Skyldi nú vera einhver skynsamleg hugsun að baki samsetningunni Sælkeragönguferð. Er þetta kannski bara fikt sem á engan vegin saman, hvað með hinu og skilar engu í sarp minninganna? Viðbrögð gesta okkar eru sem betur fer á annan veg, „skemmtilegasta ferð sem ég hef farið í“ hefur heyrst. „Ég ætla að koma aftur í svona ferð“.

Fyrir 50 +
Vonandi eru ferðalýsingar okkar nógu skýrar til þess, að þeir sem ekkert eru fyrir gönguferðir eða hreyfingu að einhverju marki, bóka sig ekki í Sælkeragöngu. Ekki svo að skilja að göngurnar séu svo erfiðar, heldur finna margir bara engan tilgang í gönguferðum, sem ekki hafa annað markmið en hreyfinguna sjálfa.
Þegar við horfum á gestahópana okkar er ljóst að það er nánast allt fólk á okkar aldri, ekki mikið undir fimmtugu og fáir yfir sjötugu. Við eigum hinsvegar eitt sameiginlegt flest okkar og það er að kunna að njóta góðs matar og veiga. Við höfum líka nú orðið efni á örlitlum munaði, að velta ekki hverri krónu áður en henni er eytt.
Við viljum ekki velja ódýrasta veitingastaðinn bara af því hann er ódýrastur. Viljum fremur glæsilegri staðinn en hinn léttvægari, örlítið betra vín en húsvínið. Við viljum vera nokkuð örugg um góða þjónustu, geta spurt þjóninn um mat og vín.

Hvers leitum við?
En er þetta allt og sumt sem farþegar okkar fá út úr Sælkeragönguferðum? Geta ekki allir bara valið og bókað sjálfir góðan veitingastað? Eru Íslendingar ekki orðnir nægilega fróðir um vín Evrópulanda til að velja sér gott vín með góðum mat? Eins og maður geti ekki fengið sér göngutúr ef mann langar til?
Ég benti á að aldurshópurinn, sem ferðast með okkur, er fólk sem er búið að ferðast mikið um dagana. Það hefur legið á fleiri ströndum en það langar til að endurtaka. Legið í fleiri sundlaugargörðum en það hefur tölu á og setið lengur í rútum en hugur þess stendur til. Í Sælkeragöngunum reynum við hitta fólkið á staðnum sem við erum að heimsækja, hvort sem það eru netagerðarmenn eða bændur.
Nú eru farþegar okkar komnir á þann stað að vilja finna það land undir fótum sér sem það brunaði framhjá í rútunni. Upplifa þá sveit sem það vissi af í næsta nágrenni við sundlaugargarðinn en hafði sig aldrei í að heimsækja. Sólarstrendurnar eru allar farnar að renna saman í eina þvögu sólbekkja og handklæða.

Erum við enn hippar?
Við erum líka á þeim stað æfinnar að hafa gaman af að kynnast nýju fólki. Við höfum áhuga fyrir að heyra um lífshlaup annarra og segja frá okkar, að ekki sé minnst á barnabörnin, þetta eilífðar umræðuefni okkar kynslóðar. Við höfum tíma til að rabba við þann fýr eða frauku sem allt í einu er við hlið okkar á fallegum skógarstíg, erum hætt að flýta okkur.
Er þá kannski niðurstaðan að við erum svolítið að sækjast í samneyti við annað fólk, sem deilir svipaðri lífssýnog við, svipuðum áhugamálum og er ekki lengur í hinu marglastaða „lífsgæðakapphlaupi“, kapphlaupi sem við öll tókum þátt í og náðum öll viðunandi tíma. Við erum sem sagt núna að taka á móti verlaunapeningnum.
Kannski kemur góð ferðasaga í næstu viku.