Upphaf sögu Íslands er svo einfalt samkvæmt því sem okkur hefur verið kennt. Náttúruleg landamæri, eyland úti í hafsauga. Fyrst kom einn landnámsmaður, svo allir hinir landnámsmennirnir, þá var stofnað Alþingi, seinna kom Svarti dauði, því næst Móðuharðindin, svo komu Panamaskjölin og þá var komið þetta Ísland, sem við þekkjum það í dag.
Landamæri
En hvernig verða lönd til í hinum stóru heimsálfum. Sum eru ekki enn í dag orðin til, vegna innrásar nágrannaþjóðar eru landamæri þeirra önnur í dag en í fyrra eða hitteðfyrra, ný landamæri að verða til þegar landssvæði lýsir yfir sjálfstæði frá stóru heildinni.

Það er eftirtektarvert að sjá hvernig lendur og þéttbýli hjá einni yngstu þjóða jarðarinnar, Bandaríkjum Norður Ameríku þróuðust. Á meðan álfan var “viði vaxin” frá austurstönd til þeirrar vestari, suður frá Mexicóflóa og norður í frera Kanada, voru fljótin helsta samgönguleið mannsins.
Borg fæðist
Sjá má að flestallar borgir Norður Ameríku hafa orðið til þar sem ár eða fljót falla saman, en þar gat landnema og/eða kaupmenn borið að úr mörgum áttum. Minneapolis, Calgary, New Orleans svo fáeinar séu nefndar.
Það sama má finna í hinni gömlu Evrópu, en einnig hvar sem rómverjar höfðu lagt stofnleið milli svæða og brúað ár, þar myndaðst fljótt samfélag manna og til urðu viðskiptahagsmunir. Heimsborgirnar London, Róm, Innsbruck (brúin á Inn) og Blönduós. Allar verða þær til vegna mikilvægis árinnar.
Ekki Salzburg
Þetta á ekki við um Salzburg. Hún varð til kringum klaustur Péturs postula, sem Heilagur Rúbert af Salzburg lét reisa utan í hnjúknum háa sem gnæfir yfir borgina. Á kolli hnjúksins stendur enn í dag ein af einkennisbyggingum borgarinnar Hoensalzburgkastali.
Vafalítið var að finna rómverskt hernaðarmannvirki á toppi hnjúksins og vitað er að Keltar höfðu verið þar á fimmtu öld fyrir Kristsburð. Árið 45 AD heitir hin rómverska bækistöð Juvavum og fær þá stöðu sjálfstjórnarsvæðis.
Á hundavaði
Hér fylgja svo nokkur ártöl, sem marka tímamót í sögu borgarinnar.
696 – klaustur Péturs postula rís í klettóttri hlíð og fátækir og ríkir setjast að námunda við ríkidæmi og hjálpsemi klausturbúa.

1077 Gebhard von Helfenstein erkibiskup leggur grunn og hefur byggingu Hohensalzburg kastalans, að fyrirmynd viðlíka kastala hins “Heilaga Rómverska Heimsveldis”. Því má ekki rugla saman við Forn Rómverska Heimsveldið.
1287 Salzburg fær réttindi borgar.
1370 Konrad Taufkind verður borgstjóri í Salzburg og markar það nýtt sjálfstæði borgarinnar. Þá hafði hún lengi fallið undir Bavaria (Bæjaraland).
1519 Hohensalzburg kastali er stækkaður í núverandi umfang.
1525 Þýska bændabyltingin, en hún tók til allra bænda og fátækra í þýskumælandi löndum. Henni lauk ekki fyrr en Aðallinn hafði slátrað um 100.000 manns.
1587 Til verður hugtakið Erkibiskups prins, yfir þann sem fer með bæði veraldlegt og geistlegt vald borgarinnar. Hann hefur sterk og bein tengsl við Páfann í Róm. Miðborgin, eins og hún er í dag er samstarfverkefni innfæddra og ítalskra arkitekta og skipuleggjenda frá þessum tíma.

1619 Lokið við byggingu Hellbrunn hallar, sem sumarhöll fyrir Erkibiskups prinsinn. Þangað förum við í Aðventuferðinni okkar til Salzborgar, því hann er enn meiri sveitamarkaður en hinir í borginni.
1756 Undrabarnið Wolfgang Amadus Mozart fæðist 27. janúar, að Getreidegasse 9.
Næsti pistill verður helgaður honum.