Uppruni Birmingham

Allra elstu heimildir um mannvistir, þar sem borgin Birmingham stendur í dag, eru 500.000 ára gamlar.   Handöxi, sem fannst á botni Rae árinnar, rétt fyrir austan borgina sannar að hér hafi verið mannlíf fyrir síðasta ísaldarskeið.

Fornleifarannsóknir

Árið 2009 fundust við uppgröft innan sjálfra borgarmarkanna, frekari merki um mannvistir, frá því um 10.400 f.Kr.  Þar var um að ræða veiðimannasamfélag, sem jafnframt safnaði villtum plöntum, en ræktaði ekki.

Handöxi
Ísaldarvopn

Merki um eldamennsku og jafnvel gufuböð hafa einnig fundist, sem telja má öruggt að sé frá því um 1.000 – 1.700 fyrir Kristsburð.  Þar sést að menn hafa brennt skóga til að rýma fyrir byggð og akuryrkju.

Leifar af Rómverskum virkisveggjum eru hér, sem fullyrða má að séu frá því um 40 – 120 e.Kr. og bærinn virðist hafa skipt miklu máli á þeim tíma, því fundist hafa sannanir fyrir þess tíma þjóðvegum í allar fjórar höfuðáttirnar.

Engil-Saxar

Nafnið Birmingham kemur frá engil-saxneska tímanum.   Talið er að ættflokkurinn sem þar settist snemma að, eða náði yfirráðum hafi heitið Beormar.   Hann hafi upphaflega verið “home” og staðurinn með tímanum fengið í daglegu tali, nafnið Beormahome eða heimili Beormanna, sem seinna breytist í Birmingham.  

Fyrstu ritaðar heimildir um Birmingham eru úr Domesday bókinni, frá 1086, sem er að nokkru hliðstæð Landnámu okkar.   Birmingham er skráð sem opinber markaðsstaður árið 1166 og á þeim tíma verða til sum kennileiti borgarinnar sem enn lifa – Bull Ring (nautgriparéttin), Aston Höllin (Ason Villa), Birmingham Plateau (Birmingham hæðin).

Bullring nautið
Tákn Bull Ring

The Old Crown frá 1276 er elsta hús borgarinnar og hét þá Deritend og var byggt við ferjustaðinn yfir Rea ána.  Svo merkilegt sem það er, þá fundust engar minjar um Engil-Saxa við uppgröftinn sem tengdist þeim byggingum sem risu er borgin var ein Menningarhöfuðborga Evrópu árið 2000.

Verslunarleiðin

Vegna legu sinnar á verslunarleiðinni milli Wales og norð-austur strandar Englands, þá varð borgin strax á snemm-miðöldum þekktur “verslunarstaður”.  Handverk ýmis konar var þar á boðstólnum, s.s.  ullar og skinnavörur (söðlasmíði), leirgerð og síðar smíði úr eðalmálmum.

Krossfarar II
Krossfarar

Varningur sem barst til borgarinnar tengdist fyrst og fremst ferðum Musteris Riddarareglunnar ensku.  Hún varð til eftir heimsókn franskra riddara, sem voru að safna liði í Krossferðirnar.  Á þessum tíma fékk bærin löggildingu sem markaðsbær, nokkuð sem allsekki bauðst hvað bæ eða borg sem var.  

Réttindin “Verslunarstaður” var ekki bara vitnisburður um daglegan bændamarkað eða fiskitorg.  Þetta var staðfesting á að þarna var höndlað með vörur frá fjarlægum löndum.  Krydd og postulín frá Kína, fínvefnaður og krydd frá Indlandi.

Heimamenn gátu í staðinn fengið hærra verð fyrir sínar afurðir svo sem ullarvörur, kjöt og unnið korn.  Þarna þróuðust lánaviðskipti á sama tíma og fjármunavelta varð bæði meiri og hraðari.  Penigastofnanir urðu til.

100 km. norð-austan við Birmingham er borgin Nottingham og þar norður af er hinn frægi Skíriskógur.  Allt er þetta í beinni línu á verslunarleiðinni frá Wales, gegnum Shrewsbury, Birmingham og allt til fornu hafnaborganna við Humberflóann.  Þau borgarnöfn sem þar eru okkur kunnust, eru Hull og Grimsby.

Hrói Höttur
Hrói Höttur, hver veit?

Það kann því vel að vera að mörg fórnarlamba Hróa Hattar hafi verið á leið til eða frá Birmingham er þau urðu á vegi hans, hafi hann verið til.  Ríkharður Ljónshjarta var til og særðist í annarri krossferðinni, dvaldist í Melk klaustri norðan við Vínarborg, áður en hann hélt heim til Englands sem hinn mikli sigurvegari og mildi stjórnandi.

Meira í næsta pistli.

 

Leave a Reply

%d bloggers like this: