Ég hef verið að vekja athygli á því hvers vegna einn staður verður fyrir valinu, sem áfangastaður fyrir Sælkeragöngu, fremur en einhver annar. Augljóslega verður maður sjálfur að vera hrifinn af staðnum, annars væri beinlínis rangt að ætla öðrum að vera það. Kannski er ég einn um að finnast Istanbul ekki aðlaðandi borg, en þangað færi ég samt aldrei með farþegana mína.
Að falla fyrir Torino

Fyrir Torino féllum við hjónin á einum degi, þrátt fyrir fráhrindandi leið inn í borgina í fyrsta sinn. Á degi tvö breyttist allt. Hvað ætli það hafi verið sem olli hugarfarsbreytingunni? Kannski er kjánalegt að segja að glæsilegt hótel, með garðveitingastað á þakinu hafi skipt sköpum.
Nær væri að segja að glaðlegt götulíf, falleg torg, rismiklar hallir og dásamleg kaffihús frá 19. öldinni hafi verið það sem fékk mann til að láta sér líða vel í Torino. Þegar við komum svo aftur til Torino í febrúar s.l. var enn vetur þar í borg, þó ekki harðari en svo að við gengum okkur til ánægju allt sem ætlunin var. Götulífið var síst minna á sunnudegi en verið hafði um sumarið.
Hvað er menningarborg?

Sjálfsagt hefur hver sitt svar við þeirri spurningu. “Listir og menning” er oft gert að einu í íslensku máli. Þegar ég kalla Torino menningarborg er ég fyrst og fremst að vísa til glæsileika borgarinnar, ríkulegs götulífs, vel klæddra borgara og vinsamlegra. Þar er hefð fyrir góðum veitinga- og kaffihúsum, söfnum, leikhúsum og fagrar kirkjur og hallir eru þar hvarvetna.
Hvergi annarsstaðar hef ég séð kirkju fellda inn í húsaröðina við hallartorgið, svo rækilega að manni dettur ekki til hugar að á bak við þessar dyr sé ein fegursta kirkja borgarinnar. Lítil og kannski nær að kalla hana kapellu og hún geymir einn allra merkasta helgigrip kaþólsku kirkjunnar “Líkklæði Krists”.
Vínbæirnir Asti og Alba.

Engin vín voru vinsælli í velkominsdrykki, fyrir svo sem 25 árum, en Asti Gancia. Nú vill fólk þurrari vín. Í sömu sveitum eru gerð vín úr Nebbiolo þrúgunni og eru í hugum margra, flaggskip ítalskra vína. Barolo vínin eru einhver hin dýrustu hér á landi, þung og bragðmikil og njóta sín best með ýmsum mat sem ekki er algengur á borðum okkar.
Fæstir þekkja hinn bæinn, Alba. Hann er þó trúlega enn betur þekktur meðal Ítalanna sjálfra. Ef marka má heimildir sendu Svisslendingar menn suður til Alba til að læra að búa til súkkulaði. Þeim tókst svo að selja framleiðslu sína vestur um haf og þar með var kominn til sá misskilningur, að súkkulaði hafi fyrst orðið að framleiðsluvöru í Sviss.
Trufflusveppurinn truflaði.

Annað sem gerir Alba að stórborg í hugum Ítala eru Trufflumarkaðsdagarnir á hverju hausti. Vegna smæðar beggja bæja mætti líkja þeirri hátíð við “Fiskidaginn mikla” á Dalvík. Alba er smábær, afar fallegur og á haustin, þegar sveppatínslan er í hámarki liggja leiðir allra til Alba. Uppboð er haldið á sveppum og geta stórir, hvítir trufflusveppir farið á 200-250 þús. kr.
Eftir að bændur fóru að ágirnast það sem þeir höfðu öldum saman séð villisvínin leggja sér til munns, hefur trufflubragðið orðið eitt hið eftirsóttasta á kryddun ítalskra rétta. Nú til dags eru trén sem fá á sig þennan rótarsvepp ræktuð í miklum mæli og búið að þjálfa hunda í að benda á sveppinn.
Meira í næst viku.