16. febrúar
Í gærkvöld fóru kennarar Grenivíkurskóla á veitingastað sem oft hefur verið boðin Michelin stjarna en jafnan hafnað henni. Er skemmst frá að segja að bragðgæði matar, fjöldi rétta og þjónustan öll setti alveg ný viðmið á „út að borða“ hugtakið.

18. febrúar
Við komum til Toríno í gærkveldi, eftir að hafa kvatt kennarahópinn okkar á Alicanteflugvelli um morguninn, ekið þaðan aftur norður til Valencia, í veg fyrir flug til Milanó. Þar tókum við lest til Toríno og beint inn á 4ra stjörnu hótel við hliðina á Porta Nuova lestarstöðinni.
Í morgun hittum við hana Liudmilu, sem fædd er í Moskvu og hefur búið hér í borg árum saman, gift spönskum manni sem starfar fyrir SÞ. Hún er með réttindi leiðsögumanns um borgina og þekkir sögu hennar eiginlega betur en góðu hófi gegnir.
Verði manni það á að skjóta inn spurningu getur það tekið hana marga útúrdúra að gefa eitt svar og komast til baka á þann kúrs er hún hafði sett sér áður en spurningin kom fram. Ártöl og ættarnöfn fljóta hraðar af vörum hennar en minn heili fær numið.
19. febrúar

Í dag var stóri göngudagurinn. Margt það sem Liudmila hafði bent okkur á að skoða varð nú fyrir valinu. Eitt af því var „miðaldaþorp“ sem komið hefur verið fyrir í gamalli varðstöð við Pófljótið. Það stendur í garði sem ber það kunnuglega nafn Valentíno, en hefur ekkert með leikarann fræga að gera.
Í kvöld rifjuðum við svo upp kynnin við okkar eftirlætis veitingahús í borginni, eldhús sem kennir sig við héraðið Piemonte. Staðurinn hefur hlotið fleiri lofsyrði en ég hef séð á TripAdvisor og ekki lýgur hann frekar en Mogginn. Vetrarveðrið hér er sem sagt 8 gráðu hiti, logn og mistur. Mistrið hinsvegar kallar á hlífðarföt fyrir mannfólkið, en er eftirlæti alls gróðurs.
20. febrúar.

20. feb. er annar stór dagur í fjölskyldunni, sem ekki verður gerð grein fyrir nú. Sólin skein og allt varð að gulli hér í borg. Fólkið brosti og kaffihúsin á götunum, sólarmergin fylltust. Við höldum til Toskana í fyrramálið og enn verður ferðast með lest. Ferðin tekur um fimm tíma og aðeins þarf að skipta um lest einu sinni. Lestin sú mun hinsvegar ekki ljúka ferð sinni fyrr en í Salerno á Sikiley.
Toskana 21. febrúar 2018
Eftir skemmtilega dvöl upp í Tórínó erum við nú komin á kunnuglegar slóðir til Montecatini Terme í Toskana. Hér kemur kuldinn okkur á óvart og heimamenn eru frávita af fyrirkvíða ef hitastigið gæti kannski farið undir frostmarkið. Við áttum von á að fátt væri fólks í bænum, en í kvöld var fullt á okkar uppáhlds veitingahúsi í bænum.
Við eigum vinnufundi í fyrramálið, en svo förum við í enn eina gönguferðina um hæðirnar nærri bænum, til að velja skemmtilega gönguleið fyrir sumarið. Á hótelinu okkar hér í Montecatini Terme eru myndir af Verdi á hverjum vegg hótelafgreiðslunnar, enda fór hann hingað árlega sér til heilsubótar og gisti á hótelinu okkar, Grand Hotel Plaza & Loganda Maggiore.
Kannski samdi hann þetta meistaraverk sitt hér á hótelinu.
Næsta pistil skrifum við í Róm, borginni eilífu