haft þann sið að senda rjúpur fyrir jólin í allar áttir, til vina og vandamanna.  Nú sá hann fram að þurfa að senda mér rjúpur og kenna Ameríkönum að snæða þetta góðmeti á hátíðisdögum.  Pabbi lét rjúpur alltaf hanga nokkuð lengi úti við, áður en þær voru settar í frost ef snemma voru skotnar.

Rjúpur í bögglapósti

Ég sé hann fyrir mér nostra við að koma 10 rjúpum fyrir í pappakassa, binda vel fyrir og skrifa skýrum stöfum með svörtum tússpenna utan á og keyra svo inn á pósthús og setja í sjópóst til Ameríku. Þessi pakki var varla settur í fokdýran frystigám á leið yfir hafið.  Hann mun hafa ferðast með öðrum bögglapósti vestur um Atlandshaf, 5 – 6 daga sigling, skipið landað í nokkrum höfnum á austurströndinni áður en hann hvarf frá borði og lenti í landpósti um ýmis pósthús og geymslur á fasta landinu, á leið sinni til Loudonville.

Já, þarna lá pakkinn minn

Það var komið fram undir janúarlok þegar, einn daginn frúin tók á móti mér, er ég kom heim úr skólanum, með þeim orðum að mér hafi borist böggull frá Íslandi.  Það væri svo skelfileg lykt af honum að hún hafi ekki viljað setja hann inn í hús.  Ég gekk bak við hús og þurfti lítt að þefa til að finna stæka rjúpnalykt af pappakassanum, enda örlítill blóðblettur á einu horninu.

Þetta get ég ekki sagt neinum heima

Ég fékk mig ekki til að henda rjúpunum frá pabba samdægurs og setti kassann upp á þak hússins, svo krakkarnir væru ekki að vesenast í honum og eins taldi frúin að hann gæti dregið að óæskileg dýr úr skóginum svo sem hræætur og/eða snáka.  Svo gerði hlýtt í veðri og ég sá ekki ástæðu til að láta pakkann liggja þarna lengur.  Jólin voru liðin og rjúpurnar löngu ónýtar.

Nú hrannast upp minningar frá þessu ári mínu og hver veit nema ég setji fleira á blað.  Þeir urðu svo sex alls, pistlarnir mínir og hinir munu birtast í framhaldinu.