Ítalía kvödd; Englandi heilsað

Bakþankar

Hann pabbi minn, blessuð sé minning hans, hefði líklega opnað þessa málsgrein á orðunum „fari það svoleiðis í logandi heitasta helvítis helvíti hvað það er fallegt í Sorrento“.  Pabbi var samt ekki orðljótur, fannst okkur bræðrunum.  Hann notaði bara önnur áhersluorð en flestir og hann talaði ekki illa um fólk, gat t.d. sagt um einhvern að hann væri andskotans ósköp vel gerður maður.

Sá dagur mun trúlega aldrei koma að maður gleymi síðasta þriðjudegi 13. mars 2018.  Þann dag komum við í Pompei og héldum þaðan að skoða eldfjallið Vesúvíus.  Hvorir tveggja staðirnir eru mikilfenglegir, en á ólíkan hátt hvor um sig og þó nátengdir á sama tíma.

Reginöfl úr iðrum jarðar

Árið 79 eftir Kristsburð var Vesúvíus nærri tvöþúsund metra hátt fjall, bara mjó trjóna í toppinn.  Nú er talið að það hafi verið í nóvembermánuði sem svo yfirgengileg sprenging varð í fjallinu að það lækkaði um rúma 800 metra.  Á eftir fylgdi banvænt gasmystur sem lagðist yfir næstu sveitir.  Svo hófst gosið.

Lík í Pompei
Geymd í ösku í 17 adir.

Pompei hafði risið á fornum hraunkletti við mynni Sarno árinnar um 23 km. suður frá Napoli.  Þetta var rík borg og nógu mikilvæg til að Rómverjar gerðu fleiri en eina atlögu áður en þeim tókst að leggja hana undir sig.  Næstu borg þar fyrir sunnan eyddu þeir einfaldlega, svo hún færi ekki seinna að vera með uppsteit.

Pompei var stórborg á sína vísu og á sínum tíma.  Hún lá einstaklega vel við siglingum, sem þýddi að auðæfi streymdu til hennar úr öllum áttum.  „Kaup og sala“ hafa frá upphafi siðmenningar verið undirstaða grósku og blómstrandi mannlífs, lista og velmegunar.  En því hærri sem fjöllin eru, því stærri verða skuggarnir.

Ljós og skuggar

Eins og margar ríkar borgir frá öldunum í kringum fæðingu Krists, var hún borg mikils gjálífis, líkt og Korinta í Grikklandi.  Þetta má vel sjá á veggskreytingum fínni húsa og opinberra bygginga.  Í húsi gleðikvennanna gátu menn kynnt sér vinsælustu kynlífsstellingarnar, málaðar á veggi anddyrisins, svipað og TripAdvisor hjálpar fólki í dag að velja sér bestu veitingahúsin eða hótelin.

Gangbraut í Pompei

Á aðalgötunum markar fyrir hjólförum eftir hestvagnana, minni strætin voru einstefnuakstursgötur.  Stórar stiklur yfir göturnar sáu til þess að fólk kæmist þurrfóta um, þó úrhelli væri.  Þetta minnir mjög á gangbrautir okkar tíma, jafnel á Abbey Road plötuumslagið.  Líkt og í dag voru sumar götur verslunar- eða iðnaðargötur, aðrar íbúðagötur.

Tröllið í tilverunni.

Það er ekki á mínu færi að rita þann texta sem vekur næg hughrif til að nálgast þá upplifun að vera á staðnum, standa á götu eða fornu útileikhúsi.  Þó hefur aðeins um 40% borgarinnar verið grafinn upp og gerður aðgengilegur.  Niðurstaðan er að hvorki texti né myndir geta náð þeim hughrifum sem maður verður fyrir á staðnum sjálfum.

Eftir pizzustopp var haldið upp á Vesúvíus.  Ég birti montmynd af mér á gígbarminum á FB, með tvíræðum myndatexta og allir gáfu sér að við hefðum gengið alla 1200 metrana.  Svo var ekki, heldur aðeins síðustu 300 metrana, hitt var ekið í rútu.  Vesúvíus gaus síðast 1944, undir lok seinna stríðs.  Í gígnum eru víða gufustrókar, en á botninum eru líka sjálfsáin furutré.

Að gera barn að betri einstaklingi.

Síðan 15. mars höfum við verið í Birmingham, ásamt 80 kennurum og leikskólakennurum, á okkar vegum, sem hafa sótt kennslugagnasýninguna Education Show.  Hluti hópsins átti einnig stórgóðan fund með Kristjáni Krisjánssyni, virtum íslenskum fræðimanni í uppeldisfræðum.

DSC01825 602x412
Nemendur úr sem ólíkustum hverfum Birmingham fá inni í þessum skóla.

Ennþá merkilegri var þó heimsókn í „The School of Education“, sem hefur sett sér háleit markmið varðandi mannkostarækt nemenda sinna.  Eftir ýtarlega glærukynningu á skólanum, sem aðeins er þriggja ára, vorum við leidd um salarkynnin af skólastjóranum Michael Roden.  Heimsókn sem hlaut að hrífa hvern sem þar var gestur.

Annað kvöld lýkur ferðalagi okkar hjóna sem hófst 3. febrúar sl.  Gaman var það, en gott verður að koma heim.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s