Að gleðjast með glöðum

Ég hef oft velt því fyrir mér hvers vegna svo gott andrúmsloft verður til í hópnum, í ferðunum okkar.  Tveir hópar sem þekktust ekkert fyrir, hafa kannski fyllt ferðina og fyrr en varir eru allir komnir í hnapp við hrókasamræður.

Hvers vegna?

Kannski er það ekkert eitt.  Hreyfingin gerir öllum gott og lyftir geði.  Á gönguferð ertu allt í einu kominn upp að hlið einhvers ókunnugs.  Þá gerist það af sjálfu sér að fólk tekur tal saman.  Íslenska fámennið gerir það svo að verkum að ekki þarf lengi að spyrja þegar fundinn hefur verið sameiginlegur kunningi eða vinur.

Máltíð í sjálfu sér er félagslegt atriði, hvern langar að sitja einn að snæðingi?  Dreitill af góðu borðvíni eykur á málgleðina, sögur eru sagðar, hlátur vaknar og hlátur gerir galdra.  Góður brandari, jafnvel þekktur, verður nýr brandari úr munni nýs segjanda.

Stutt rútferð, með ókunnugum, nægir til að eitthvað sem fyrir augu ber vekur sameiginlegan áhuga.  Hótelbarinn eða veröndin á fallegu kvöldi, í lok göngudags, kallar fram samræður um það sem á vegi varð þann daginn.  Reynslusögur ná hæðum.

 

Reynslusaga – Garda.

Við höfum auðvitað lent í ýmsum aðstæðum sem ekki var ætlunin og hefðu jafnvel getað valdið vandræðum.  Takmarkaðar upplýsingar um gönguleið og forföll innlenda göngumannsins, gerði saklausa ferð að æfintýri.  Við ætluðum með hóp upp í hlíðar fjallshryggs, sem er  1200 metra hár og snæða þar hádegisverð í frábæru útsýni yfir Gardavatn til vesturs.

2014-08-28 08.42.35
Fjallabíllinn reyndist vera opinn Unimog

Fyrstu 800 metrana yrðum við flutt á fjallabíl og þaðan væri þægileg ganga áfram í skálann, með 100 metra hækkun.  Það sem við ekki vissum var að búið var að loka skálanum og eigendur komnir með annan stað á toppi ranans, í 1.200 metrunum.

Annað sem við ekki vissum var að þarna í hlíðunum er ekkert netsamband.  Það þriðja sem við ekki vissum var að lágskýjað gæti orðið þennan dag.  Þarna týndum við hópi og fundum hann aftur.  Þarna gekk ég fjallið tvisvar sama dag og fann jeppa sem gat flutt þá seinfærustu upp í skálann, sem hvergi hafði grillt í fyrr en komið var á hlaðið.

Er ég komst svo í skálann síðastur manna, inn úr dimmgrárri þokunni, var gleði hópsins taumlaus, allir búnir að blása mæðinni, komnir með heimagert rauðvín í glas og gátu gert grín að mér fyrir aulaskapinn, að vita ekki hlutina.

2014-08-28 12.51.35
Sveitamaturinn var hlaðinn orku

Það gerði líka gott að maður sem minnti á Gísla frá Uppsölum var þarna á stjákli í skálanum, spjallaði við alla og hirti ekkert um svör eða hváyrði.  Hann áttaði sig fljótt á því að ég væri þarna “Mafíuforinginn”, eða Capo og tók sérstöku ástfóstri við mig öðrum til viðvörunar eða eftirbreytni.

2014-08-28 14.28.47
Allir léttafættir á heimleiðinni

Eftir ríkulega sveitamáltíð var arkað af stað til baka og viti menn.  Þokuna létti og útsýnið sem við blasti á báðar hendur vestur yfir vatnið eða til fjallanna í austri var nóg til að þreyta hvarf, hraðar en þokan og heimgangan gleymist aldrei.

Reynslusaga – Toscana.

Eitt skemmtilegasta göngusvæðið í Toscana eru fjöllin upp frá bænum Pistoia.  Þarna var lögð fyrsta járnbrautin gegnum Appenninafjöllin til Bologna.  Lestin var kolakynnt og vélarvana og síðast en ekki síst nánast bremsulaus.  Gegnum þessi sömu skörð var einnig  til forna pílagrímaleið til Siena og áfram til Rómar.

Gróðursældin.
Gróðursælar sveitir

Göngufararstjórinn okkar er lágvaxin og stuttfætt kona á mínum aldri og svo mikil fjallageit, að hún þekkir varla muninn á brekku og sléttlendi.  Hún blæs aldrei úr nös en brosir þess meir að vandræðagangi fólksins frá fjalla- og jöklalandinu Íslandi, er það mætir í flatbotna skóm og síðum skokki í gönguferð.

Annað einkenni á hátterni hennar er að hún virðist alltaf vera að reyna að slá sér upp í augum okkar hjóna, með því að koma með eitthvað nýtt og framandi á göngudeginum.  Þetta verður til þess að þeir sem lesið hafa leiðarýsingu dagsins gaumgæfilega, verða forviða yfir því að ekkert var að marka ferðadagskrána fyrir þennan dag.

Er einhver stemmning í svona þorpi.
Fjallaþorp

Þægileg ganga niður með kvíslinni í áttina að Pistoia varð að hækkun upp á 500-600 metra.  Það sem þá blasti við, í dásamlegu fjallaþorpi vakti hrifningu allra.  Næsta ár var ekkert farið þangað, heldur genginn pílagrímaleið niður í annað fjallaþorp.  Tvö ár í röð var sem sagt ekkert að marka leiðarlýsinguna.

Nú í sumar toppaði hún svo sjálfa sig er hún ætlaði enn að ganga með okkur nýja leið, búin að finna ótrúlega spennandi minjar til að sína Íslendingunum.  Á miðri leið var það svo hún sem villtist, er hvergi sást í göngustíginn fyrir skrautjurt í íslenskum görðum, Geislasópi sem óx þarna villtur í hlíðinni.

Er komið var í Pílagrímaþorpið beið okkar bæjarstjórinn, til að bjóða Íslendinga velkomna öðru sinni og á litla torginu, var búið að stilla upp myndum frá í fyrra, er Kirkjukór Siglufjarðar kom þarna og söng Vatnsdælingastemmu og fleira þjóðlegt.

20160828_102554
Engu líkt

Olga vinkona mín hafði sem sagt undirbúið þetta allt til að gleðja okkur hjónin og brosti svo að skein í allan tanngarðinn.  Ég lýsti vanþóknun minni á uppákomunni í fjallinu, þó móttökurnar væru sannanlega skemmtuilegar.  Við það fylltust sjálfsörugg augun tárum og ég þurfti að taka hana í breiðan faðminn til að ná sáttum milli okkar.

Það er bara skoðun mín að fyrst kemur öryggi farþeganna.  Í fjallaskógum, þar sem ekki er netsamband verður að gæta varkárni.  Fólk getur stigið illa niður og snúið sig á hellulagðri gangstétt, hvað þá í misbröttum fallastígum.  Fólk á að geta treyst því sem það les í leiðarlýsingu.

Í öðru eða þriðja sæti kann að vera réttlætanlegt að kitla hégómagirnd hópstjórans, en aldrei á kostnað öryggis ferðamannsins.

Meira um Sælkeragöngur í næsta pistli.

Leave a Reply

%d bloggers like this: