17 ára til Ameríku – annar kafli

Hér held ég áfram að birta fyrstu ferðapistlana mína frá 2014.

Það var talsverður viðbúnaður á heimili foreldra minna þegar drengurinn var að leggja upp í hina löngu ferð og löngu dvöl í hinni stóru Ameríku.  Ég hafði alltaf gefið það út að ég ætlaði ekkert að ákveða það, þar og þá, hvenær ég snéri aftur heim, sá alltaf fyrir mér að ný æfintýri biðu mín á hverju horni.Sennilega færi ég á eitthvert flakk um hina stóru álfu, ekki síst ef ég gæti útvegað mér vinnu hér og þar.  Ég málaði þetta svo skærum litum að móðurbróðir minn kvaddi mig hágrátandi, í algerri óvissu um það hvort við ættum nokkurntíma eftir að hittast aftur.  En eitt hafði ég þó alveg skýrt í huga mér.  Ég ætlaði að drífa mig heim til Íslands ef ég hefði minnsta grun um að það ætti að fara að kalla mig í ameríska herinn.

Ferðatöskur og hljómsveitin Sveitó

Hluti þess viðbúnaðar, sem ég talaði um af hendi foreldra minna, var sá að senda mig suður í Kaupfélag og láta mig kaupa ferðatöskur.   Og viti menn, það voru til tvær ferðatöskur í Kaupfélaginu á Blönduósi, önnur stór og hin lítil, báðar svona gráyrjóttar harðpappa töskur, með krómuðu stáli á öllum hornum.  Ég á þá litlu ennþá og henni verður ekki fargað.

Fróða lóðin
Þarna tók ég seinna grunn að stækkun Fróða

Það þótti nú líka rétt að fata mig upp að einhverju leiti, að minnsta kosti fyrir ferðina sjálfa.  Þá kom sér vel að ég hafði spilað heilt ár á Höfner bassa, eins og Paul MaCartney, í hljómsveitinni Sveitó frá Blönduósi.  Við vorum svo menningarlegir í þeirri sveit að við spiluðum í “uniformi”.

Búningurinn var: gráar ullarbuxur, með síldarbeinsmunstri, hvít skyrta og vínrautt bindi, með frönsku mynstri, svona tóbakspontu vefnaði.  Það var hinsvegar talsvert mál að fá sex jakka, alla eins, en þó fundust um síðir, sex bláköflóttir jakkar í okkar stærðum, í Herradeild P&Ó við Austurvöll.

Við höfðum farið þrír “suður“, þið vitið að það er nóg að segja “suður”, hvar sem er á landinu, þá vita allir að átt er við Reykjavík.  Í leiðinni var keypt söngkerfi frá Selmer, bassa magnari sömu gerðar fyrir mig – ég man enn lyktina af þessum dýrgrip þegar ég tók utan af honum og svo keyptum við Ludvik trommusett eins og Ringo spilaði á.

Selmer box & magnari

En aftur að klæðaburði í ameríkuflugi.  Mér fannst ómögulegt að fara bara í Sveitógallanum eins og hann lagði sig, þannig að í fyrrnefndri Kaupfélagsferð keyti ég bleika skyrtu, með dálítið stórum, hvítum doppum á.  Ég man því að ég var ótrúlega sáttur við ferðafötin mín til Ameríku, þó ég væri kannski örlítið óviss um hvað biði mín við hvern nýjan áfanga.

Áfram til Ohio

Síðasta pistli lauk er ég á ögurstundu fann pissuskálar á JFK flugvelli.  En nú, er ég kom aftur upp af neðri hæðinni, var ég búinn að týna öllum Íslendingunum, sem flogið höfðu með mér til New York.  Sem sagt týndur á flugvellinum þegar ég loks hafði lokið mér af.

Ég sýndi því sama öryggisverðinum farseðilinn minn áfram til Columbus í Ohio og hann útskýrði fyrir mér að ég þyrfti að fara yfir í “another terminal” til að taka það flug – taka stræto á milli og fara svo út eftir fimm stopp.  Orðið “terminal” var ekki til Landsprófs þegar það var og hét.  Löðrandi sveittur labbaði ég þó inn í nýja byggingu eftir fimm stopp og viti menn, þarna stóð á stóru skilti TWA, einmitt það sama sem stóð á farseðlinum mínum, ótrúleg tilviljun og heppni.

Los Angeles Premiere of 'The Call'clark-gable-01

Clark Gable og Halle Berry eru heimsþekkt börn Ohioríkis

Í fluginu til Columbus lenti ég við hliðina á miklum spjallara og þá kom í ljós, að ef fólk var tilbúið að gefa sér tíma, var alveg hægt að skilja enskuna mína og ég gat skilið flest það “er fram gekk af munni hans”.  Ég hafði sent töskurnar mínar áfram til Columbus og ferðafélagi minn sagði að við skyldum verða samferða “to pick-up the luggage”, – skyldi hann vera að meina “suitcase”?

Brak og brestir í kallkerfi á Columbusflugvelli

Við kvöddumst svo með virktum og héldum hvor sína leið – hann vissi hvert hann ætlaði, ég hafði ekki hugmynd um hvert ég var að fara. Eftir stutta göngu mína í sömu átt og flestir aðrir virtust fara var hann svo kominn aftur upp að hlið mér og sagði “Aren’t they calling your name?”   Ég var löngu hættur að hlusta á hrópin úr hátölurunum og hefði sennilega ekki tekið eftir þó nafnið mitt hefði heyrst þar.  Hann hélt áfram, “Aren’t you Mr. Ænursun from Iceland?”

Ég hitti aldrei þann Ameríkana þetta ár mitt í Ohio sem gat sagt Jón Karl óbrenglað og hefði því öruglega ekki þekkt það heldur, úr hátalarkerfinu, þó einhverjum hefði nú dottið í hug að ávarpa mig með skírnarnöfnum.  Mér hefði aldrei dottið í hug að hlusta eftir föðurnafni mínu á flugvellinum, jafnvel þótt hefði nú verið borið fram á skiljanlega hátt.

Þó margt ljótt gerist í henni Ameríku, þá er líka mikið til af góðu fólki þar, eins og annarsstaðar.  Hann gekk sem sagt með mér á þann stað sem fjölskyldan beið, sem átti að verða fjölskylda mín næstu mánuðina, hjón með fjögur börn frá 5 – 12 ára.

Þau virtust þó ekki á því að taka við mér, bara sisona, stærðar skrokk, sem var höfðinu hærri en hjónin.  Þau höfðu jú farið á flugvöllinn til að taka á móti eskimóa.  Ég varð að útskýra það á staðnum, að á Íslandi byggju alls ekki eskimóar, þeir kæmu þangað kannski sem gestir eða nemendur af og til.  Það má meira að segja geta þess að heimilisfaðirinn var kennari í framhaldsskóla.