Hvers vegna Sælkeragöngur?

Það eru einkum tvær ástæður fyrir því að við höfum valið Miðjarðarhafslönd sem vettvang sælkeragönguferðanna. Nokkuð öruggt veður og óbrigðul matar og vínmenning. Þá má einnig nefna að við höfum haldið okkur við svæði, tíma og áfangastaði sem flogið er til í beinu flugi frá Íslandi.

Langt er orðið síðan ég fjallaði um hvers fólk má vænta í „sælkeragönguferð“.  Hvað það er sem greinir þær frá öðrum gönguferðum í útlöndum og fyrir hverja þær eru hugsaðar.

Þannig kviknaði hugmyndin

Við hjónin fórum í afskaplega velheppnaða gönguferð um Pireneafjöll fyrir allnokkrum árum.  Þar var nauðsynlegt að vera í góðu formi, oft langir göngudagar og mikil hækkun flesta daga.  Þegar heim kom á hótelið var fólk lúið og ekki tími né orka til að gera neitt annað þann daginn.  Lítið var lagt upp úr góðri gistingu og góðum mat.

Svarið er Sælkeragöngur

Sælkeragöngurnar eru hugsaðar fyrir aðra.  Þær eru þannig samansettar að helst allir geti gengið með, í a.m.k. einhverjum af gönguleiðunum.  Auðvitað er líka gegnið um skógarstíga og brekkur inn á milli, sem ekki eru fyrir hvern sem er.

Í göngulok bíður svo gjarnan ríkuleg máltíð á góðum veitingastað og hótelið sem bíður er líka gott hótel.  Göngurnar eru heldur ekki lengri en svo að það er jafnan nægur tími eftir af degi, til að gera eitthvað fleira a.m.k. flesta daga.  Vinahópurinn getur sett upp eigin dagskrá eða hjónin kíkt í búðir, svo dæmi sé tekið.

20160609_134229
Í göngulok

Gönguleiðir eru líka þannig skipulagðar að ef einhver er illa fær um að ganga einn til tvo tíma, þá er séð til þess að sá hinn sami komist eftir auðveldari leið á áfangastað og geti tekið þátt í máltíðinni.  Allir veitingastaðir, hvort heldur er, þar sem hádegisverður er snæddur eða kvöldverður, hafa verið sérvaldir, kunnir fyrir góðan mat, frábæra þjónustu og/eða fallegt umhverfi.

Suður-Evrópa sameinar allt!

20160609_114433
Herragarður í sveitinni

Það eru einkum tvær ástæður fyrir því að við höfum valið Miðjarðarhafslönd sem vettvang sælkeragönguferðanna.  Nokkuð öruggt veður og óbrigðul matar og vínmenning.  Þá má einnig nefna að við höfum haldið okkur við svæði, tíma og áfangastaði sem flogið er til í beinu flugi frá Íslandi.

Hvers vegna Toscana og Garda?

Af fyrrgreindum ástæðum fórum við af stað með hugmyndina um Sælkergönguferð á Gardasvæðinu.  Frábær matarmenning Venetohéraðsins, borg ástarinnar Verona, með hina stórkostlegu Arenu.

Heillandi sveitamenning í fjöllunum háum og lágum og ekki síður nálægðin við hinar einstöku Feneyjar.  Allt er þetta í anda þess sem okkur langaði til að bjóða farþegum okkar að upplifa.

Toscana, fegurðin engu lík.
Litadýrð Toscana

Sögulegir yfirburðir Toscanahéraðs í listum og menningu, með Flórens sem drottningu annarra borga, Pisa með sinn skakka turn, Chiantivínin og Toscananautið.  Fallegar gönguleiðir um pílagrímaslóðir, jafnvel Íslendinganna allt fram á Sturlungaöld.

Synir Toscana þeir Leonardo da Vinci, Michelangelo og Puccini, allt risar hver á sinn hátt og svo kjáninn hann Gosi.  Hverjum þætti þetta ekki næg ástæða til að ferðast þar um og ekki í neinum hvínandi hvelli, heldur með því að gefa sér tíma til að anda að sér sögunni og menningunni.

Hvers vegna Torino?

Torino hefur stundum verið nefnd París Ítalíu.  Kannski svipar þeim saman.  Þær áttu ákveðið blómskeið á svipuðum tíma.  Byggingastíllinn er því ekki ósvipaður.  Torino er samt mun minni og þá um leið aðgengilegri.  Henni er jafnvel talið til hróss að hún er enn ekki orðin ýkja mikil ferðamannaborg.

20160830_104656
Götulistamaður

Borgin situr í efrihluta Pó dalsins með fjöll á þrjá vegu.   Þar í kring eru víða þægilegar gönguleiðir, um sögusvið Miðalda-mannlífs.  Árif frá frönskum aðalsættum, sem báru með sér matar- og vínmenningu Frakklands.   Þar voru líka allir Fíatarnir hans Ómars Ragnarssonar framleiddir.

Piemonte og Barolo

Þeir eru margir sem segja að önnur ítölsk vín séu bara skugginn af Barolo vínunum frá Piemonte.  Þetta vínhérað liggur til suðurs frá Torino, innan við klukkustundar akstur.  Þar bjóða vínbændur okkur velkomin í heimsókn, bjóða okkur að smakka vínin sín og snæða sveitamat á eftir.

Þar er líka að finna bæinn Asti og þaðan þekkjum við Íslendingar sæta freyðivínið Asti Gancia, gert úr þrúgu sem er náskyld þeirri sem við þekkjum sem stóru, gulleitu rúsínurnar, sem alltaf eru til fyrir jólin.

Hvers vegna Valencia?

Borgin Valencia er stærsta hafnaborg Spánar en ber engin neikvæð merki hafnarborga Norðu-Evrópu.  Hún er í tæpra tveggja tíma akstursfjarlægð frá flugvellinum í Alicante.  Þangað er flogið tvisvar til þrisvar í viku frá Íslandi.

Valencia er afar flatlend og þægileg yfirferðar.  Hennar blómaskeið stóð eftir að siglingar Spánverja til Ameríku hófust og gull og gersemar streymdu til Spánar.  Í gegnum hana féll skipgeng á, líkt og Sevilla og á nesi sem skagaði út í Turíaána reis borgin.

Hér er talað í þátíð, í og með vegna þess, að Turíaáin var færð út fyrir borgina á síðustu öld.  Dagana 13. og 14. oktober árið 1957 tók að rigna á þurra jörð og áður en yfir lauk höfðu 300 milljónir rúmmetra af vatni flætt um borgina, með svo yfirgengilegu tjóni fyrir borgarbúa, að Spánarstjórn ákvað breyta farvegi árinnar.

Eftir stóð breiður en tiltölulega grunnur árfarvegur, sem menn greindi á um hvernig skyldi nýta.  Sumir sáu þarna tilvalda leið fyrir stofnbraut í gatnakerfi borgarinnar.

20150127_113229 (Medium)
Hjólaferð í Túríagarðinum

Aðrir sáu mjög sérstakt svæði fyrir almenningsgarð og pláss fyrir ýmsar þær menningarstofnanir, sem vantaði í borgina og hvergi var pláss fyrir.

Niðurstaðan varð Turíagarðurinn, sem í dag er stolt þessarar borgar.  Þarna vöknuðu borgaryfirvöld til vitundar um nauðsyn útivistarsvæðis fyrir fjölskyldufólk, ekki bara í einu hverfi borgarinnar, heldur sem hlykkjaðist gegnum alla borgina, öllum borgarbúum til sama gagns og gleði.

Frekari hugleiðingar í næstu viku.

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s