Hugsað til Salzborgar

Þegar ég sit á hótelinu okkar í Salzburg get ég ekki bægt frá mér hugsuninni um að þessa götu hafi Mozart gengið.  Eftir þessari götu lá leið hans þegar hann hélt á vit æfintýra sinna.  Hann ók hér hjá þegar hann fór til Vínar eða Prag á hestvagni, hlustandi innra með sér á eigin hugverk sem gátu orðið til hvar sem var.

Á þessari götu svallaði líka „litli bróðir“ Jóseps Haydns.  Í öfugu hlutfalli afköst og samviskusemi Jóseps var Mikael Haydn dekurdrengurinn, snillingurinn á hljóðfærin sín, léttaskapandi tónskáld og drykkjumaður „par excellence“.  Lengi var talið að „Heims um ból“ væri eftir hann.

Carl Orff

Þegar ég var 11 ára strákur norður í landi ók eftir þessari götu þýska tónskáldið Carl Orff og stofnaði Carl Orff Institude of Music and Dance í Salzburg.  Þar hafa margir íslenskir tónlistarkennarar numið sín fræði og komið til baka og hafið kennslu í tónlistarskólum landsins.  Þekktasta verk Carl Orff er auðvitað Carmina Burana.

Orff slasaðist í fyrri heimsstyrjöldinni árið 1918.  1937 fékk hann í hendur texta sem upprunnir voru í miðaldaklaustrum 12. og 13. aldar.  Það sem tók athygli hans var að margir þessara texta voru bæði fylleríiskvæði og aðrir klámfengnir – ekki það sem hann hafði átt von á frá munkunum.

Carmina Burana er því veraldlegt verk, þó það eigi einhverjar rætur í klausturlífi.  Kórsnillingurinn Garðar Cortes hefur flutt verkið með Íslenska Óperukórnum víða um heim m.a. tvisvar í Carnegie Hall í New York.

Karajan

Ég get líka séð fyrir mér stráklinginn Herbert von Karaian, f. 1908 með píanónóturnar sínar undir hendinni á leið í spilatíma.  Af rúmensku og armensku ætterni (öll karlmannsnöfn í Armeníu enda á -ian, sbr. Petrosian, heimsmeistari í skák, Katsaturian höfundur að Sverðdansinum o.fl.) fæddist hann og ólst upp í Salzburg.

Þegar hann var aðeins átta ára gamall var farið að tala um hann sem undrabarn á píanóið.  18 ára gamall útskrifaðist hann frá Mozarteum háskólanum í Salzburg og hóf nám í Tónlistarakademíu Vínarborgar.  Hann stjórnaði svo Berlínarfílharmóníunni í 35 ár og sennilega hefur enginn stjórnandi enn hljóðritað fleiri né meiri verk klassíkurinnar.

María von Trapp

Rosmarie Kutschera, seinna von Trapp f. 1905 átti kannski leið um þessa götu.  Móðir hennar lést eftir fæðingu stúlkunnar og faðirinn er hún var 6 ára.  Ömurleg æska hennar leiddi hana í faðm Abbadísarinnar í „Nonnberg“ Benediktusar klaustrinu í Salzburg.

Fyrir ástríki þeirrar konu öðlaðist María lífsgleði og hjartahlýju, sem réði því að hún giftist uppgjafa kafbátaforingja, ekkjumanni með sjö börn, en þeim gekk hún í móðurstað.  Allir þekkja söguna og tónlistina úr „Sound of Music“.

Stórmenni á öllum sviðum sögunnar hafa gengið þessa og aðrar götur í Salzburg, notið lista og andrúmslofts þessarar litlu borgar.  Þetta er það sem heillar mig við svona staði og að koma svo á Jólamarkaðinn, sem maður veit að var þarna líka á dögum Mozarts, það er á við að koma að byrginu í Drangey, þar sem Grettir var höggvinn.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s