17 ára til Ameríku

Afastrákurinn minn og nafni er að leggja upp í “heimsreisu” í byrjun desember, 20 ára gamall.  Á stuttri æfi sinni hefur hann margsinnis farið til útlanda, með ættingjum og vinum.  Nú verða bara fimm jafnaldrar á ferð, um Afríku, Mið-Austurlönd og Asíu.  Ég fór 17 ára gamall til Ameríku og hafði þá aldrei til útlanda komið.  Fyrir fjórum árum skrifaði ég fimm pistla ferðasögu, sem mig langar að birta aftur að gamni mínu.

Æskuheimilið á Blönduósi

Ég veit að ég ólst upp í miklu frelsi af hendi foreldra og fjölskyldu.  16 ára vann ég með manni sem hafði verið skiptinemi í Ameríku og hafði frá mörgu að segja.  Ég þurfti þá ekki meir – ég ætlaði til Ameríku og sjá heiminn.

Ég nældi mér í réttindi á þungavinnuvélar, þó ég væri ekki kominn með bílpróf og sagði aldrei nei við nokkurri vinnu, nú skyldi unnið og safnað fyrir Ameríku.  Tvívegis man ég að ég skrapp eitthvað annað til að vinna alla nóttina og var svo mættur aftur í grunn Húnavallaskóla, sam þá var í byggingu, um leið og hinir sem bjuggu í vinnuskúrunum.

Undirbúningur af lítilli þekkingu

Þetta var eina sumarið sem ég sleppti Verslunarmannahelginni og vann á gröfu, meðan vinirnir fóru í Húnaver og Miðgarð.  Frænka mín sem vann í banka í Reykjavík opnaði fyrir mig reikning og tók að sér að skammta mér gjaldeyri þegar þar að kæmi.

bee gees young
Bee Gees þegar þeir sungu Massachusetts

Kvöldið áður en ég flaug út höfðum við bræðurnir farið í Alþýðuhúsið við Hverfisgötu og þar heyrði ég fyrsta skipti lagið Massachusetts, með Bee Gee´s og If you’re going to San Fransisco, með Scott McKenzie, sem dó fyrir stuttu.  Hvenær sem ég heyri þessi lög enn í dag þá finnst mér ég vera á leið til Loudonville í Ohio fylki í Bandaríkjunum og ég fæ sama fiðring í magann.

Flugferðin langa og WC

Ég kom þarna í fyrsta skipti á ævinni í gömlu “Flugstöðina á Keflavíkurflugvelli”.  Óframfærinn drengur að norðan fékk sig alls ekki til að spyrja hvar klósettin væru.  Þatta var eiginlega fyrir þotuöld, allavega var vélin sem ég flaug með þeirrar gerðar sem hristist mikið og hafði hátt.

Ég fór sem sagt í loftið í miklum hlandspreng og framundan var nærri sjö kl.st. flug.  Það segir sig sjálft að ég hafði heldur ekki uppburði í mér til að fá að nota salerni í vélinni, enda virtist það alltaf upptekið, Íslendingar máttu jú drekka bjór í Flugstöðinni.

Leiðindaveður á JFK

Þegar ég lenti á Kennedy flugvelli lá mér orðið talsvert á að komast á klósett.  Ég sá að það að lá þokusuddi yfir svæðinu og ákvað klæða mig betur á leið inn í flugstöð og fór í forláta nýjan, háslfsíðan yfirjakka, með skarlatsrauðu fóðri og belti og batt hann vel að mér.

Loftliedir 1967
Loftleiðavél frá 1967

Ég gekk svo á vegg þegar ég kom út á tröppurnar niður á fast land.  Ég saup sem sagt kveljur, ekki vegna kuldahrolls, heldur vegna hitamollu, sem ég hafði aldrei fyrr upplifað.  Þvagblaðran kom mér þó fljótt til meðvitundar aftur.  Ég vissi að ég átti ekkert að vera að trufla eða tefja aðra farþega með asnalegum spurningum, eins og hvort þeir vissu hvar klósettið væri.  Þess í stað skimaði ég bara eftir merkingu, WC.

Þegar inn kom áttaði ég mig á því að þó Enska hefði verið hæsta einkunnin mín á Landsprófi þá fór því fjarri að ég skyldi nokkuð í þeim tilkynningum sem glumdu úr hátölurum, né heldur virtist neinn skilja enskuna mína þegar ég spurði skýrt og ákveðið: “Where is the WC?”.

Ó, hve létt var mitt skóhljóð

Það var ekki fyrr en ég sá öryggisvörð, sem hlaut að geta bent mér á klósett að hlutirnir fóru aðeins að ganga.  Hann vissi sem sagt að honum bar skylda til að aðstoða alla í neyð, en hann virtist bara ekki vita hvað þetta “dobbeljú sí” var.  Ég gekk því út að glugga og lét eins og ég væri að kasta af mér vatni og gerði tssssss. “Oh, the restroom – it´s downstairs to the left. ”

Ég var sennilega orðinn örvita af kvölum – allavega get ég engan vegin munað fyrsta augnablikið við hlandskálina, en það gefur augaleið að jafnvel fegurð Himnaríkis hefði vart getað toppað þá sælukennd.

Þessi pistill birtist fyrst í ögn styttri útgáfu 26. nóvember 2014 .

%d bloggers like this: