Tölt um Toskana.

Pislaskrif sumarsins hafa nú setið að mestu á hakanum síðan um miðjan júní.  Ekki er um að kenna erfiðu heyskaparveðri eða misjöfnum gæftum á sjó, en miklu fremur fararstjórn á erlendri grund og afslöppun hér á landi þess á milli.  Nú skal bætt úr.

Við fórum með glaðbeittan og mjög skemmtilegan hóp til Toskana 20. júní s.l. í tíu daga ferð.  Við erum loks búin að finna það hótel sem okkur líkar og ánægja farþeganna var ósvikin.  Lítill en notalegur sundlaugargarður, nóg rými í setustofum, á verönd og bar.  Morgunmaturinn var góður, borinn fram í stóru tjaldi sem opnaðist út í garðinn.

Miðaldabærinn Lucca

Á fyrsta degi gengum við góðan hring um bæinn okkar Montecatini Terme, út frá hótelinu, til að gera alla sjálfbjarga á ferðum sínum um bæinn.  Að venju var svo farið til Lucca á öðrum degi ferðar.  Þó millifyrirsögnin kalli Lucca miðaldabæ, þá er hann í raun að stofni til frá dögum Forn Rómverja.  Þessi dagur endar jafnan á kvöldverði á Michelin stað í sveitinni.

Áður höfðum við þó horft á íslenska karlalandsliðið leika við Nígeríumenn á HM í Rússlandi.  Barinn á staðnum sem við völdum uppskar þó meira í kassann út úr þeim leik en landsliðið okkar og við vorum boðin velkomin hvenær sem er aftur.

toscana þorp

Líkt og Djúpavík

Næsta dag var ekið upp í fjallaþorp, þar sem fram að seinna stríði, bjuggu um 600 manns, en íbúatalan í dag er tæpir 40 einstaklingar, allt eldra fólk.  Á leið okkar upp í skóginn ofan við bæinn sáum við þó að verið var að lagfæra nokkur hús.   Þarna voru afkomendur gömlu íbúanna að koma sér upp sumar- eða helgarhúsi.

Á vatnaskilum snæddum við svo nestið okkar, mjög ríkulegt frá hendi ungu hjónanna sem sáu um okkur þennan dag.  Útsýnið var stórkostlegt til beggja handa, vestur til sjávar og austur til Appenninafjallanna.  Dagurinn endaði svo með vínsmakki og fyrirlestri um öll bestu vínhéruð og þrúgur Ítalíu.

Næsti dagur var frjáls, þar til um kvöldið er við snæddum saman á glæsilegum veitingastað í bænum Monte Carlo.  Þaðan er fallegt útsýni yfir sveitina og í átt til Flórens.  Gaman er að sjá dagsbirtuna víkja fyrir dimmunni og ljósin kvikna eitt af öðru og mynda ljósahaf fyrir neðan okkur.

Perlan Flórens

Til Flórens fórum við einmitt næsta dag og tókum lestina þangað.  Maður þreytist aldrei á að koma til þeirrar borgar.  Við byrjuðum á tveggja tíma gönguferð um merkustu kennileiti Flórens og enduðum við hina tignarlegu Dómkirkju.  Leiðsögumaðurinn okkar er sá besti sem við höfum fengið í öllum okkar Flórensferðum.

Daginn eftir var enn haldið til fjalla og nú til pílagrímabæjanna Collina og Spedoletto.  Gönguleiðin þar í milli er að mestu niður í móti, en um grýtta stíga og því rétt að fara varlega, jafnvel hafa göngustafi með.  Nafnið Spedoletto er afbökun á orðinu Hospitaletto, eða lítill spítali.  Margir pílagrímar urðu þjáðir á langri göngu sinni til Rómar og þurftu aðhlynningar við.

spedoletto

Pílagrímagöngur

Eftir stuttan stans í Spedoletto flutti rútan okkur til Pistoia, sem er friðsæll og fallegur bær, en blómaskeið hans er liðið að mestu.  Tvennt hefur þó lifað af allar þjóðfélagshræringar, en það er járnbrautalestarframleiðsla, sem þó er í eigu Japana í dag.

Einnig er Pistoia þekkt fyrir trjáplöntuuppeldi og plöntur frá Pistoia eru fluttar út og seldar um allan heim.  Bærinn og sveitirnar í kring eru stundum nefnd „gróðurhús Toskana“.  Við snæddum hádegisverð á einu hinna kyrrlátu torga bæjarins.

Aftur höfðum við frjálsan dag eftir fjallgönguferð daginn áður.  Um kvöldið var svo á dagskrá að hlýða á klassíska tónleika.  Fyrir þá tónleika er venjan að fara á elsta kaffihús bæjarins, sem einnig er veitingahús og þyggja léttar veitingar, sem jafnan enda sem heil máltíð.  Það gerði skúr á meðan við gæddum okkur á krásunum og tónleikarnir voru felldir niður.

Leonardo da Vinci

Maður verður alltaf jafn dolfallinn þegar horft er á skemmtilega heimildarmynd um Leonardo da Vinci í húsinu sem hann er talinn hafa fæðst í.  Ég hef í fyrri pistlum hlaðið lofi á Wolfgang Amadeus Mozart fyrir náðargáfu sína.  Ekkert er frá honum tekið þó maður segi að aldrei hafi verið uppi annar eins andi og Leonardo da Vinci.

Snilligáfur hans verður að ræða í fleirtölu.  Kannski hefði Endurreisnartímabilið  aldrei orðið svipur hjá sjón, ef ekki væri fyrir Leonardo.  Ganga dagsins var frá fæðingarheimili hans og niður í bæinn Vinci, þar sem við skoðuðum safnið sem ber heiti hans.

olivo-toscana-770x433

Ólívutrjáabúskapur

Þaðan var svo haldið í lítið ólívuolíusamlag og hún Grazia okkar leiddi okkur í gegnum hvert framleiðslustig ólívuolíunnar og skýrði fyrir okkur mismuninn á „jómfrúarolíu“ og „undanrennunni“.  Svo segist hún loks ætla að gifta sig á næsta ári og langar að fara til Íslands í brúðkaupsferðina.

Síðasti dagur fyrir heimför er gjarnan óskipulagður.  Þá þarf fólk að komast í kaupfélagið og næla sér í osta og pylsur eða hráskinku, til að koma með heim til Íslands.  Margir kaupa gott vín einnig, sem það hefur kynnst í ferðinni.  Lokakvöldverður er svo uppi á fellinu, sem gnæfir yfir bæinn okkar, í Montecatinin Alto, sem er hinn eiginlegi forni bær.

Ferðalok

Ferðamátinn til og frá Montecatini Alto er með toglest, sem dregin er á teinum upp í eggjar fjallsins.  Þar snæðum við loks hina víðfrægu „T-bone Toskanasteik“.  Veitingastaðurinn er á torginu fyrir utan sjálfan kastala bæjarins.  Þetta var síðasta veislan eins og endranær.

Að morgni næsta dags er hótelið kvatt, ekið til Pisa og litið við hjá skakka turninum, áður en haldið er til Milanóflugvallar.

Meira seinna.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s