Sælkeralíf í Sælkeragöngu.

Eftir nokkra pistla í röð af umfjöllun um kóraferðir sumarsins er ekki úr vegi að segja frá Sælkeragöngunni til Toskana á þessu ári.

Það var nánast fullt í þá ferð strax á vordögum 2016, með meira en árs fyrirvara.  Svipað er að gerast núna með ferðina 2018.  Dagsetningarnar voru staðfestar í síðustu viku en verðin liggja ekki fyrir.  Samt er fullt af fólki búið að láta taka frá pláss fyrir sig og vinina.

Allt í pati

Fyrsti dagurinn eftir útflugið hófst með ósköpum.  Rútan sem var að sækja okkur sunnan frá Toskana bilaði úti á miðri Pósléttunni, nokkuð sem alltaf ætti að gera ráð fyrir, en ég get þó aðeins rifjað upp eitt annað tilvik á ferlinum.  Það var í Portúgal í kringum 1990.

Það er mikill erill á rútufyrirtækjum á Ítalíu, ekki síður en á Íslandi, þessi misserin.  Í stað þess að leggja af stað til Toskana kl. 08:00 að morgni sunnudags 18. júní, var klukkan orðin 12:00 er við héldum af stað.

Aksturinn frá Malpensaflugvelli, þar sem við gistum fyrstu nóttina, til Montecatini Terme er um 4-5 kl.st. sé ekið sleitulaust.  Auðvitað er tekið stopp á leiðinni þannig að ferðatíminn fer alltaf yfir fimm tíma.

Caffé Antica
Veitingasalurinn fyrir klassísku tónleikana 

Við tókum stutta gönguferð um Montecatini Terme, eftir að allir voru komnir með herbergi.  Þar lærði hópurinn á bæinn, verslanir, kaffihús og göngugötur.  Tíminn var naumur, því um kvöldið vorum á leið í það sem Ítalir kalla léttar veitingar, en er í raun full máltíð með borðvíni og þaðan á klassíska tónleika í tignarlegu umhverfi Tettuccio Spa.

Beethoven o.fl.

Enginn sofnaði á tónleikunum, enda flutningur stórgóður og umhverfið spennandi.  Stutt frá hótelinu okkar er skemmtilegur útibar með nógu af þægilegum sætum og þar tyllti hópurinn sér eftir tónleikana.

Næsti dagur byrjaði rólega, en kl. 14:00 var lestin tekin til Lucca, eða Lukkubæjar, eins og Nikulás ábóti nefndi hana í ferðabók sinni um Suðurgöngu til Rómar.  Gengið var um borgarmúrana, sem alltaf koma á óvart og þá sér maður bæinn frá sjónarhorni sem ekki fæst öðruvísi.

Komið var í eina af gömlu pílagrímakirkjunum, San Frediano (heilagur Friðjón, írskur kennimaður) og þar var sýnt fram á tengsl Lucca við upphaf Sturlungaaldar á Íslandi.

Basilica-Di-San-Frediano-58313
San Frediano í Lucca

Þaðan var gengið gegnum torgið sem eftir stendur þegar hringleikahúsið er horfið og eftir verslunargötunum og San Michele kirkjunni, þar sem skoðunarferðinni lauk.  Frjáls tími var í bænum til kl. 19:00 og þá haldið út fyrir bæinn og kvöldverður snæddur á Michelin stað í sveitinni, með sérvöldum vínum.

Skógarferð eða þannig

Daginn eftir átti að halda í skógarferð með nesti með sér og gera sér „pikk-nikk“ þar í rjóðri.  Innlendi leiðsögumaðurinn okkar ákvað þó að gera breytingu á plani og ganga með okkur meðfram læk nokkrum, á stað þar sem hægt væri að snæða nestið og einnig að sjá nokkrar menjar frá seinna stríði.

Þurrkar höfðu ríkt í Toskana undanfarna mánuði og vatn var ekki til í þessum læk.  Á Íslandi hefði þetta líka frekar verið kallaður skurður en lækur.  Þrátt fyrir þéttbýli í Toskana fann maður samt fyrir sveitarandrúmslofti og eftir dulítið af rauðvíni hafði enginn áhyggjur af því þó vatnið hafi vantað í lækinn.

brunello-di-montalcino-in-toscana
Brunello di Montalcino

Frjáls tími var svo eftir að komið var heim á hótel, en kl. 17:00 var mættur á hótelið „Sommelier“ – vínsérfræðingur, sem kynnti fyrir okkur 6 tegundir vína frá jafn mörgum vínhéruðum á Ítalíu.  Margir töldu sig færa í hvaða sjó sem er eftir þessa kennslu og vita upp á hár hvenær ætti að fúlsa við borðvíni og hvenær ekki.

Framhald á þessari ferðasögu birtist í næstu viku.

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s