Vel heppnuð Vínuppskeruferð

Við vorum beðin um að skipuleggja vínuppskeruferð á einhvern þann stað sunnan Alpafjallanna, sem við teldum heppilegan.  Þau vínhéruð sem við þekkjum best til, frá umliðnum árum, eru Valpolicella og Soave, sem liggja hlið við hlið á Norður Ítalíu.

Fjögur vínhéruð – fjórir kjallarar

Þess utan þekkjum við til í Trento og einnig nýja vínsvæðið Lugana, við suður enda Gardavatns.  Þaðan koma mín eftirlætis hvítvín, gjarnan úr Turbiana þrúgunni, sem á frænkuna Verdejo á Spáni.

Vínuppskeran í Suður Evrópu fer fram nokkurn veginn frá miðjum september og fram í miðjan oktober, allt eftir árferði, landsvæði og jafnvel tegundum vínþrúga.  Rétt eins og norðan Alpafjalla eru svo til sérhæfðar aðferðir við víngerðina, eins og að draga tínslu í lengstu lög og minnka þannig vökvamagn á móti sykurinnihaldi þrúgunnar.

Trentino – falið leyndarmál

Þegar komið er fram á þennan tíma er ekkert beint flug til Ítalíu og því bókuðum við flug til Munchen og ókum suður til Trento (tekur svipaðan tíma og aka frá Reykjavík austur í Skaftafell, ekki síður áhrifarík leið).  Ítalir sjálfir hafa mikið dálæti á vínunum frá Trento.

Maso Bergamini útismakk

Kjallarinn sem við heimsóttum um kvöldið var svo aðþrengdur að við þurftum aðra og miklu minni rútu til að komast á leiðarenda.  Það var þess virði.  Kjallarinn er margverðlaunaður fyrir „Pinot Nero“ vínin sín og meistaralega framleiðslu á „Riesling“ víni.  Bóndinn mælti hiklaust með því að leyfa Rieslingnum að eldast í nokkur ár, hann yrði bara betri.

Næsta morgun héldum við áfram í heimsókn til hennar Verónuborgar, sem ekki var hægt að sleppa, þar sem leiðin lá hvort eð var í nálægð hennar.  Síðdegis héldum við svo áfram í gististaðinn okkar, gamlan herragarð, sem liggur á mörkum Valpolicella og Soave.

Á leiðinni upp dalverpið samanstóð nánast öll umferð af dráttarvélum, með drekkhlaðna vagna af vínþrúgum.  Bláir eða grænir hraukar af berjaklösum stóðu uppfyrir öll skjólborð á vögnunum.  Þá var nautn að því að þurfa að ferðast bara á hraða dráttarvélanna.

Gistingin okkar var herragarður í fallegri sveit

Aðalbygging herragarðsins skyldi verða hótelið okkar, allt nýlega uppgert af ítalskri smekkvísi og natni.  Hótelbarinn var sjálfur vínkjallari eigendanna, sem eru þrír bræður og spúsur þeirra.  Einn þeirra úrvalskokkur, (með Michelin viðurkenningu samfellt í 10 ár) annar þjónn „par exellans“ og hinn þriðji bókhaldarinn.  Svo voru „afi og amma“ oft að hjálpa til við morgunmatinn.

Eldhúsliðið kvatt

Næsta morgun var fyrsti göngutúrinn.  Honum lauk tveim tímum seinna eftir rólega göngu að næsta vínkjallara.  Þar er allt nýuppbyggt og auðmaðurinn sem á búgarðinn þarf ekki á magni að halda, heldur er ætlun hans að verða þekktur fyrir eðalvín.

Soave, þekktasta hvítvínshérað Ítalíu

Tínsla með handklippum stóð yfir á völdum þrúgum, sem fara áttu í bestu vínin, eins og sést á titilmynd pistilsins.  Sá akur stendur í 400-500 metra hæð, sem þykir óvenju hátt.  Amarone þrúgurnar Corvina og Rondinella skapa þessi vín og einnig er eigandinn áhugasamur um tilraunir með Chardonnay.

Ítalirnir bjóða aldrei upp á vínsmakkið eitt, heldur er alltaf hlaðið borð af mat með, brauð, hráskinka, ostar og pylsur.  Svo er rætt um vínin fram og til baka, hvað hentar með hverju, hvaða vín líkar best.  Skemmtilegast er þagar fólk er allsekki sammála um þessi atriði.

Tenuta smakk

Að smakki loknu og einhverjum viðskiptum í framhaldinu, var haldið í ólívuolíugerð.  Okkur var sýndur búnaðurinn og gerð grein fyrir „kaldpressun“, jómfrúarolíu og hvað gera mætti við hratið og steinana.  Kom í ljós að hvert einasta gramm ólívunnar er nýtt á einhvern hátt, engin matarsóun þar.

Um kvöldið var galakvöld á herragarðinum og fjöldi rétta varð á endanum meiri en magamál leyfði hjá mörgum.  Eðalvín var með öllum réttum, hvenær sem snætt var á gististað.  Við höfðum mátulega stóran sal fyrir hópinn og sátum öll við eitt firnastórt, hvítdúkað borð, með blómaskreytingum.

Mér er svo mikið niðri fyrir, í því að lýsa þessu ævintýri öllu, að frásögnin mun treinast í tvo pistla.  Það er vel, því bæði þótti mér sjálfum þessi jómfrúarferð einstaklega skemmtileg og ekki síður farþegunum.  Allt viðmót Ítalanna í sveitinni einkenndist af gestrisni og gleði yfir að geta kynnt fyrir okkur afurðir sínar og hugsjónir.

Framhald í næsta pistli.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s