Þá er komið aðð´í. Við hjónin ætlum langa Evrópureisu, fyrst til Valencia og svo suður sköflunginn á Ítalíu. Byrjum í Torino, þaðan til Toskana, áfram til Rómar og endum í tvær vikur í Sorrento.
Vinnuferð í vellystingum
Meiningin er að blanda saman vinnu og góðum viðurgjörningi. Undirbúa Sælkeragöngur og menningarferðir til allra þessara staða. Við ætlum að deila með lesendum á Facebook myndum og frásögnum úr ferðinni. Heimsækja fleiri staði en færri og snæða fleiri máltíðir en færri. Ég nefni ekki léttvínin.
Skólaheimsóknir á suðrænum slóðum
Einnig ætlum við að taka á móti Grenivíkurskóla, sem kemur til Valencia þann 10. febrúar og fylgja þeim í skólaheimsóknir í þrjá skóla í Valenciahéraði. Þetta eru skólar í minni samfélögum, svo þeir eiga margt sameiginlegt hver með öðrum, Grenivíkurskóli og gestgjafarnir.
Þetta er önnur svona ferðin sem við fáum að skipuleggja fyrir þann skóla. Það segir nokkuð um starfsandann og áhuga fyrir velferð nemenda sinna að vilja sækja hugmyndir svo langt og til ólíkra menningasvæða. Þau vilja sjá þar hvað þau gætu betur gert, en örugglega einnig sannfærst um að margt í þeirra starfi er einmitt hið rétta.

Ekki sakar að kennararnir fái í leiðinni að komast í kynni við lífsgæði heimamanna í mat og drykk. Þegar skólaheimsóknum er lokið fer hópurinn t.d. í kokkaskóla og lærir að elda „Paella“, en hún er einmitt talin vera upprunnin á Valencia.
Torino, hér komum við
Eftir að við kveðjum hina skemmtilegu kennara frá Grenivík fljúgum við yfir til Milanó og tökum lest til Torino. Þar gistum við í fjórar nætur á góðu hóteli í miðborginni. Við fáum einnig leiðsögn um götur og torg, snæðum á völdum veitingahúsum og fræðumst um matrarhefðir héraðsins.
Toskana, tak oss í faðm þinn
Frá Torino tökum við aftur lest til Montacatini Terme, sem er orðinn okkar heimabær í Toscana héraði. Þar skoðum við nýuppgert fjögurra stjörnu hótel á besta stað í bænum. Við finnum okkur nýjar gönguleiðir út frá bænum og við skoðum fleiri veitingastaði. Að sjálfsögðu verjum við heilum degi í perlunni Flórens, þar sem gerumst pílagrímar á slóðum „Hvítu fiðrildanna“.

Borgin eilífa
Nú skal „borgin eilífa“ Róm, heimsótt og dvalið í fjórar nætur. Við eigum aftur bókaða leiðsögn með sagnfræðingi, sem þarna er fædd og uppalin. Hún kynnir Róm fyrir okkur sem borgina sína, ekki sem sagnfræði eða heimsminjaborgina Róm. Það verður spennandi.
Sorrento
01. mars er ferðinni heitið til Sorrento. Þangað höfum við aldrei komið og því er mikil tilhlökkun. Við leigjum litla íbúð í miðbænum og ætlum að ganga, sigla og aka í allar átti út frá henni í tvær vikur.
Til baka höldum við gegnum London og tökum þar á móti kennurum af Vesturlandi og förum með þeim á Education Show í Birmingham. Þar dveljum við í tvær nætur og svo til baka til London.
Næsti pistill verður skrifaður í Valencia.