Tilraun með Torino

Það var með nokkrum spenningi sem maður tók á móti fyrsta hópnum okkar til Torino í ágústlok 2018.   Sjálf erum við heilluð af borginni og rúmlega 20 manns höfðu treyst á orð okkar, um að hún væri vel þess virði að heimsækja.  En hvað skyldi þeim nú finnast eftir allt?Löns á Turin Palace

Við höfðum valið hótel af kostgæfni, allt nýlega tekið í gegn, fyrir utan þau herbergi sem eru friðuð og aðeins má breyta að litlu leyti.  Hótelið er vel staðsett gagnvart miðborg, verslunum og kaffihúsum.

Gönguleiðir

Við höfðum gengið víða um borgina, þó ekki á alla þá staði sem okkur hafði verið sagt að gætu hentað fyrir léttar göngur.  Daginn sem ganga skyldi handan Póárinnar t.d. lagðist þoka yfir borg og nærsveitir, þannig að við ákváðum að stytta gönguna verulega, enda ekki það útsýni sem við höfðum vænst.  Þegar göngu var lokið var hinsvegar komið besta veður og þokan fallin í gleymsku.

Fyrsta morguninn höfðum við hinsvegar gengið um fegurstu torgin undir leiðsögn henna Liudmilu, sem veit allt um þessa merku borg.  Hádegisverður á þaki nágrannahótelsins að göngu lokinni, með frábæru útsýni yfir borgina, í 25 stiga hita var góð byrjun á Sælkergönguferð.

Barolo borðhald

Matur og vín

Við höfðum líka valið veitingastaði sem mælt hafði verið með, fyrir dæmigerða Piemont eldamennsku.  Annan þeirra höfðum við reynt og líkað vel.  Hinn var kannski ýfrið mikill sveitastaður fyrir suma í hópnum, hvað réttina varðaði, en þjónustan var bæði alúðleg og fagleg og Barbaresco vínin í hæsta gæðaflokki.

Hinn staðurinn hafði allt til að bera, glæsileika, góða þjónustu og frábæran mat og vín.  Eftir smárétt frá kokknum, utan dagskrár, naut hópurinn kvöldsins í kyrrlátu umhverfi, jafnvel þó lofthæðin væri tvöföld á við það sem almennt gerist.

Mílanó dómkirkjan

„Síðasta kvöldmáltíðin“

Mér fannst kannski hápunktur ferðarinnar vera heimsóknin í Santa Maria della Grazia klaustrið í Milano, sem geymir hið stórfenglega verk Leonardo da Vincis, „Síðustu kvöldmáltíðina“.  Í sumar hafði ég reyndar lesið meistaralega þýðingu Tómasar R. Einarssonar, bassaleikara, á bókinni „Leynda kvöldmáltíðin“.

Ég notaði rútuferðina til Mílanó til að segja farþegunum undan og ofan af allri þeirri dulúð, sem sögð er falin í verkinu sjálfu.  Þannig varð upplifun þeirra, þegar við stóðum frammi fyrir myndinni, öll önnur og meiri og skilningurinn ríkari.

Barolo og trufflusveppir

Trufflusveppir

Reyndar var annar dagur stórbrotinn líka.  Það var sveitaferðin, sem endaði í vínkjallara Markgreifans af Barolo.  Strax um morguninn höfðum við heimsótt trufflubónda og hann tók okkur með sér út í skóg að leita að trufflum.  

Tíkin hans, hún Dica vissi alveg hvað til stóð, þegar henni var sleppt út úr bílnum og lét 20 manns ekki trufla truflunefið sitt.  Einhver fórnaði húfunni sinni til að nota undir sveppina og var hún við það fyllast er við kvöddum bóndan 40 mín síðar.  Uppskeran varð 14 svartir sveppir og einn hvítur.

Heimleiðin

Heimflugið var bókað gegnum Genf í Sviss, en þangað er ca. 4ra kl.st akstur.  Mér fannst sá tími ekki lengi að líða.  Það er tignarlegt að aka til móts við Mont Blanc og nágrannafjöll hans.  Jafnvel leiðin upp til Aosta, pílagrímabæjarins er ótrúlega falleg.

Auðvitað var tekið 30 mínútna stopp á leiðinni, þegar jafna langt var í báðar áttir.  Maður skynjar eitthvert nýtt andrúmsloft inni í miðju Sankti Bernharðsskarði.  Það minnir ekkert á viðmót náttúrunnar niðri á Pósléttu, dálítið eins og leðurbands útgáfa með gyllingum, af Öxnadalsheiðinni.

Það verður haldið áfram í næstu viku að segja frá ferðum sumarsins og fyrirhuguðum ferðum næsta árs.

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s