Veislur í Valencia

Það hefur dregist alltof lengi að deila með ykkur frásögn af Menningarferðinni til Valencia í maí síðastliðnum.  Útskriftarnemar úr Kvennó vorið 1968 héldu upp á 50 ára útskrift með þessari ferð, ásamt fleira góðu fólki.

Það kom í ljós að nánast enginn hafði komið til þessarar merku borgar fyrr og þá aðeins á eigin vegum og hvorugur hafði fundið sig í því að skoða borgina markvisst.  Skoðunarferðin fyrsta morguninn var því hrein opinberun fyrir alla, hvað varðaði sögu og fegurð Valencia. 

Áframhaldandi saga og kynning fór fram um kvöldið, er við röltum á milli þriggja Tapasstaða og kynntumst þar nýjum og nýjum rétti á hverjum stað.  Ruzafa hverfið, með öllum sínum fjölbreytileika í mat og kvöldlífi varð annað ævintýrið sama daginn.

Albuferasigling
Frumstæður ferðamáti

Léttabáturinn á lóninu

Flestum ber saman um að paellan sé upprunnin í Valencia héraði eða borg.  Þetta er mjög trúverðug fullyrðing í ljósi allra þeirra hektara af hrísgrjónaekrum sem loka hverjum lófastórum bletti suður af borginni.

Rúta sótti okkur á hótelið um morguninn og við fórum í skemmtilega bátsferð um Albufera lónið, sem sér hrísgrjónaekrununum fyrir vatni.  Lónið hafði fyrrum verið 200% stærra og heldur dýpra og þá um leið gjöfult veiðivatn.  Í dag er það tiltölulega grunnt, enda dælt úr því upp á hrísgrjónakrana.

Hópstjórar með svarta húfu, peðin með hvíta

Paella eða ekki paella

Að siglingu lokinni tók við ný upplifun fyrir hópinn, er okkur var ekið á bóndabæ í miðri víðáttu, sem umlukin var appelsínuökrum.  Grænt og appelsínugult voru einu litirnir sem sáust, utan stöku hvítkalkað hús á stangli.

Enn eitt ævintýri var í uppsiglingu þegar hópnum var skipt í þrjú lið er skyldu keppa sín á milli, um það hver eldaði bestu paelluna.  Gestgjafarnir, ástríðufullt áhugafólk um paellugerð, kynnti fyrir okkur gleði og sorgir paellunnar, sem lengi hefur mátt líða fyrir saurgun yndisleika síns, með alskyns afbökun uppskriftarinnar, allt gert fyrir „túrista“.

Kynt var með gasi, undir þrem risastórum pönnum, olía látin krauma og svo hin einu „löglegu“ hráefni sett í steikingu, við háan hita.  Þá komu þykku, þungu hrísgrjónin, hin eiginlegu paellahrísgrjón og slurkur af vatni.  Fjórum leyndarmálum var bætt á pönnurnar og við send með pylsur, osta og rauðvín til að narta í, meðan vatnið sauð niður.

Hver man hvaða lið vann?

Það voru spennuþrungin augnablik þegar lærimeistararnir gengu milli pannanna og smökkuðu til, bættu við örlitlu af þessu kryddinu eða hinu uns hópstjóri hvers hóps var sáttur.  Þá hófst veislan og enn var bætt á vínveitingar.  Þetta var góður dagur.

37 Xativa Castle DSC04006 DSC04006 www.for91days.com
Márakastalinn í Xatíva

Máraaldirnar

Næsta dag var haldið í sveitina suður af borginni.  Þar stendur gamli miðaldabærinn Xativa undir snarbröttum hnjúki og efst á honum trónir Márakastali.  Það er athyglivert hve Valenciubúum er hlýtt til Máranna, í ljósi þess hve t.d. Portúgalir hatast við þá.  Sumir gengu á hnjúkinn en aðrir tóku lest sem gengur milli fjalls og bæjar.

Eftir nokkurn stans í bænum var snúið til baka til Valencia, því um kvöldið skyldi snætt á einum allra magnaðsta veitingastað borgarinnar.  Frúnni, sem þar stjórnar eldhúsinu, hefur margsinnis verið boðin Michelin stjarna, en hún afþakkað – finnst slíkt ekki ómaksins vert.

Enginn man hvar í röðinni þetta barst

Hvar ætlar þetta að enda?

Það er eins og með eyjarnar á Breiðafirði, það getur vafist fyrir teljandanum hvað er eyja og hvað er sker.  Eins var með réttina/diskana sem bornir voru fyrir okkur á þessum látlausa stað.  Sumt var tiltekið á matseðli og sérstakt vín með, annað var gjöf frá kokkinum.  Ný hnífapör og nýjir diskar eða skálar í hvert sinn.

Hvort réttirnir voru 9, 10, 11 eða 12 gildir einu, en fæstir höfðu nokkru sinni getað hugsað sér að svona borðhald væri til.  Réttirnir voru að sjálfsögðu smáir en allir brögðuðust þeir vel og voru stórkostlega fram bornir.  „Upplifun“ var orð sem heyrðist aftur og aftur frá borðum hópsins.

turia-garden
Túríagarðurinn

Túríagarðurinn

Við gátum tekið næsta dag rólega, þar sem heimflugið var ekki fyrr en rétt fyrir miðnættið.  Við fórum því í gönguferð um Túríagarðinn fyrir hádegið og svo dreifðist hópurinn í búðir hér og hvar.  Í garðinum eru m.a. Tónlistarhús borgarinnar, Óperan, Vísindasafnið, Stjörnufræðisafn og Hafvísindasafn, svo nokkuð sé nefnt

2019 er ætlunin að dvelja sjö nætur í Valencia og heimsækja einn vínkjallara, ásamt öðru sem ekki vannst tími til í fimm daga ferð.

Nýtt efni í næsta pistli.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s