Hér kemur annar pistill sem fyrst og fremst er ætlaður fyrir augu leikskólakennara, grunnskólakennara og annars skólafólks
Education Show í Birmingham o.fl.
Nú höfum við heimsótt Education Show í Birmingham, fimmtán ár í röð. Þátttakendur hafa verið frá 50 – 130 manns, þegar flest var. Leikskólakennurum hefur fjölgað stórlega á undangengnum árum. Sumir hafa farið á þessa sýningu ár eftir ár.
„Finnska leiðin“
Nú er ætlunin að leita að nýjum möguleikum til að auka á fjölbreytnina. Íslenskir kennarar hafa í æ ríkari mæli horft til Finnlands og Kanada í þessu samhengi. Kennarar eins af Reykjavíkurskólunum fara nú í sumar, í vikuferð til Helsinki, þar sem þeir kynnast „finnsku leiðinni“ af eigin raun, taka þátt í „Workshop“, hlýða á fyrirlestra og sjá verklagið í framkvæmd.
Til að auka á fjölbreytnina fara þeir svo tvo daga yfir til Tallinn, en sú ferð er meira hugsuð sem menningarferð. Tallinn er lítil og sérlega falleg borg og væri sannanlega ástæða til að kynna sér skólakerfið þeirra, svo stutt sem sjálfstæði þeirra hefur varað.
Kanadíska mósaíksamfélagið
Í Kanada eru haldnar ráðstefnur með mismunandi leiðarstefjum, sýningar af ýmsum toga og eins hægt að komast þar í skólaheimsóknir, samhliða sýningu eða ráðstefnu. Það ætti því að verða íslenskum kennurum fagnaðarefni að fá aðstoð við að kynnast kanadíska skólakerfinu, sem um aldir hefur aðlagað sig að fjölmenningarsamfélagi, eins og því sem okkar bíður handan við hornið.