Hversvegna þessi staður?

Í síðasta pistli fór ég að velta því upp við lesendur pistla og pósta hversvegna þessi bærinn eða gönguleiðin yrði fyrir valinu, en ekki eitthvað annað.  Það er hinsvegar svo að í öllum tilfellum er einhver vel ígrunduð hugsun á bak við valið.

Ég tók dæmi um tvo daga í Toskanaferðinni fyrir í síðustu viku.  Hún er nú uppseld, þannig að augljóslega er nær að leggja út af ferðadagskrá Gardaferðarinnar og Torínóferðarinnar í næstu pistlum.

Image (1) SKG-Garda-baer.jpg for post 1141
Horft af La Rocca yfir bæinn Garda

La Rocca

Það vill svo til að yfir bænum Garda gnæfir hár og fallegur klettahöfði, La Rocca, sem minnir ögn á Spákonufellsborg, fjall Skagstrendinga.  Höfðinn er þó hvergi nærri eins hár, en mjög bratt væri að ganga beint úr bænum.

Við höfum því kosið að ganga beint frá hótelinu okkar, sem stendur ofan við bæinn.  Þar eru aflíðandi brekkur, ýmist um asfald götur eða skógarstíga.  Á leið okkar verða vínekrur og kívíræktun, síprustré og hverskyns lauftré.

Munkaklaustur

Sé gengið á sunnudegi er messa í munkaklaustrinu, sem verður á vegi okkar og við getum rekið nefið inn í kapelluna, þó athöfn standi yfir.  Þá sjáum við dæmigerðan klausturgarð, en sagan geymir óteljandi frásagnir af sjálfsþurftarbúskap munka í kaþólsku löndunum.

Upp á höfðann er um nokkrar klungur að fara og því biðjum við fólk að skóa sig vel fyrir þessa göngu.  Af höfðanum er ægifagurt útsýni yfir bæinn Garda, vestur yfir Gardavatn, þar sem Sirmione er mest áberandi.  Til strandbæjanna í suðri, eins og Bardolino og á góðum degi jafnvel til Pesciera, sem stendur við eina affall Gardavatns.

Við göngum aðra leið til baka og endum hjá henni Elenu, sem hefur búið okkur veisluborð í garðinum hjá sér og þar teygjum við eftir gönguna og gerum okkur svo gott af heimilsmat og heimilsvínum.

Limone
Limone í skjóli himinhárra kletta

Sigling á Garda

Þó margir hafi komið til Gardasvæðisins áður og jafnvel farið í bátsferð þá er engin leið að sleppa siglingu á Gardavatni í svona ferð.  Við veljum okkur ferð sem hefst um tíuleytið og þverar vatnið tvívegis á leið sinni norður í nyrstu bæina.

Okkar ferð er þó aðeins heitið til Limone, sem svo heitir þar eð þar var nyrsti staður sem Rómverjar gátu ræktað sítrónur.  Eftir frjálsan tíma í þessum gullfallega, litla bæ tökum við bát aftur austur yfir vatnið til bæjarins Malcesine.

Ólívutré í Malcesine
Hinn forni ólívutrjáa lundur

Ólívutré frá 18. öld

Til að hafa göngutúr í dgaskrá þessa dags eins og aðra daga, þá fáum við okkur göngutúr upp í gegnum bæinn, fram hjá upphafs og endastöð kláfsins sem tekur áhugasama upp í 1700 metra hæð á fjallinu Monte Baldo, sem er konungur Veneto héraðsins.

Áfram höldum við, ögn á fótinn,  í gegnum lundi ólívutrjáa, sem sum eru um 300 ára gömul og bera fulla uppskeru í góðu ári, þó stofn þeirra sé eins og á löngu dauðu tré.  Að endingu sveigjum við niður að vatni aftur og fylgjum ströndinni að kastala Malcesine og þar bíður okkar glæsimáltíð með góðvínum, við vatnsbakkann og fyrsta flokks þjónustu.

Bæirnir sem stoppað er í þessari ferð eru aðeins valdir af því þeir eru í mestu uppáhaldi hjá okkur hjónum.  Afhverju ætti maður að bjóða gestum sínum annað en það sem manni þykir mest um sjálfum.

Leave a Reply

%d bloggers like this: