17 ára til Ameríku, sofnaði í lestíma

Ford Falcon Station

Aftur kvöddumst við félagarnir úr TWA fluginu og nú þrammaði ég með fjölskyldunni út á bílastæði sem ég sá strax að var mörgum sinnum stærra heldur en samanlögð bílastæðin við kaupfélagið og félagsheimilið á Blönduósi.  Rauður Ford Falcon skutbíll var fjölskyldubíllinn, blessunarlega með… loftkælingu og hann beið okkar sjömenninganna, bílar á Blönduósi voru með miðstöð á þessum tíma.  Það er þriggja tíma akstur frá Columbus til Loudonville og frúin spurði mig góðlega hvort ég vildi ekki fara úr köflótta jakkanum á leiðinni.  Mér leið ágætlega í loftkælingunni, en ég skynjaði að þetta voru frekar tilmæli en bara uppástunga og reif mig úr jakkanum.  Á leiðinni var reynt að halda uppi samræðum við mig og börnin, sem öllum var hrúgað í aftursætið með mér, nema 5 ára guttanum, sem var fram í, á milli hjónanna.

Dagleiðin langa

Eftir nokkurn akstur var mér tilkynnt að þau ætluðu að stoppa á leiðinni hjá systur húsbóndans og sýna þeim nýja fjölskyldumeðliminn.  Frúin notaði tækifærið og spurði hvort ég vildi ekki taka af mér bindið.  Þar fórnaði ég góðri litasamsetningu, vínrauða bindinu á móti bleikdoppóttu skyrtunni, en frúin hafði náð að fækka litum og mynstrum í klæðaburði hjá mér um tvö.

Sveitó 1967
Köflóttu jakkarnir frá Herradeild P&Ó

Í stoppinu bættust við þrjú börn á unga aldri og ég man hvað mér þótti furðulegt að sjá svo ung börn tala reiprennandi ensku.  Þarna var mér boðið upp á samloku með hnetusmjöri og sultu og hafði aldrei lent í öðru eins, allt virtist sitja fast á tungunni hnetursmjörið, hvíta brauðið og jafnvel sultan.  Að sjalfsögðu varð ég að segja að mér þætti þetta gott, en ég þurfti að beita klókindum við að afþakka aðra samloku.  Í þessu stoppi hugsaði ég í fyrsta og eina skipti allt þetta ár “í hvern andskotann er ég nú búinn að koma mér”.

Heima hjá Dalton fjölskyldunni

Heim var komið undir kvöld og ég smakkaði lungamjúka nautasteik í fyrsta skipti á æfinni eldaða á kolagrilli, sem ég hafði ekki einu sinni vitað að væru til.

Síminn hringdi og nágrannakonan fékk að vita að ég væri ekki eskimói, að ég hefði aldrei fyrr séð mislæg gatnamót, aldrei fyrr smakkað steik af kolagrilli og snætt mína fyrstu samloku “with peanut butter and jelly and he liked it”.  Í birtingu næsta morgun mætti nágrannakona með gallosnsstóra krukku af “peanut butter and jelly”, sérstaklega handa mér.Uppskeruhátíðin í Loudonville haldin ár hvert í septemberlokUppskeruhátíðin í Loudonville haldin ár hvert í septemberlok

Ég átti sem svaraði rúmlega 1.200 USD þegar ég flaug út 08. sept. 1967.  Um haustið felldi Viðreisnarstjórnin á Íslandi gengi krónunnar tvisvar með stuttu millibili og þá urðu dollararnir mínir 750.

Fyrsti skóladagur í Loudonville High School

Ég kom út, ef ég man rétt, á laugardegi og fór í skólann strax á mánudegi, enda skóli þegar hafinn.  Það var bæði kvíði og tilhlökkun í mér að ganga inn í nýjan skóla, í nýju landi og framandi skólasiðum.  Ég var ekki óvanur því að mæta síðastur til skólahalds, því ég hafði alist upp að verulegu leyti hjá afa og ömmu á Sölvabakka og ber enda nöfn þeirra.  Það þótti óþarfi að ég færi úr sveitinni áður en eftirleitir og/eða slátrun væri lokið og því kom ég ekki í barnaskólann á Blönduósi fyrr en í lok september, eða byrjun október öll haust.

Trúlega var mörgum a.m.k. “senior high” nemendum kunnugt um að von væri á mér og því vakti ég talsverða athygli, einkum í matsalnum, þar sem fjöldi var samankominn í lesstofu.  Ég áttaði mig svo á því seinna að það voru ekki endilega þessi geislandi glæsilegheit sem ollu athyglinni, heldur bæði klæðaburður og klipping.

Engilbert humperdink
Alvöru bartar.

Ég var leiddur strax fyrir skólastjórann, “The Principal”.  Hann þurfti ekki að skoða mig lengi til að sjá hvaða útlitsbreytingar yrði að gera á drengnum.  Ég hafði þá þegar allgóða skeggrót og var með flotta, síða barta, sem ég var mjög stoltur af.  Eftir að hafa boðið mig velkominn sem fyrsta erlenda nemandann í sögu skólans kom fyrsta umvöndunin.  Burt með þessa barta sagði hann.  Engilbert Humperdink hefði ekki gefið sína eftir, en ég lét mig.

