Holl ´64 til Garda.

Haustið 1964 innrituðust 23 stúlkur í Hjúkrunarkvennaskóla Íslands, eins og hann hét þá.  Fyrir þeim lá að deila heimavist við skólann næstu þrjá veturna, jafnvel þó flestar þeirra væru úr Reykjavík og gætu allt eins búið í foreldrahúsum.

Þessi stefna skólans var auðvitað tímanna tákn, en kannski leyndist þarna viðbótarafurð sem skólastjórnendur sáu ekki fyrir.  Hún er sú að með þessum stúlkum tókst ævilöng vinátta og samheldni, sem enn varir meir en hálfri öld síðar.

Fimmtugar og fjörmiklar

Þessar stúlkur útskrifuðust sem sagt sem hjúkrunarfræðingar árið 1967 og nú í ár vildu þær halda upp á tímamótin.  Sælkeragönguferð til Garda varð fyrir valinu og þó einhverjir í hópnum þyrftu að stytta sér sumar göngurnar þá voru hinir, hjúkkur og makar, þess léttari í spori.

Fyrsti dagurinn í ferðinni var gönguferð um Verona, sem lauk í hádegisverði í höll við enda elsta torgs borgarinnar, Piazza Erbe.  Hafði einhver orð á því að það væri ekki alsiða í þessum hópi að drekka rauðvín með hádegismatnum.  Enginn bar þó fram formlega kvörtun yfir tiltækinu.

2017-08-30 11.51.29
Gönguferð um Sigurtá

Sigurtá

Næsta dag var haldið suður með affallinu af Gardavatni, Mincioánni og í einn fegursta skógar- og lysigarð Evrópu, Sigurtá.  Það virðist alveg sama á hvaða árstíma maður heimsækir þann garð, hann er alltaf jafn hrífandi.  Þeir sem ekki vildu ganga þennan klukkutíma sem það tekur, leigðu sér golfbíl og óku um malbikaða stíga á sömu staði og við gengum.

Úr garðinum er stuttur akstur í hið einstaka þorp Borghetto, sem allt er byggt á flúðum í ánni og vatnsmylla við hvert hús.  Það er arfur frá gamalli tíð, er bændur leituðu þangað til að fá korn sitt malað.  Nú eru veitingstaðir og verslanir í hverju húsi.  Því er haldið fram að þarna hafi rétturinn „tortellini“ verið borinn fram í fyrsta skipti í sögunni.

 

Sirmione
Götumynd í Sirmione

Þriðji dagur átti að vera frídagur hópsins, eftir talsverða dagskrá.  Þar sem spá gerði ráð fyrir mikilli rigningu næsta laugardag var ákveðið að víxla dagskránni og sigla á Gardavatni til bæjarins Sirmione.  Dásemdarveður var í Sirmione, engin sérstök dagskrá fyrirhuguð og fólk naut sín vel við spjall um gamla góða daga, frá skólaárunum þessvegna.

Markaðsdagur

Fjórði dagur í Garda var föstudagur og þá er markaðsdagur í bænum.  Nær óslitinn götumarkaður er enda á milli í bænum og fylgir vatnsbakkanum.  Margir kunna vel að meta mannlífið sem fylgir svona degi og enduðu á veitingastað við vatnið, í léttan hádegisverð.

Bardolino
Kirkjutorgið í Bardolino

Framundan var svo lengsta gangan, 1,5 kl.st. meðfram vatningu til bæjarins Bardolino. Lagt var af stað kl. 15:00 og fólk yppti öxlum yfir einhverjum hrakspám um úrkomu milli fjögur og fimm.  Að sjálfögðu var bjór/hvítvínsstopp eftir tæplega klukkustundar gang og svo stikað áfram.

Þá skall´ann á.

Úrkoman sem spáð hafði verið var ekki bara dropi & dropi.  Fyrr en varði hafði hún breyst í haglél, köggla á stærð hnetur.  Sem betur fór höfðu allir tekið með sér regnfatnað og því engin ástæðia til annars en að ösla áfram inn í miðbæ Bardolino, á nógu stóran stað til að allir kæmust í skjól.

Ítalirnir vissu hvenær veðrið var gengið yfir og týndust einn og einn af stað, hver sinna erinda.  Það gerðum við líka og lítið væri skaðað í Bardolino þá glöddust allir yfir breyttu veðri.  Við áttum enn eftir að ganga 20 mínútur til ólívukaupmanna og það áfram á einn vinsælasta veitingastað í þorpinu.

Margir fundu spennandi, heimagerðar vörur úr ólívum, trufflusveppum og fleiru, sem þykir sjálfsagður bragðauki í ítalska matinn.  Jafnvel mátti finna þarna eðalborðvín, ávaxtalíkjöra og hinn fræga grappa, gerðan úr ýmsum vínum héraðsins.

2017-09-01 19.08.47
Kvöldverður hjá Andrea

Andrea og eldhúsið hans

Það var vel tekið á móti öllum á veitingastaðnum okkar, maturinn bæði mikill og góður og svo var ekkert verið að mæla vínið í hrollkalt göngufólkið.  Svona dagar verða sjaldnast til að setja dökkan blett á góða ferð, fremur hitt.  Frásagnir af hagléli um miðjan dag 01. sept. suður við Gardavatn eiga eftir að heyrast oft.

Laugardagsrigningin varð minni en spár höfðu sagt og frjálsi dagurinn nýttist vel á heilsulind hótelsins, eða í bænum.  Deginum skyldi svo ljúka með „lokakvöldverði“ á Ítalíu allavega á gömlum bóndabæ, þar sem elstu veggirnir munu 400-500 ára gamlir.

2017-09-02 19.33.11
Lokakvöldverður

Við fengum sal út af fyrir okkur, sem var gamll kálfahúsið, skemmtilega uppgert og hafði greinilega verið hátt til lofts hjá kálfunum í gamla daga.  Maturinn og vínin voru stórkostleg að vanda á þessum stað og okkur þjónað af einni stúlku að mestu, en með dyggilegri aðstoð fjölskylduföðurins.  Þarna voru kveðnar íslenskar rímur og hljómuðu vel í salnum.

„Edelweiss“

Að morgni næsta dags var haldið af stað inn í Alpana, gegnum Brennerskarð og til Innsbruck.  Flugi var þarna hætt til og frá Ítalíu og því áttum við bókað heimflug frá Munchen.  Enga sáum við Alparósina á leið okkar en kannski hljómaði lagið úr „Sound of Music“ í hugum sumra á leiðinni.

Edelweiss
Alparós í réttu umhverfi

Innsbruck er dásamlegur bær, gamall og virtur háskólabær frá Mið-öldum.  Sá galli var á þessu stoppi að þetta var sunnudagur, Týrólarnir farnir að slaka á eftir sumarvertíðina og verslanir lokaðar, nema túristabúðir.  Við áttum bókaðan kvöldverð í gamalli bjórverksmiðju og verður að segja að matur og vín stóðust ekki ítalskan samanburð.

Við ókum til Munchen í afskaplega fallegu veðri og yfirgáfum nú Alpana til norðurs, en þeir höfðu einmitt verið bakgrunnur alls sem við gerðum fyrir sunnan þá.

Það var glaðlegur hópur og óþreyttur sem við kvöddum á flugvellinum, eftir viku samvistir og fjölbreytta dagskrá.  Þó ekkert hafi skort á gamalgróna samheldni „stelpnanna“ í 64-hollinu fyrir þessa ferð, trúi ég að hún hafi eflst enn við þessa skemmtilegu ferð.  Samband þeirra var fyrst og fremst fallegt og náið.

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s