Á þessu ári ætlum við að skipuleggja fjórar sælkeragöngur til jafn margra áfangastaða. Sú sem næst er í tímaröð er styst þeirra og því í raun ekki mikið gengið í henni, hún er til Valencia sem er nýr áfangastaður.

Valencia í maí
Þessi ferð er til Valencia, bæði borgarinnar og héraðsins sem ber sama nafn. Annað greinir hana frá öðrum ferðum okkar, en það er að við seljum hana án flugs. Ástæða þess er sú að netflugfélögin bjóða stök sæti alltaf talsvert ódýrar en sæti í hópferð. Þar sparast 5.000 – 10.000 kr. á mann.
Önnur ástæða er sú að margir Íslendingar eiga innhlaup í íbúðir eða hús á Alicante/Torrevieja svæðinu og gætu því framlengt dvöl sinni án aukakostnaðar og ráðið heimkomu sinni. Ferðin hefst samt sem áður á flugvellinum í Alicante síðdegis 15. maí 2018.
Hótel við aðaltorgið
Hótelið okkar er af hinni virtu Meliá hótelkeðju og stendur við eitt stærsta torg miðborgarinnar. Rétt hjá hótelinu er “Borgardómur” og mætti því kalla þetta torg Lækjartorg þeirra Valencíumanna. Við erum bókuð í gistingu með morgunverði eingöngu.
Matar og vínmenning Valencia
Við höfum hinsvegar fundið góða veitingastaði bæði í nágrenni hótelsins og utan borgar. Þá er auðvitað ætlunin að kynna hefðir í mat og drykk, stoppa á kaffihúsi kl. 11:00 og snæða “tapas” seint að kvöldi. Margir tapasstaðir opna ekki einu sinni fyrr en eftir kl. 20:00, svo dæmi séu tekin.

Toscana í júní
Toscana er næst í tímaröðinni, frá 20. – 30. júní. Þangað höfum við farið um þetta leyti undanfarin ár. Þá er gróður í sínu fegursta og ferðamannaflaumurinn hefur ekki náð hæstu hæðum.
4ra stjörnu hótel, nýuppgert
Við erum sem fyrr bókuð á nýuppgert fjögurra stjörnu hótel með morgunverði, í bænum Montecatini Terme. Hótelið stendur til hliðar við eril mestu umferðargatna, en aðeins er um 5 mínútna gangur á aðaltorgið og kaffihúsin. Að ytra útliti er hótelið í svo kölluðum “liberty” stíl, eða “nýklassískum” stíl.
Í þessari ferð notum við í tveim tilfellum lestarsamgöngur og hefur það þótt skemmtileg tilbreytni. Með því að nota lest til Flórens t.d. komumst við nær miðborginni heldur en ef við hefðum leigt okkur rútu og sem lestarfarþegar greiðum við ekki “borgartoll”.
10 dagar dásemdar
Þar sem aðeins er flogið tvisvar í viku til Ítalíu næsta sumar og 4-5 klst. akstur er frá flugvellinum til áfangastaðar, þá höfum við þessa ferð 10 daga. Sjö dagar finnst okkur of stutt, þegar svo langur tími fer í akstur. Að sjálfsögðu klippum við rútuferðirnar í tvennt og tökum okkur gott stopp á miðri leið, bæði frá flugvelli og á flugvöll.
Veitingstaðirnir okkar eru allir í fremstu röð og einn þeirra með Michelinstjörnu. Eðlilega leggjum þó heldur minna í hádegisverðina en samt er þeir ríkulegir og maturinn eins gott dæmi um Toscana matargerð og hugsast getur.
Klassískir tónleikar
Í þessari ferð höfum alltaf skellt okkur á klassíska tónleika í mjög framandi umhverfi og það sem Ítalirnir hafa kallað léttar veitingar á undan, hefur orðið að heilli máltíð með léttvíni. Tónleikarnir fara fram utandyra í stærstu heilsulindinni í bænum, Tettuccio Spa.

