Hvað segja farþegar í ferðalok?

Það er óneitanlega gefandi tilfinning að kveðja ánægða farþega, sem segjast bara bíða eftir að komast í næstu ferð.  Það bætir enn á þessa tilfinningu þegar maður hefur sjálfur sett saman allt skipulag ferðarinnar.  Sjálfur valið allt innihald og því getað sleppt ýmsu sem alltof oft lendir í dagskránni, bara af því innlendu umboðsmennirnir telja það nauðsyn.

Í bland við texta dagsins set ég hér inn nokkur skjáskot með kveðjum, sem við höfum fengið frá ánægðum farþegum.

Ekki hefðbundnar skoðunarferðir

Ég bendi oft á að það sé nánast markmið okkar að stefna farþegum okkar ekki inn í kirkju eða kastala, flestir séu búnir að sjá fleiri slík en löngun stendur til.  Viðbrögðin eru alltaf þau sömu, „takk fyrir það“ og svo kemur yfirlýsing um að „það sé nú allt farið að renna saman í eitt, eftir of margar slíkar heimsóknir“.

Umsögn - Erla H

Þá er það ósjaldan að fólk hrósar ferðaskipulaginu sjálfu.  Alla daga einhver dagskrá, samt ekki lengri en svo að vel má vera á eigin vegum seinni eða fyrri hluta dagsins eftir atvikum.

Umsögn - Friðjón Pálma

Það virðist nýjung fyrir Íslendinga að vera ekki sífellt dregnir inn á fjölmennustu túristastaðina.  Þess í stað vera leiddir um götur eða svæði, þar sem við erum í umhverfi heimamannsins, í friðsælli götu eða hverfi og getum hnusað að Lárviðartré, mittisháum Rósmarinrunna eða Cyprusviði, þó heimilishundurinn gelti að okkur.

Umsögn - Ragna og Gréta

Algeng athugasemd er svo.  „Hvernig í ósköpunum finnið þið þessa frábæru veitingastaði“.  TripAdvisor er sannanlega ekki helsti ráðgjafinn þó oft sé hann notaður, ef um hótelnótt, eða eina máltíð er að ræða.  Svörin eru eiginlega jafnmörg og staðirnir.

Sérvaldir veitingastaðir

Einn staðinn fann ég þegar ég var á rölti um Verónsborg.  Staddur á einu margra dásamlegra torga bæjarins og búinn að snæða hádegisverð, bara að bíða eftir klukkunni til að fara með farþegunum til baka heim á hótel.

Þar sem ég stóð fyrir framan veitingastað, sem bar stórt nafn, kemur einn þjónanna út og spyr „hvort ég sé að leita að góðum stað fyrir hádegisverð“.  Ég segist reyndar búinn að borða og ætlaði að kveðja, frekar en að lenda í áfjáðum sölumanni.  Þá spyr hann hvort mig langi ekki í kaffisopa – espresso eða jafnvel „proseco“.  Ég segist aldrei hafna slíku boði og geng með honum inn.

Þú ert nú kominn inn á elsta kaffihús Verona, tæplega 150 ára gamalt“ segir þá Simone, en í dag er þetta með betri veitingahúsum borgarinnar.  Það kom mér ekki á óvart, þvílíkt var andrúmsloftið.  „Komdu inn á barinn“ og áfram höldum við og salarkynnin verða æ glæsilegri.

Simone reyndi ekki að selja mér neitt nema eigin sjarma og traustvekjandi sögur af störfum sínum sem þjónn á ýmsum veitingahúsum borgarinnar.  Ég tjáði honum dálæti mitt á Vecchia Romagna, brandýinu ítalska og glas af því fékk ég með kaffinu, engin borgun fyrir eitt eða neitt.

Takið þið við hópum„, spurði ég.  „Að sjálfsögðu, við erum með hópamatseðla og „sommelierinn“ okkar mælir með ákveðnum vínum með hverjum matseðli.“  Þarna á staðnum var gengið frá viðskiptum til næstu ára, eða þar til Simone hætti þar, enda orðin eigendaskipti og staðurinn á niðurleið.

Umsögn - Auður Gróa & Hugborg

Auðvitað væri hægt að setja saman ferðir, þar sem miðlungs veitingahús væru heimsótt aftur og aftur.  Valin einföld vín, ef þá nokkur.  Í þannig ferð finnst mér hinsvegar að við séum bara alls ekki að sýna ítalskri, spænskri eða portúgalskri matargerð næga virðingu, eða gefa af þeim sína bestu mynd.

Þannig minningar langar okkur hreint ekki til að skapa hjá farþegunum okkar.

Kannski erum við taka ákveðna áhættu með því að hafa margar flottar máltíðir og gæðavín inni pakkanum, það augljóslega hækkar verðið.  Íslendingar eru bara orðnir svo ferðavanir að þeir geta lesið út úr ferðalýsingu „að mikið sé í þessa ferð lagt“.

Þá er bara að sannfæra sem flesta um að svo sé.

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s