Ég ímynda mér alltaf að allir þekki “Sigurmarsinn úr Aidu”. Jafnvel á meðan ég taldi ekkert geta flokkast undir tónlist annað en lög Bítlanna, þá þekkti ég Sigurmarsinn úr Aidu, líka Sverðdansinn, Für Elise og Toccötu og fugu í d-moll. Auðvitað er það fásinna að telja að allir aðrir hafi sama áhugasvið og maður sjálfur.
Hughrifin
Að vera kominn á ákveðinn stað í þeim eina tilgangi að hlusta á verk eins og þessi, eða að láta þau bara damla í hljómflutningstækjunum á meðan maður er að gera eitthvað annað, er eins langt hvort frá hinu eins og fjarlægðin milli himintunglanna.
Þegar maður gengur inn í Arenuna í Verona, sem var fullbyggð árið 30 eftir fæðingu Krists, þá er óhjákvæmilegt að maður stígi sjálfkrafa inn í andrúmsloft bæði tignar og forneskju – árdaga siðmenningar. Það er einmitt sögusvið óperunnar Aidu.
Sögusviðið
Erjur höfðu staðið milli konungsríkjanna Eþíópíu og Egyptalands. Óperan hefst á því að Egyptar hafa tekið til fanga prinsessu Eþíópíumanna. Til frekari auðmýkingar hefur hún, Aida, verið gerð að þjónustustúlku prinsessunnar af Egyptalandi.
Herforingi Egyptanna, Radames er meir en lítið skotinn í hinni eþíópísku Aidu og þá fer nú ýmislegt af stað, sem ekki var séð fyrir. Ástarþríhyrningurinn fullkomnast þegar í ljós kemur að prinsessa Egyptanna er yfir sig ástfangin af Radamesi.
Sigurmarsinn hljómar í öllum sínum glæsileika þegar Radames snýr aftur úr lokaherför sinni, þar sem Egyptar hafa unnið fullnaðarsigur á herjum Eþíópíumanna, undir forystu Radamesar.
Og nú er Radames í klandri og Aida er bara hörundsdökk þerna undir smásjá prinsessunnar. Væri hann þá ekki að taka stórkostlega niður fyrir sig, með því að kvænast henni. Það kemur í ljós að faðir Aidu hefur einnig verið tekinn til fanga og næsta skref í málinu fyrir Egypta er einfaldlega að leggja Eþíópíu undir sig. Trump hefði byggt múr.
Uppbyggingin
Frá hendi Verdis er allt hefðbundið í uppbyggingu óperunnar. Hin heitt elskaða Aida er sópran, “góði” í sögunni, hermaðurinn Radames er tenór, “vonda” keppinautur Aidu er altrödd, “vondi kaddlinn” konungur Egypta er bassi og hið þrautseiga, altumlykjandi göfugmenni, konungur Eþíópíu, er baritón.
Mozart og Bizet stálust til að mölbrjóta þessa viðteknu venju. Stelpan hún Carmen er “aðal” í samnefndri óperu og sungin af altrödd, fáheyrð ósvífni. Ennþá alvarlegra brot var að láta liðsforingja úr hinum konunglega her (yfirstéttarmann) falla fyrir sígaunastelpu. (Kannski fékk hann hugmyndina frá Verdi, Carmen var frumflutt fjórum árum á eftir Aidu).
Mozart vogaði sér að láta Næturdrottninguna vera dramatíska sópran og flagð. Þetta hafði aldrei heyrst eða sést áður og þótti stórkostleg móðgun við sópransöngkonur. Þar að auki var hlutverkið svo erfitt að fæstar prímadonnurnar réðu neitt við helstu aríuna. Svo var bassinn góðmenni, sem hlaut að setja venjulega óperugesti algerlega úr jafnvægi.
Himneska Aida (Celeste Aida) hljómar snemma í óperunni og allir verða svolítið mello. Þegar tunglið læðist hægt en örugglega yfir veggi Arenunnar, bætist dulúðin við. Meistaraleg hljómsveitarnotkun Verdis gerir svo útslagið, maður er kolfallinn í stafi þegar maður er truflaður af fyrsta hléi.
300 flytjendur
Það eru sjáanleg rúmlega 300 manns að taka þátt í sýningunni sem við erum að horfa á, sólistar, hljómsveit og kór. Maður veit að það eru 10 – 15 þúsund manns eins og við að upplifa þetta “himneska kvöld”. Steinunum undir sætum okkar var komið þarna fyrir, fyrir tæpum 2000 árum.
Sviðsmyndin er einföld, en áhrifarík, skiptir frá píramídum og hofum Egyptalands yfir í reyrhús Eþíópíu. Þetta er sem sagt sama uppfærsla og gerð var árið 1913, þegar haldið var upp á aldarafmæli Verdis. Hvaða fígúruverk sem bætt hefur verið inn, eða stillt upp í stað þessarar sviðmyndar, getur ekki hafa kallað fram stórbrotnari áhrif.
Í lokaþætti hefur Radames svo verið dæmdur fyrir föðurlandssvik, eftir að hafa ætlað að laumast með Aidu sinni til Eþíópíu. Hann er settur í grafhvelfingu til að deyja og þá kemur í ljós að Aida hafði laumast í hvelfinguna á undan, til þess að fá að deyja með honum. Svolítið “Rómeo og Júlíu” yfirbragð af þessu.
Tilurð Aidu
Aida var pöntuð hjá Verdi árið 1869, af Ismail Pasha, kedifanum af Egyptalandi. Titilinn Kadefi ber sá sem er á ensku Vice King eða varakonungur. Tyrkneska Ottomannaveldið réði á þessum tíma yfir Egyptalandi.
Það er útbreyddur misskilningur að hún hafi verið pöntuð í tilefni af opnun Suesskurðarins. Verdi gat verið svolítið pólitískur. Kannski var hann að brína Egypta til að minnast stórþjóðarinnar “Forn-Egypa” og benda þeim á að hrinda af sér oki Tyrkneskra Ottomanna og ekki síður að hafna því að vera verndarsvæði Breta og Frakka.
Meira í næstu viku.