Meira af Toskana

Fimmti dagur var frjáls dagur og engin dagskrá þar til um kvöldið.  Margir nýttu sér hótelgarðinn og laugina til að byrja með en svo fóru flestir í bæinn, skoðuðu í búðir og hvaðeina sem hugann getur glatt.

Toskana nautasteikin

Kl. 19:30 röltum við í rólegheitum upp frá hótelinu að „toglest“ sem dregin er upp brattasta hlutann, upp í gamla miðaldabæinn Montecatini Alto.  Þar var snæddur glæsilegur kvöldverður á torginu fyrir framan gamla kastalann.  Nú var það hin fræga „Toskana nautasteik“ sem var aðalrétturinn og að sjálfsögðu vel valin vín með.

funicolare-montecatini-alto-960x365
Toglestin upp í Montecatini Alto

Fyrir klukkan níu næsta dag var lestin tekin til Flórens, sem Ingólfur Guðbrandsson nefndi æfinlega „Perlu Ítalíu“.  Að fara til Flórens í aðeins dagstund er bara eins og að finna lyktina af máltíðinni en fá ekki að smakka.  Hún er því fremur hugsuð þannig að fólk segi, „hingað verð ég að koma aftur“.

Engin máltíð var bókuð þennan dag og við tókum lestina til baka kl. 17:00.

Yfirburðamaðurinn

Á sjöunda degi var ekið til litla bæjarins Vinci, fæðingarbæjar Leonardo da Vinci, sem hann kenndi sig við.  Í því húsi sem talið er vera fæðingaheimili hans, er stórskemmtileg heimildarmynd um brot úr æfi þessa snillings, sem menn telja í dag hafa haft hæstu greindarvísitölu þekktra einstaklinga.

Leonardo da Vinci
Sjálfsmynd Lenonardos

Hægt væri og sjálfsagt ærið tilefni til, að rita sérstakan pistil um Leonardo da Vinci, en til þess þarf fróðari mann en mig.  Frá heimilinu gekk hópurinn saman niður hæðina sem húsið stendur á og alla leið til þorpsins Vinci.  Þar skoðuðum við safn sem geymir teikningar og módel af ýmsum hans merkustu verkfræði og lífærafræði afrekum.

Þaðan vara haldið til ólífubónda og okkur kynnt vinnuferlið við gerð ólívuolíunnar og alls sem úr ólívum er unnið.  Þar var einnig allskyns handverk úr sveitinni til sölu og svo var slegið upp veislu að ítölskum sið.  Ólívuolían var þar í aðalhlutverki og heimagerð vínin urðu bara til að auka enn á hamingjuna með þennan dag.

Pinocchio – Gosi?

Um kvöldið var síðasta stórmáltíðin í ferðinni, í bænum Monte Carlo, einum fjölmargra sem bera það heiti á Ítalíu.  Bærinn stendur hátt og víðsýnið mikið frá veitingastaðnum og svo er makalaus upplifun að finna dagsbirtuna þverra og sjá sveitina baðast ljósum í staðinn.

Laugardaginn 24. júní var ferðinni heitið í litlu borgina Pistoia og fjöllin þar fyrir ofan.  Í 940 metra hæð yfirgaf rútan okkur og við fylltum eina kaffihús þorpsins á fjallinu, til að gera okkur klár fyrir gönguna niður í pílagrímaþorpið Spedoletto.

Skrautjurt eða illgresi

Leiðin var illfær vegna mikils gróðurs, sem huldi göngustíginn á löngum svæðum.  Ekki átti maður von á að Geislasópur yxi í svo ríkum mæli í fjallahlíðum Toskana að vart væri göngufæri um brekkurnar.

spedoletto
Pílagrímaþorpið Spedoletto

Sú var þó raunin og þar sáum við húsarúst, sem árið 1966 hafði verið heimili sjö manna fjölskyldu, en var nú nánast horfin í runnagróðurinn.

 

Í Spedoletto (afbökun á orðinu „hospitaletto“) snæddum við ríkulegan hádegisverð á fallegum veitingastað sem manni hefði ekki dottið í hug að finndist þar, í þorpi á stærð við Borðeyri.  Sumir fjárfestu jafnvel í Grappa héraðsins og töldu sig auðugri á eftir.

Hinni eiginlegu Sælkeragöngu var svo lokið daginn eftir og við héldum til strandbæjarins Lido di Camaiore.  Þar var gist á hóteli nærri ströndinni síðustu þrjár næturnar.  Stór sundlaug var við hótelið, en einnig stutt á ströndina.

Strandlíf

Við strendur Toskana er fyrirkomulag ólíkt Spáni og Portúgal, því strandskikar eru þar leigðir út, líkt og kartöflugarðar hér á Íslandi.  Leigutakar þurfa að hirða vel um ströndina og veita gestum góða þjónustu, sólhlífar, borð og stóla.  Nánast allir bjóða einnig upp á búningsklefa og jafnvel sturtu, veitingar og góða aðstöðu fyrir yngstu börnin.

viareggio (1)
Strandbær í Toscana

Þessi dvöl á ströndinni í lokin helgaðist eingöngu af því að þannig stóð á flugi hjá Icelandair, annars er það ekki venjan í Sælkerferðum okkar að hanga í aðgerðaleysi á strönd.

Margir nýttu sér þó dagana og leigðu bíl eða hjól og héldu á vit sjálfskapaðra æfintýra, villtust svolítið og skiluðu sér svo heim aftur.  Aðrir tóku lestina til Pisa, til að sjá skakka turninn áður en hann fellur endanlega.  Það mun þó ekki gerast, því búið er að tjóðra hann fastan eftir miklar verkfræðipælingar.

Búið var að spá mikilli rigningu á heimferðardegi og því héldum við okkur á hótelinu þar til lagt var af stað til Mílano í veg fyrir heimflug.

Það var gaman að kynnast því skemmtilega fólki sem ferðaðist með okkur þessa daga og slíkt vekur manni tilhlökkun eftir næstu ferð og næstu farþegum.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s