Hann kom svo fram fyrir borðið og sagðist þurfa að kenna mér að láta klippa mig samkvæmt “skólareglum”.  Hann brá samliggjandi vísifingri og löngutöng á enni mitt, niður við augnabrúnir og tjáði mér að þessi ennistoppur væri alltof síður.  Hann ætti að geta komið þessum tveim fingrum milli augnabrúna og ennistopps, án þess að snerta hár mitt.

Triginometry, hvað er nú það

Mér voru afhentar bækur, eftir að hafa valið fögin mín, Ensku, American History, American Government (ameríska stjórnmálasögu) og Trigonometry, sem ég vissi ekkert hvað var, en vissi að teldist til einhverskonar stærðfræði.  Þetta mun kallast hornafræði með meiru, á íslensku.  Ástæða fyrir því að amerísk stjórnmálasaga lenti í vali mínu var sú að heimilisfaðirinn, þar sem bjó, kenndi þetta fag.

Eftir að hafa sótt tíma í ensku var lestími hjá mér.  Ég var dálítið vankaður eftir ferðalgið og illa sofinn.  Ég sofnaði því fram á borðið og svaf af mér fyrsta tímann í sögu.  Svo skrítið sem það nú er, þá átti sögukennarinn við sama vanda að etja.  Gömul ruðningskempa sem vóg nú nærri 160 kg. og á heitum vordögum svaf hann oft vært í tímumum.

Ég notaði einn þessara svefntíma hans til að fletta Íslandi upp, í Encyclopedia Britannica, sem var í seilingarfjarlægð frá sætinu mínu.  Á korti af Íslandi voru fjórir kaupstaðir nefndir.  Hafnarfjörður, Reykjavík, Akureyri og Borðeyri.

Það var mikið látið með þessa kríu mína í matsalnum á fyrsta degi og nánast allir, sem rituðu í minningabókina mína minntust á það, sem sérstakt afrek.

Skótau og gleraugu

Einu sinni til tvisvar á ári þurftu allir að hjálpa til í eldhúsi að hádegisverði loknum
Einu sinni til tvisvar á ári þurftu allir að hjálpa til í eldhúsi að hádegisverði loknum

Hafi klæðaburður minn vakið athygli samnemenda minna þá vakti klæðaburður þeirra ekki minni undrum hjá mér.  Piltar gengu ekki í támjóum skóm í Ameríku þá, eins og í Evrópu.  Þeir gengu allir í forljótum og kauðalegum skóm – sumir með sylgju á ristinni.  Ég lærði seinna að þetta hétu fótlaga skór og sáust ekki á Íslandi fyrr en áratugum seinna.

Hollingin á stelpunum var líka áfall út af fyrir sig.  Aldrei hafði ég séð jafn margar stelpur með gleraugu, já og það ljót gleraugu, samankomnar á einum bletti og á skólalóð Loudonvill High.  Enn bættist mér þekking þegar ég áttaði mig á að eftirlit með sjón barna og unglinga var auðvitað á miklu hærra plani þarna, en á Blönduósi.  Þangað kom aldrei augnlæknir.

Ég var boðaður í blaðaviðtal hjá skólablaðinu þarna samdægurs og það viðtal varð til þess að Ómar Valdimarsson, blaðamaður, sem var skiptinemi sama vetur og ég, einnig í Ohio á vegum Þjóðkirkjunnar, hafði samband við mig og við hittumst oft þennan vetur.

Einn strákur sýndi mér aulaframkomu þennan fyrsta dag, en fyrstu kynni segja ekki alltaf til um framhaldið.  Ég átti eftir að verða heimagangur hjá fjölskyldu hans, er fram í sótti og eftir áramótin flutti ég á heimili hans, eftir að ég hrökklaðist úr vistinni hjá kennaranum.  Ég sé til hvort ástæða þess brotthvarfs verður gefin upp, en mun íhuga það, ef til mín verður leitað, líkt og stjórnmálamennirnir sem alltaf þurfa að vera að bregðast við fjölmörgum áskorunum um frekari vegtyllur á ferlinum.

Ég vona að einhverjir hafi haft gaman af þessari upprifjun minni – ég hafði gaman af að setja hana á blað og til að enda þetta á svolítið hátíðlegum nótum þá hef ég oft sagt að í þessari ársdvöl minni svo fjarri fjölskyldu og vinum hafi ég fullorðnast hraðar en á nokkru öðru æviskeiði og í mörg ár á eftir veit ég, að ég, eins og aðrir sem stíga svona skref, var í mörg ár að vinna úr dvölinni, mér til þroska og vitsmuna.

Hér eru tenglar í fyrstu tvo pistlana:

https://fararsnid.is/2018/11/29/17-ara-til-ameriku/

https://fararsnid.is/2018/12/06/17-ara-til-ameriku-annar-kafli/