Sólin í Sorrento

Sorrento 02. mars

Okkar beið hráefni í ítalskan morgunverð er við vöknuðum í morgun, sætabrauð, sykruð jógúrt, dísætur ávaxtasafi og kaffihylki í Lavazza Mio græjuna.  Það er aldrei meiri ös á „kondidoríunum“ hér í bæ, heldur en 10 – 5 mínútum fyrir kl. níu, þegar heimamenn hópast þangað í eitthvað sætt til að byrja vinnudaginn.

Við tókum langan göngutúr um bæinn ma. eftir Corso Italia.  Hún er eins og gamla Suðurlandsbrautin, aðaltengingin við aðra bæi og sveitir Sorrentoskagans.  Hún sker bæinn eftir endilöngu og segir ágætlega þróun þessa þúsund ára gamla aðseturs sæfarenda og kaupahéðna.  Hún þrengist mjög á leið sinni gegnum elsta hlutann en breikkar svo aftur þegar í yngri hverfi er komið.

Á titilmyndinni sést hvernig bærinn hefur að fornu risið á háum kletti milli tveggja ófærra gjáa og vei þeim sem ætlar að príla þá hamraveggi.  Undir berginu eru tvær víkur og sú stærri með góðri lendingu.  Þar lenda fiskimennirnir enn í dag, með krabbana sína og smokkfiskinn.  Netaveiðar stunda þeir einnig og það er mikið skrafað á bryggjunni þegar verið er að bæta net eða fella ný.

20180304_120759.jpg
Heimild til myndatöku var auðsótt

06. mars

Það hafa verið skúraleiðingar tvo síðustu daga og skúraleiðingar er kannski ekki alveg rétt lýsing.  Regnið hér í Sorrento kemur „að ofan“ og fellur lóðrétt til jarðar, með nokkrum smelli.  Það þarf samt ekki merkilega regnhlíf til að losna við að blotna, en tæpast sleppur maður þurrfætis um bæinn, því götur og stéttar eru fljótar að fyllast af vatni.

Margir Íslendingar eiga sinn kartöflustika og eru stoltir af.  Hér vilja flestir eiga sinn sítrónu, appelsínu eða mandarínu garð.  Auðséð er að í talsverða vinnu hefur verið lagt, til að stalla landið og forðast þannig landskrið.  Enn skemmtilegra er að sjá að eignarréttur er hér svo sterkur, að um allan bæ eru stórir garðar í einkaeigu og bullið um „þéttingu byggðar“ og um leið eyðingu grænna garða, er hér óþekkt hugmynd.

08. mars

Heiðskír himinn og hitinn rauk strax í 20 stig.  Allt lifnaði, götur og torg fylltust af fólki.  Regnhlífum, húfum og treflum var skipt út fyrir hörklæði og sandala með pallíettum og perlum í verslunargötum.  Kaffihúsin fylltust og fólk lét sig hafa að stika tröppur og stíga niður á stönd, en hæðarmunur úr bænum á ströndina er hér hart nær 200 metrar.

20180308_110444.jpg
Sé Snæfellsjökull konungur Faxaflóans, þá er hún Vesúvíus drottning Napoliflóans.

Mörg þekktustu og dáðustu lög Ítalanna eru samin hér um slóðir.  Þekktast er auðvitað „O, sole mio“, en einnig er „Torna a Surriento“ ( ritað á napoliskri mállísku) alþekkt og hefur verið flutt af öllum helstu söngstjörnum heimsins.  Heimamenn segja svo að sjálfur Enrico Caruso hafi fæðst hér, en ekki í Napoli, eins og oftast er sagt.

Nafn Sofíu Loren sést víða, síðan ein af fyrstu kvikmyndum hennar var tekin hér á Marina Grande, gömlu höfninni sumarið 1955.  Gististaðir og veitingahús tengja sig nafni hennar og bæjarbúum finnst þeir eiga heilmikla hlutdeild í henni, ekki síst því hún á mikla villu hér á skaganum, sem hún dvelur í reglulega.

Hér sér maður nafnið Tasso bera fyrir augu aftur og aftur.  Líflegasta torg bæjarins ber nafn hans.  Tasso var í sinni tíð einn fremsti rithöfundur Ítalíu og leikritaskáld, fæddur í Sorrento 11. mars árið 1544, eða fyrir 474 árum á sunnudaginn kemur.  Ég þarf víst að bíða lengi enn eftir að nokkurt torg beri mitt nafn á Blönduósi – hvað annars með planið hjá Félagsheimilinu, ég spilaði nú á Húnavöku 16 ára gamall?

9ybeet7_y0laqlrl24epzaumrspvugphfd79z4ow8cyijnbjzvm-2xgl1yrrtwuz_tkfekgzpqnwp4ap5jqjvzndwvl2vpfmlsormnrmxfxxy0u7vwqyneq2wtt3cd6ndjjy8gopsimi1lhrgdyhdnreoteifdccetaus8qrqdhn3dtbopqmkk_djirhbkiqs7svbhvh
Dæmigerð mynd frá Amalfie

10. mars

Við fórum í stórskemmtilega ferð í gær, um Amalfie ströndina, hrikaleg akstursleið en ægifögur.  Positano og Amalfie eru einstkir bæir.  Við fórum svo í siglingu úti fyrir ströndinni og þá loks sér maður byggðina, hangandi í veggbrötum hlíðunum, í óvenju mikilli litadýrð.  Reyndar er þarna líka að sjá grísk áhrif, márísk og tyrknesk, allt í einni kös.

Á morgun er ætlunin að ganga Sirenuslóðina.  Hér er mikið gert úr tilvist Sirena, hafgúa, hafmeyja eða hvað menn vilja kalla þær, líkt og við segjumst vita af álfum í okkar landi.  Heimamenn hér ganga svo langt að fullyrða heimkynni þeirra séu einmitt eyjarnar þrjár útifyrir skaganum sunnnanverðum.

6pzqwexqxrgpz8uhf8dukbpptwdad1gzptxw4elu2zhetyybdmrk1h7vz8gx1_jmcwdrevhdux6mqhe5-p1vdubhfiqu1_kn010rx6ohwtxhhm89fzxtftscy_05pnf36hkidptcsh1rdiiwj130s3mkyq0t7qmahfye6ubrlw3p_n3rcwgv-m1xdstkvacp2ixq_zdc
Sírenueyjarar útifyrir Amalfieströndinni

Strákstaulinn hann Ódisseifur lenti í þessum flögðum og snéri ekki heim úr siglingum sínum fyrr en eftir áratugi svo frúin hans, hún Penelópa blessunin, þekkti ekki hetjuna sína.  Megas nýtti sér þessa sögu í laginu „Ódisseifur nýr aftur“, á plötu sinni, „Drög að sjálfsmorði“.

Rússneska ballettstjarnan Rudolf Nureyev átti eina þessara eyja í nokkur ár og rak þar stofnun fyrir eyðnisjúka, eða þar til hann dó sjálfur.  Stofnun hans varð gjaldþrota og eyjan er nú í eigu eins eigenda Hiltonhótelnna og hægt að gista þar fyrir milljón á nóttina.

Nú styttist mjög í brottför héðan frá Sorrento.  Við tökum á móti kennarahópi af Vesturlandi á Heathrowflugelli næsta fimmtudag.  Sá hópur er á leið á Education Show í Birmingham, en mun einnig heimsækja University of Birmingam og hlýða á fyrirlestur hjá Kristjáni Kristjánssyni, sem starfar þar í borg.

Meira eftir það.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s