Hið skrautlega og afgerandi útlit synagogunnar í Torino á sér skemmtilega sögu. Það er ekki bara á Íslandi sem menn eru enn að hanna og teikna byggingar eftir að byrjað er að byggja. Þar þarf ekki eingöngu að benda á flugstöð á Miðnesheiði eða hótel í Hveragerði.
Krassað á kaffihúsi

Hinn arkitektlærði gyðingur, Alessandro Antonelli, sem falið var að teikna mikilfenglegustu synagogu á Ítalíu átti sér gæðastundir á kaffihúsinu Caffé Torino. Þar sat hann á morgnana í einu horninu, vitandi að verkamennirnir voru nú mættir í vinnuna, hamarshögg gullu um hverfið og múrsteinar hlóðust upp í skafla.
Borðið var lítið en servíetturnar góðar og á þær rissaði hann nýjar hugmyndir um útlit þess stórbrotna guðshúss sem honum var ætlað að skapa. Auðvitað hafði Alessandro teiknara á sínum snærum og þeir fengu servíetturnar afhendar hvern morgun, með fyrirmælum um hlutföll og efni.

.. og synagogan hækkaði og hækkaði, við hana bættust afhýsi í allar áttir. Eftir því sem hæðin varð meiri þurfti að bæta í sökkla og undirstöður, jafnvel skipta út efni sem ekki var talið nógu traust til að bera þann þunga sem nú var orðinn á veggjum og súlum.
Hærra minn Guð, til þín
Á árunum 1863 – 1869 hafði byggingin hækkað úr 47 metrum í 70. Frá 1873 – ´84 hækkaði hún í 90 metra. Á næstu tveim árum þar á eftir úr 90m. – 113m. Þá var komið árið 1887. Nú fóru ýmsir í gyðingasamfélaginu að kveinka sér og Alessandro fékk ekki heimild til að hækka bygginguna meir.
Þá datt honum í hug turnspíran. 1889 var mannvirkið komið í 167.35 metra og þá var söfnuðurinn kominn á hausinn. Í dag er þó synagogan eitt helsta tákn borgarinnar, líkt og Eiffelturninn í París, Frelsisstyttan í NY og „bæjarins bestu“ í Reykjavík og gyðingarnir hafa endurheimt auðlegð sína.
Hnetur og súkkulaði = Nutella

Ég sagði áður frá því að Torinomenn hefðu verið á undan Svisslendingum að búa til súkkulaði. Þeir voru líka fyrri til að bragðbæta súkkulaðið sitt með ýmsu t.d. hnetum. Áfram var haldið að þróa vöruna og úr varð Nutella, súkkulaðiviðbitið sem í dag er á morgunverðarborðum margra hótela.
Mikið af þessari þróun fer fram í litla bænum Alba, sem ég sagði að kalla mætti höfuðborg trufflusveppsins. Og viti menn, auðvitað getur maður í dag fengið trufflubætt Nutella. Mig langar reyndar meira í trufflubætta lifrarpylsu eða blóðmör. Hvernig væri það?
Meira í næstu viku.