Nú eru líkast til 10 ár frá því að kennarahópar fóru að leita til okkar með aðstoð við skólaheimsóknir í útlöndum. Blessunarlega hefur tekist að uppfylla óskir allra fram til þessa, oftast á Ítalíu, en einnig Spáni og Finnlandi. Í Ítalíuferðunum hefur einnig verið komið við í Innsbruck í Týról.
Að auka sér víðsýni
Að skólaheimsóknunum loknum hefur tekið við upplifun mannlífs, matar og menningar í hverju landanna sem heimsótt voru. Við höfum tekið okkur göngutúra, flesta daga og farið á góða veitingstaði, kynnst hinu besta í mat og víni hérðas eða borgar.
Grunnskóli Grundarfjarðar fór í eina slíka ferð í apríl s.l. þar sem skólar voru heimsóttir í Innsbruck og Verona. Báðir voru þessir skólar að nokkru framandi fyrir íslensku kennarana. Sá í Innsbruck Montesoriskóli en í Verona kaþólskur einkaskóli.
Montesori
Ljóst er að Montesoriskólinn kom öllum skemmtilega á óvart og eingöngu á jákvæðan hátt. Húsnæðið er nýtt á mjög sérstakan hátt, þar sem hver blettur getur orðið að vinnusvæði barnanna. Byggingin er aðeins nokkurra ára gömul og frá upphafi hugsuð sem Montesoriskóli, nemendurnir frá mismunandi málsamfélögum og uppruna.
Kennarar starfa mikið saman, gjarnan tveir með sama hóp og áherslan frá fyrsta degi sú að kenna nemendum að vinna sjálfstætt og á sama tíma að vinna með hópi og taka tillit til samverkamanns og að finna styrkleika hvers og eins.
Kaþólskur skóli
Í Verona var um bekkjarkennslu að ræða. Þar gátu kennararnir fylgst með efnafræði tilraun meðal annars og séð hvort eða hver niðurstaða varð úr henni í höndum nemendanna. Í kjölfarið fylgdi glærusýning yfir ítalska skólakerfið og námskrár.
Þá tók við hið ljúfa líf léttra gönguferða, með Gardavatni, sem endaði á aldeilis frábærum veitingastað, matur, vín og þjónusta öll í hæsta gæðaflokki. Sigling á Gardavatni næsta dag, þar sem komið var í land í bæjunum Limone og Malcesine, en í þeims síðari var snæddur dásamlegur kvöldverður við vatnið og vín frá héraði.
Ekki vakti minnsta lukku gönguferð á höfðann La Rocca, sem gnæfir yfir bænum Garda og þeirri göngu lokið hjá henni Elenu, í dæmigerðan ítalskan hádegisverð í sveitinni, matur og vín ýmist frá henni sjálfri eða nágrannanum.
Auðvitað var svo nægur frjáls tími þess á milli flesta dagana og þá var meðal annars sett upp hæfileikakeppni svo sem sund, tennis, bogfimi og strandblak. Komu allir ósárir a.m.k. á líkama frá þeim leikum.
Umsagnir frá hópnum:
Sæll Jón Karl,
Ég og konan mín viljum þakka ykkur hjónum kærlega fyrir aldeilis frábæra og ógleymanlega hópferð með starfsfólki Grunnskóla Grundarfjarðar um daginn.
Það er ekki sjálfgefið að vera þáttakandi í vel skipulagðri hópferð sem gengur svona vel eins og þessi ferð gerði, öllu gerð góð skil s.s. skoðunarferðir, góð hreyfing, skólaheimsóknir og ekki síst frábærar matarveislur á vel völdum veitingastöðum, algjör sælkeraferð. Síðast en ekki síst duttum við í lukkupottin með frábært sumarveður á þeim tíma sem færri ferðamenn eru á ferðinni.