In vino veritas

Það var ekkert lát á ánægjunni með næsta dag, frekar en hinn fyrri.  Aftur skyldi dagurinn hefjast á göngutúr og nú var haldið í þjóðgarð, ekki alltof langt frá gististaðnum okkar.  Þjóðgarðurinn er, ólíkt Þingvöllum, nokkuð þéttbyggður og smáþyrpingar skiptust á við sveitabæina.

Gönguleiðin var í um 700 metra hæð og golan virkaði svöl þar efra, þar til manni hitnaði af göngunni.  Gengið var um gamlan vegslóða og ekkert rauf morgunkyrrðina nema kliður frá kúabjöllum, úr grasbrekkunum fyrir neðan.  Mjúkur ilmur af mykju lá í loftinu.

Nautgripir

Kálfar og kýrrassar – hjarta gamla kúasmalans sló hraðar

Svo skemmtilega vildi til þennan dag, að einn bændanna var að leggja af stað með kúahjörðina sína niður á láglendið, þar sem þær „liggja við opið“ í vetur.  Þetta er 30 kílómetra leið og mun taka nokkra daga.  Í sumar höfðu kýrnar verið mjólkaðar í opnum skýlum í haganum og mjólkin færð rakleitt í mjólkurbúið, sem einnig er ostagerð og einmitt þar endaði gangan okkar.

Við fengum að fylgjast með þegar „ricotta“ osturinn var að ná réttu hitastigi í kerinu og fengum að forma fyrstu ostana.  Einnig var okkur sýndur geymsluklefinn, þar sem ákveðnir ostar eru látnir ná réttum aldri og/eða mygla svolítið, til að auka enn á bragðgæðin.

Í næsta klefa héngu svo hinar grófhökkuðu ítölsku pylsur og hráskinka, sem er aukabúgrein hjá fjölskyldunni sem á búgarðinn.  Að skoðun lokinni og smá innkaupum var svo enn boðið til veislu.  Það er nefnilega svo að allur hversdagsmatur í sveitinni getur sem best flokkast undir veislumat.

Eldunarnámskeið

Eldað á ítalska vísu

Er heim var komið í gististað skyldi hópurinn taka námskeið í ítaklskri matargerð.  Til boða stóð að elda fimm rétti, en á endanum urðu það aðeins fjórir, sem hópurinn valdi sér.  Grænmetisbaka í forrétt, gnocchi þar á eftir, villt kanína í aðalrétt og hið heimsfræga tiramisu í eftirrétt.

Sumir karlanna höfðu talað um að læra vínkjallarann utan að á meðan aðrir dveldu á  námskeiðinu.  Það var þó ekki að sjá að þeir drægju neitt af sér í matargerðinni þegar til kom.  Hnífar voru á lofti við öll borð, egg voru hrærð, kanínur snörkuðu í sjóðheitri olíunni og gnocchi var hrært og formað eins og fyrir marga tugi matargesta.

Næst fékk hópurinn frí, til þess loksins að kanna vínkjallarann til hlítar.  Á meðan var víst meistarakokkurinn að reyna að bjarga því sem bjargað varð eftir nemendurna.  Engum varð illt af máltíðinni, nema ef vera kynni fyrir hve hún var ríkuleg en margir voru þó farnir að venjast skammtastærð Ítalanna.

Feneyjar

Feneyjar breytast ekkert

Á fimmta degi var farin dagsferð til Feneyja.  Það er mikið brambolt að komast niður á Markúsartorg en ólýsanlegt þegar komið er.  Föstudagur 05. oktober og borgin pökkuð af fólki.  Hitinn var þó með besta móti og öllum leið vel á göngunni um torgið og þröngu göturnar allt upp á Rialtobrúna, sem alltaf er heimsótt.  Við tók frjáls tími og svo var haldið heim um fjögur leitið.