Garda í ágúst
Það var í Garda sem þetta allt byrjaði, við verðum þar 22.-29. ágúst. Þáverandi hótelstjóri Poiano hótelsins bauð í kynningarferð um svæðið, kynnti fallega smábæi í nágrenninu, vínkjallara og veitingastaði og svo gönguleiðir í næsta nágrenni hótelsins. Okkur fannst þetta sniðið fullkomlega að hugmyndinni um Sælkeragönguferð.
Upphafið
Við vorum aðeins sex manns sem fórum einskonar tilraunaferð og vorum sammála um að einn galli væri á ferðinni, hún væri of skemmtileg til að vera svona stutt. Sælkeraganga til Garda hefur ekki fallið niður síðan, eða í 12 ár. Hún hefur samt þróast nokkuð frá upphafinu og síðasta breytingin er að héðan í frá verður óperukvöld í Arenunni í Verona hluti af ferðinni.
Við höfum frá byrjun haldið okkur við sama hótel enda þótt það sé ekki í Garda bænum sjálfum. Niður í bæinn er 25 mín. göngufæri, en við erum jú í gönguferð og þar að auki býður hótelið upp á skutlu sem gengur á 30 mín fresti í bæinn, alla morgna og alla eftirmiðdaga. Rétt neðan við hótelið stoppar svo strætó, sem fer niður í bæ og kostar ekkert.
Léttar gönguleiðir
Það er ca. tveggja og hálfs tíma akstur frá flugvelli á hótelið og því höfum við frá upphafi tekið viku í Gardaferðina. Hana höfum við aftur og aftur lagað að þörfum og getu hópanna okkar, jafnvel sleppt einum göngudegi, en farið í dagsferð til Feneyja í staðinn. Þangað er aðeins rúmlega eins og hálf tíma akstur.
Sigling
Að sjálfsögðu tökum við einn dag í að sigla á Gardavatni, heimsækjum þar tvo heillandi bæi og endum daginn á glæsikvöldverði við vatnið. Rúta sækir okkur svo og ekur okkur heim á hótel.
Stundum hefur fólk óskað eftir meiri göngu og þá hefur “frjálsi” dagurinn verið tekinn í það, en oftar vill fólk bara fá að notfæra sér hinn frábæra sundlaugargarð hótelsins.

Torino í september
Þetta er hin nýjungin okkar. Það er enn styttra frá Milanóflugvellinum til Torino, heldur en til Garda. Torino er í raun falinn fjársjóður, þar verðum við 29. ágúst-5. september. Margir telja hana fyrst og fremst iðnaðarborg og slíkur “stimpill” er oftast neikvæður. Það er samt ekkert sem bendir til þess í borginni sjálfri, iðnaðurinn er allur vel utan borgar.
Glæsihótel í miðbænum
Eins og í Valencia höfum við einmitt valið hótel í miðri borginni og aftur bókað með morgunverði. Þaðan er stutt í allar fallegu verslunargöturnar, stóru kyrrlátu torgin, hallir og kirkjur.
Það hefur verið siður okkar að draga farþega okkar ekki inn í kirkjur eða kastala, flestir hafa séð fleiri slík mannvirki en þá langar til. Með þessar söguríku byggingar í þægilegu göngufæri frá hóteli, getur hinsvegar hver og einn staldrað þar við ef hann svo kýs. Til þess er nægur frjáls tími, flesta daga í öllum okkar ferðum.
Líkklæði Krists
Einn er þó sá hlutur þar í borg sem áhugasamir teldu nauðsynlegt að sjá, en það er Torino-líkklæðið. Fullyrt er að enginn af helgum dómum kirkjunnar hafi verið rannsakaður jofn oft og með jafn mörgum vísindalegum aðferðum. Stranginn er 4.36 m. langur og hann er að finna í dómkirkju borgarinnar.
Vikuferð
Þessi ferð verður vikuferð, hvað sem síðar verður, er við höfum kynnst svæðinu betur og fundið okkur fleiri áhugaverða staði að heimsækja. Stutt er í frægustu pílagrímaleiðina frá Vestur-Evrópu og allt til Rómar og ýmsir áhugaverðir staðir eru í næsta nágrenni.
Flugi til Ítalíu verður lokið þegar ferðin okkar klárast og því munum við fljúga heim frá Genf. Þangað er þriggja tíma akstur um ægifagurt landslag Alpanna, þegar ekið er milli Mont Blanc og Mattenhorns.
Mig langar í næsta pistli að fjalla aðeins um þá upplifun sem fólk hefur tjáð okkur af ferðunum okkar á liðnum árum