Menningarferðir í sölu 2019

Þessi pistill mun fjalla um þær ferðir sem laust er í næsta sumar og haust.  Toskanaferðin okkar 2019 var komin í sölu 03. ágúst og uppselt í hana þann 20. ágúst.  Eins fór með ferðina okkar til Torino 2019.  Óskað var eftir henni fyrir fjölmennan hóp og seldist hún upp innan þess klúbbs.

Laust er í þessar ferðir

Þá eru samt fjórar ferðir eftir í sölu.  Í Menningarferðina til Valencia verður flogið með Icelandair og flugtímarnir eru þægilegir fyrir Íslendinga.  Það fóru tveir hópar með okkur til Valencia nú í ár.  Kennarahópur, sem fyrst og fremst var að kynna sér kennsluhætti í sveitum Valenciahérðas og svo 50 ára útskriftarnemar frá Kvennó.

Keramiksafnið skartar tilkomumikilli alabastursskreytingu

Ljóst er að kennararnir frá Grenivík fengu mikið út úr sínum heimsóknum.  Þeir heimsóttu alls fjóra skóla á tveim dögum, allt skóla að svipaðri stærð og þeirra skóli er.  Það voru því margar lausnir á vanda fámennisskólans, sem hægt var að sjá hvernig brugðist er við í sveitum Valencia og sem vel mætti yfirfæra á skólahald íslenskra fámennisskóla.

Hvar sem er í Túríagarðinum birtist glæsilegur arkitektúr

Auk skólaheimsóknanna kynntist svo hópurinn auðvitað mörgu í sögu og menningu héraðsins og borgarinnar.  Þarna var bæði um að ræða matar og vínmenningu og fjölbreytta sögu Valencíuborgar frá tímum márískra yfirráða, gegnum blómaskeið silkiræktar í sveitunum og allt til hamfaranna er Túríaáin flæddi.

Víngerð er tiltölulega ný búgrein í Valencíahéraði en skartar þó strax nokkrum afburðavínum, eins og cava og nokkrum rauðvínum.  Matargerðin er æfaforn og eins og margsinnis hefur verið hamrað á, er sjálf „paellan“ talin upprunnin þar.  Ómissandi þáttur er svo eitt kvöld þar sem þræddir eru nokkrir „tapas“ staðir og fjölbreytni þeirra könnuð.

Hádegisverður eftir góða gönguferð á La Rocca

Gardasvæðið endist og endist

Fyrstu „sælkeragöngurnar“ okkar voru farnar til Garda.  Þar er einstaklega þægilegt að blanda saman hollri hreyfingu um falleg göngusvæði, dásamlegum, en samt einföldum mat, eðalvínum og merkilegri sögu.  Sælkeraganga til Garda verður tvítekin á næsta ári.  Undanfarin ár höfum við verið þar á ferðinni seint í ágúst og svo verður áfram.

Aukaferðin sem farin verður er fyrripart sumars, þegar allt er í blóma.  Allstór hópur, sem ferðast hefur með okkur áður og alls ekki getur farið eftir miðjan ágúst, óskaði því eftir ferð seint í júní.  Sælkeraferð til Garda – AUKAFERÐ verður því farin 29. júní – 06. júlí.

Í báðum ferðum er sama dagskrá og kannski verður toppurinn á ferðunum að fara í Arenuna í Verona og sjá AIDA eftir Verdi.  Ábending kom frá farþegum okkar í sumar um að bóka hiklaust bestu sætin á sýningunni, þetta væri kannski nokkuð sem fólk gerði bara einu sinni á æfinni.

Vínuppskeruferð og matargerð

Þurrkloft fyrir þrúgur sem fara eiga í Amarone vín

Ég er strax farinn að hlakka til að endurtaka Vínuppskeruferð til Soave og Valpolicella.  Auðvitað er alltaf nokkurt nýjabrum á nýrri tegund ferðar.  Ég held samt að það sé ekki bara nýjungagirnin, heldur miklu fremur hve við fengum að skoða ólíka kjallara nú í haust, í jómfrúarferðinni.

Þó við kennum ferðina aðeins við þekktustu vínhéruðin á norður Ítalíu, þá skoðum við nefnilega tvö önnur vínhéruð einnig.  Trento er spennandi svæði, ekki síst fyrir hve góð vín þeir geta gert svo norðarlega í landinu.

Héraðið liggur litlu sunnar en skíðasvæðin í Dolomítunum, sem margir Íslendingar þekkja vel.  Það er ekki sjálfgefið að hægt sé að renna sér á skíðum niður að vínekrum.  Líklegast væri að þarna væru fyrst og fremst framleidd hvítvín, en kjallarinn sem við heimsóttum hefur einmitt hlotið verðlan fyrir Pinot Nero vínið sitt.

 

Lugana, ein af dagsláttum Drottins

Það er eitt af sárafáum mistökum í sköpunarverki Skaparans hve Lugana vínhéraðið er lítið um sig.  Auðvitað hjálpar það til að Drottinn lét sér detta í hug Trebbiano vínþrúgan.  Hún er hreint afbragð, hvort sem er til hvítvíns eða rauðvínsgerðar.  Hún og frænkur hennar eru þó fyrst og fremst kunnar sem hvítvínsþrúgur.

Skemmtileg mynd úr húsagarði kjallarans niður til Gardavatns

Vínin frá Lugana hafa lengi verið í mestu uppáhaldi hjá mér af hvítvínunum við Gardavatnið.  Það er sama hvort þú ert að nota þau með mat, eða bara til að „hygge sig“.  Miðað við léttleikann eru þau þó ótrúlega góð með öllum mat, ekki síst skelfiski.  Kjallarinn sem við heimsóttum stendur fyrir vestan héraðið en hefur eignast nokkra hektara innan svæðisins.

 


 

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s