Framundan var spennandi dagur, er haldið var vestur fyrir Gardavatn og upp í hæðirnar til norðurs frá Desenzano.  Þar ætluðum við að smakka Lugana vín og fá að skoða akrana og kjallarann, sem er tæpra 120 ára gamall.  70% ekranna umlykja búgarðinn 30% framleiðslunnar er frá ekrum þeirra í Luganasveit.

Monte Cicogna

Fyrirlestur fagmannsins í réttu umhverfi

Það var mjög fræðandi að heyra útlistun vínmeistarans á hugmyndum hans um víngerðina, umgengni við bæði vínekrurnar og þrúgurnar.  Fyrir honum var augljóst að vínviðnum skyldi planda „norður-suður“, en ekki „austur-vestur“, til að nýta sem best svalan norðan vindinn af vatninu, þegar hitinn er mestur.

Þá skilar norðan áttin líka best rakanum af vatninu og plöntur og þrúgur njóta einnig þann veg mestrar sólar, þegar mest er þörfin.  Allur vínviður þeirra er látinn vaxa með lóðréttum stuðningi, pergolur eru ekki þeim að skapi.

Mörgum þótti þessi kjallari einna skemmtilegastur að heimækja.  Eftir enn eina veisluna var haldið í rútunni til bæjarins Sirmione, sem stendur á langri totu, sem skagar norður í vatnið frá suður ströndinni.  Bærinn heillar alla, er þekktur fyrir afburða ísbúðir og þarna hefur íslensk kona búið á áratugi.

Bardolino

Andrea heillar líka Íslendinga

Við tókum ferju áfram yfir á austurströnd vatnsins, til bæjarins Bardolino.  Þar var frjáls tími og mikil vínhátíð stóð yfir í bænum, en þarna fengum við á okkur einu rigninguna í ferðinni.  Deginum lauk með glæsilegum kvöldverði á okkar eftirlætis stað í bænum, í höndum hans Andrea.

Andrea, einn fárra veitingamanna getur haft opið allt árið, svo marga fasta viðskiptavini á hann eftir þrotlausa vinnu frá ungaaldri og dæmafáa þjónustulund og elskulegheit.  Ein hjónin í hópnum fögnuðu brúðkaupsafmæli þetta kvöld og hlutu hátíðarljóð úr tveim áttum.

Amarone þurkloft

Heimkynni Amarone, jafnvel vagga

Sunnudagur 07. oktober og nú skyldi Soave kvatt og haldið af stað norður til Týról, Austurríkismegin.  Á leiðinni var þó komið við í fjórða og síðasta vínkjallaranum, Bertani í hjarta Valpolicella.  Hægt væri að skrifa sérstakan pistil um þann kjallara einan, svo merkileg er saga hans.  Þar er fullyrt að sé uppruni Amaronevínsins.

Skemmtilegast var þó að fá að skoða þurrkloftið, þar sem þrúgurnar, sem valdar höfðu verið í Amarone lágu á þurrkgrindum úr reyr.  Þessum þrúgum verður breytt í vín í nóvember eða desember og vínin getum við keypt í fyrsta lagi árið 2025.  Það var einn af fjölskyldunni sem leiddi okkur um þennan hluta kjallarans og var greinilega eldhugi í faginu.

Goldener Engel

Ferðarlok í fallegum bæ

Við gistum síðustu nótt ferðarinnar í miðaldabænum Hall rétt norðan við Innsbruck.  Ég hafði kviðið því að ljúka þessari miklu sælkerferð á austurrískum veitingastað, eftir allar veislurnar á Ítalíu.  Það reyndist óþarfi.

Vertinn hafði pata af því hverskonar fólk var hér á ferð og ætlaði greinilega ekki að lúta í gras fyrir ítölskum kokkum.  Meira að segja cuvée vínið, frá Steiermark er besta vín frá Austurríki sem undirritaður hefur smakkað.  Lokakvöldið og ekki síður fallegi bærinn Hall voru því óvænt viðbót við vel heppnaða ferð.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s